Vekjaraklukkan var stillt klukkan 04:00. Fyrst var farið í sturtu svo voru allar tær og báðir hælar plástraðir og síðan voru fæturnir, þ.e. núningssár, smurð með vaselíni. Setti einnig plástur undir púlsmælinn, fæ nefnilega stundum núningssár. Svo um 04:30 fór ég upp til Ingu og krakkanna og fékk einn kaffibolla. Alltaf nauðsynlegt að fá sér kaffi á fastandi maga til að reyna að koma öllu í gang.
Það var mæting við bílana klukkan 05:00 og við náðum að leggja í hann klukkan 05:10. Vorum komin í Sålen klukkan 06:45. Þegar við komum inn í bæinn var mikil umferð svo við vorum mjög lengi að aka inn með ánni. Enduðum á að láta bílstjórana henda okkur út á leiðinni og gengum yfir ána en hún var sem betur fer frosin 😉 (höfðum reyndar skoðað hvort ekki væri fært þarna yfir deginum á undan).
Vasaloppet er 90 km gönguskíðakeppni (klassísk aðferð) þar sem gengið er frá Sälen til Mora, sjá nánar um sögu skíðagöngunnar hér: Sjá kort af leiðinni.
Næsta mál var að koma okkur fyrir inn í hólfunum. Við reyndar byrjuðum á að bíða í klósettröð þarna megin við ánna, þar voru bara tvö klósett en sú röð gekk allt of hægt svo við drifum okkur bara yfir ána og fórum með skíðin inn í hólfin okkar. Ég hafði fengið mig flutta í hólf 8 (þar sem ég var hrædd um að lenda í rauða kaðlinum, þ.e. ná ekki innan tímamarka, sjá STOP merkin sjö á myndinni) en þar sem klukkan var orðin 07:10 þegar við komum þá fengum við einungis pláss alveg aftast í hólfinu, þ.e. alveg við hólf 9. Eftir að hafa fundið pláss fyrir skíðin, þá var farið í klósettröðina.
Við tók um 45 mínútna bið eftir að komast á klósettið og það má alveg segja að við vorum komin í mjög mikla þörf þegar kom að okkur, auk þess sem við vorum orðin frekar stressuð að ná að vera komin á skíðin fyrir ræsingu. Samt voru fimm klósett þar sem við biðum en svona lagað gengur ótrúlega hægt og því miður engin sérstök kvennaröð. Við náðum á salerni JIT (Just in Time) eða rétt fyrir ræsingu en ég var í biðröðinni með Óla Má og Þóru þar sem ég var í sama hólfi og þau og stillti mér upp fyrir aftan þau.
Ræsing var klukkan 08:00. Þar var víst hleypt af byssuskoti en ég heyrði það ekki þar sem við vorum. Óli minn tók myndband af öllum fara yfir byrjunarlínuna og það tók hópinn allan um átta mínútur bara að komast yfir byrjunarlínuna. 15.800 gönguskíðagarpar voru skráðir til leiks.
Gangan fór því hægt af stað en ég fann um leið og við lögðum af stað að það var engin festa eða fatt á skíðunum, þ.e. ég gat ekki spyrnt mér neitt svo það var bara að ýta. Svo komum við að þessari frægu fyrstu brekku sem er frekar brött og þar var bara hægt að „saxa“ sig upp brekkuna, þ.e. það var enginn með festu til að ganga upp. Maður gekk þetta bara mjög útskeifur upp brekkuna til að renna ekki til baka. Það var búið að undirbúa mig vel í að passa stafina í þessari brekku því mjög margir brjóta stafina þarna. Það var engin lygi, ég sá mikið af brotnum stöfum og fólk út í kanti með nýja stafi til að afhenda þeim sem lentu í þessu þarna strax í byrjun. Ég passaði mig vel, var alltaf með stafina í klofinu og reyndi að hanga á eftir Óla og Þóru. Óli lét Þóru vera á undan til að hún réði hraðanum en mér fannst þau á köflum samt fara ansi hratt. Þegar við vorum komin upp mestu brekkuna var loks hægt að skíða og þá komst ég að því að það var nákvæmlega ekkert „fatt“ eða festa. Því var ekkert annað að gera en að ýta sér áfram. Það voru heldur engin spor, það snjóaði mikið og var mikið af nýföllnum snjó svo engin spor og engin festa kallaði bara á ýtingar. Ég grínaðist með það við Óla hvort það hefði nokkuð gleymst að setja undir Fatt svæðið hjá mér deginum á undan en þetta var eins hjá þeim.
Ég var búin að heyra að Vasaloppet væri bara ýtingar en ég hafði nú bara hrist hausinn yfir því og hugsað með mér að ég myndi nú bara fara þetta á minn hefðbundna hátt, þ.e. á „vanagangi“ enda ánægð að vera nýbúin að læra að skíða með því að nota fæturna og spyrnuna 😉 En það var ekki í boði núna 😉
Þegar ég var komin um 7,25 km, þá lenti ég í því að missa staf, þ.e. einhver skíðaði á hann svo hann smelltist af mér og ég þurfti að skíða aðeins til baka til að sækja hann. Þá missti ég Þóru og Óla alveg fram úr mér.
Ég skíðaði svo áfram, ef kalla má það því ég hélt áfram að „ýta mér“ áfram og fannst allir fara fram úr mér. Mér fundust þessar ýtingar líka eitthvað svo auðveldar fyrir alla nema mig. Ég var að rembast og reyna að nota öndun og magavöðvana eins og mér hafði verið sagt en þetta var endalaus rembingur á meðan aðrir, sérstaklega Svíarnir, ýttu sér áfram eitthvað svo áreynslulaust 😉 Þetta var „oplevelse“ svo maður sletti nú á skandínavísku 😉
SMÄGAN 11 km
Ég kom að fyrstu drykkjarstöð, þ.e. Smågan, klukkan 09:26:04, þá voru 11 km búnir og ég búin að skíða í 1 klst 26 mín og 04 sek. Meðalhraði var þá 7,49 mín á km eða 7,7 km á klst.
Ég stoppaði ekki lengi í Smägana, um 2 mín, gekk í gegnum veitingastöðvarnar, fékk mér heitan Energy drykk og volgt vatn og hélt svo bara áfram. Ég var að spá í að stoppa og reyna að smyrja skíðin en vissi ekkert hvað ég átti að setja undir. Ég var bara með „bláan extra“ (baukur til að smyrja skíðin) á mér og svo einhvern nýjan fjólubláan bauk sem var með plús hita og þar sem enginn hitamælir var sjáanlegur vissi ég ekkert um hitastigið.
Því hélt ég áfram og skíðaði næstu 13 km. Ennþá endalausar ýtingar og ENGIN spor. Það voru ALLIR að fara fram úr mér en mín tilfinning var sú að ég púlaði og púlaði og komst ekkert áfram. Mitt markmið er að verða betri í þessu einn daginn 😉
MÅNGSBODARNA 24 km
Ég hafði þessa 13 km samt af og kom í Mångsbodarna klukkan 10:42.45. Heildartími var þá komin í 2 klst 42 mín og 45 sek. Tíminn frá síðasta stoppi var 1:16:41. Meðalhraði var 5,53 mín á km eða 10,2 km á klst.VL16 076
Þar hitti ég Óla og Elínborgu, en þau voru mjög áberandi með íslenska fánann. Við höfðum keyrt í Mångsbodarna deginum á undan þegar við sóttum gögnin og það var mjög gott þannig að ég þekkti til þarna og vissi hvar þau ætluðu að vera. Einnig var ég búin að smakka bláberjasúpuna deginum á undan svo ég vissi að mig langaði ekkert í hana 😉VL16 077
Ég kvartaði við Óla og Elínborgu, sagði þetta drulluerfitt, en þau sögðu mér bara að þetta gengi vel hjá mér. Þau voru ekki búin að hitta neitt annað af okkur skíðagöngufólkinu, Bjössi og Örnólfur voru samt örugglega farnir í gegn. Ég hélt að Þóra og Óli væru löngu farin í gegn en hitti þau svo þarna þegar ég var að fara að leggja í hann.
Ég stoppaði í Mångsbodarna í um 8 mínútur (skv. Garmin úrinu mínu). Ég náði að fá mér grænmetissoðssúpu, sem var heit og góð, og volgan orkudrykk og volgt vatn og smakkaði þessa hveitibollu sem mér fannst nú ekkert sérstök og ekki langaði mig í bláberjasúpuna. Í stoppinu setti ég bláan extra undir, vissi samt að ég væri að setja „heitari bauk“ á „kaldan“ sem er ekki skynsamlegt en ég bara varð að reyna að gera eitthvað varðandi VL16 080festuna. Sá þarna eftir að hafa skilið fjólubláa baukinn minn eftir heima á hóteli, sem ég kalla Heiðmerkurbaukinn, því ég hafði notað hann mikið í Heiðmörkinni, hann er fínn fyrir svona mínus tvær gráður en ennþá sá ég hvergi hvað hitastigið var. Fékk mér líka eitt gel áður en ég lagði aftur af stað.
Eftir Mängsbodarnastoppið gekk mér aðeins betur, bæði fékk ég smá „fat“ sem var samt ekki mikið, auk þess sem það komu sem betur fer nokkrar brekkur niður á við. Þarna kom t.d. fræga brekkan sem allir detta í (myndband sem margir hafa séð, sjá hér. Ég sá t.d. þrjá á hausnum niður þessa brekku svo ég fór mjög varlega, alveg út í kanti í plógi. Ég lenti samt aftur í því að missa staf, þ.e. hann VL16 083varð eftir en núna var einhver sem náði að beygja sig eftir honum og koma honum til mín, þegar ég var að ganga til baka. Að sjálfsögðu datt ég nokkrum sinnum líka á leiðinni en var bara ánægð með að enginn skyldi detta ofan á mig í þessum látum.
RISBERG 35 km
Næsta veitingastöð var í Risberg. Þá var ég komin 35 km, klukkan orðin 11.59:33 og ég búin að vera 3 klst 59 mín og 33 sek á leiðinni og 1 klst 16 mín og 48 sek frá síðasta stoppi. Hraðinn þennan legg var aðeins meiri eða 6,58 mín á km eða 8,6 km á klst. Ég stoppaði ekki lengi enda vissi ég að það var enginn að taka á móti okkur þar svo ég var bara rétt eina til tvær mín. Fór í gegnum vatnsstöðina, fékk mér vatn og orkudrykk og hélt svo áfram.
Ferðin áfram gekk ágætlega, fann að ég var aðeins að komast í gírinn með „ýtingarnar“ og þannig var leiðin að Evertsberg bara svolítið mikil endalaus flatneskja og miklar ýtingar.
EVERTSBERG 48 km
Ég kom að Evertsberg klukkan 13:27:36. Heildartími komin í 5 klst 27 mín og 36 sek. og tíminn frá Risberg 1 klst 28 mín og 03 sek. Ferðin hafði gengið ótrúlega vel og ég var á 7.20 pace eða 8,2 km hraða.
Ég sá strax hvar Sigga var áður en ég kom að vatnsstöðinni svo ég stoppaði og spjallaði við hana. Ég fann að ég var frekar pirruð og þreytt að sjá ekki Óla því mig langaði svo mikið í kók. Ég hafði sagt Óla í Mångsbodarna hvað mig langaði mikið í kók og vonaði að hann hefði getað keypt handa mér kók og væri með það þarna í Evertsberg. Sigga vissi ekki hvar hann var svo ég hringdi í hann og þá var hann bara nýkomin og var hinum megin við drykkjarstöðina. Ég kvaddi því Siggu og fór í gegnum drykkjarstöðina, greip með mér grænmetissúpu, orkudrykk og vatn og brauðbollu og hitti Óla hinum megin við stöðina. Var frekar svekkt þegar ég komst að því að Óli var ekki með neitt kók (stundum fær maður svona sjúklega löngun í eitthvað og ég hafði ekki hugsað um annað en ískalda kók 😉 )
Ég reyndi aftur að setja FAT á skíðin og hafði ekkert annað en bláan extra, þorði ekki að setja þennan heita, vildi ekki lenda í því að láta snjóinn festast undir eins og ég hafði lent í á æfingum í Bláfjöllum. Stoppaði í Evertsberg í um 14 mínútur, fór aftur af stað þegar heildartími var komin í 5:41 skv. Garmin. Henti samt í mig einu geli áður en ég lagði af stað, þá var ég búin með þrjú gel. Það var ekki á plani að hitta Óla aftur svo ég sagði honum bara að ég ætlaði að klára þetta „helvíti“ það væru bara 42 km eftir – fjórum sinnum 10 km hringir 😉 (Ég brýt alltaf leiðina niður í smærri einingar, hugsa aldrei um heildarvegalengd sem er eftir 😉 og alltaf gott að vera rúmlega hálfnaður, því þá er auðvelt að telja niður).
Leiðin að Oxberg gekk ágætlega þar sem það var frekar mikið á niðurleið, auk þess sem þarna vorum við farin að sjá nýlögð spor en starfsmenn voru að leggja spor á leiðinni. Keppendur urðu bara að færa sig á annan helminginn á meðan og náðum við að svo að hoppa í nýlögð spor hægra megin á brautinni og var það þvílíkur munur. Þótt við þyrftum áfram að ýta okkur því festan var engin þá er miklu auðveldara að ýta sér á spori heldur en á sporlausu svæði. Ég hafði líka sett á mig bakstuðningsbeltið í Mångsbodarna og ég fann hvað það studdi vel við bakið sem var orðið smá tæpt eftir allar ýtingarnar. Tók líka Voltarin töflu en hafði gleymt að taka með mér Panodil.
OXBERG 62 km
Ég kom að Oxberg klukkan 15:08:25, þá búin að vera á ferðinni í 7 klst 8 mín og 25 sek. og 1 klst 40 mín og 49 sek frá síðasta stoppi. Ferðin gekk ágætlega, pace-ið var 6:43 eða 8,9 km á klst.
Fyrsta sem ég sé þegar ég er búin að ganga í gegnum veitingaþjónustuna, þ.e. orkudrykk og vatn, var Óli með ískalda kókdós handa mér. Þessi elska hafði farið og keypt kók handa frúnni. Mikið var ég glöð, hafði samt reyndar á leiðinni séð einhvern með kók út í kanti og plastglös og sníkti smá sopa en var virkilega glöð að sjá Óla. Stoppaði því í um fimm mínútur þarna með Óla.
Leiðin að Hökberg var líka smá upp og smá niður, þetta voru hólar upp og niður, minnti mig aðeins á Heiðmörkina. Fattið var ekkert og ég þurfti alltaf að nota saxið „útskeifu“ aðferðina við að komast upp brekkurnar. Hugsaði mikið um fjólubláa baukinn, skildi ekki af hverju ég lét Óla ekki hafa þessa bauka í bílnum. Velti einnig mikið fyrir mér hvort ég hefði átt að halda bara áfram því rennslið væri fínt eða hvort ég ætti að henda bláum extra undir í þriðja sinn í næsta stoppi.
Á milli Gopshus og Hökberg var Volvo með skemmtilegan bás sem maður skíðaði í gegnum og við endann var myndavél. Ég fór að sjálfsögðu þarna í gegn. Þegar ég er alveg að verða komin í gegn þá setti einn gönguskíðagarpurinn skíðastafinn sinn fyrir mig, svo ég flaug á hausinn. Þegar ég stóð upp horfði ég beint á myndavélina og hugsaði: skemmtilegur staður til að detta á andlitið 😉 Ég er búin að fá myndbandið sent og sem betur fer náðu þeir ekki þessu augnabliki, sjá hér:
HÖKBERG 71 km
Ég kom að Hökberg klukkan 16:11:10 – var þá búin að vera á ferðinni 8 klst 11 mín og 10 sek. (1.02:45 frá síðasta stoppi – hraðinn 6,58 pace og 8,6 km á klst). Ég hafði reyndar dottið á leiðinni, misst staf og hanskann líka, en sem betur fer ekkert alvarlegt. Stafurinn brotnaði ekki og hanskinn varð ekki blautur en ég var orðin nokkuð vön að detta og standa upp 😉
Þegar ég var búin að ganga í gegnum vatnsstöðina (fékk mér ógeðslegt Energy Gel) í Hökberg, sá ég Frakka vera að preppa skíðin sín. Spurði hann hvað hann var að setja undir og hann var að setja klístur sprey. Hann bauð mér að fá hjá sér en mér leist ekkert á það. Ákvað bara að halda mig við bláan extra bauk undir, þ.e. tvær umferðir. Fattaði svo þegar ég var lögð af stað að ég hefði gleymt að pússa yfir seinni umferðina svo ég fann að þetta var frekar að hægja á mér heldur en hitt (hausinn orðinn þreyttur – maður gleymir aldrei að pússa en ég gerði það þarna) og dauðsá eftir að hafa verið að vesenast þetta. Enda tók þetta mig um 10 mín. Ég lagði ekki af stað aftur fyrr en klukkan 8.20:00 .
Þegar ég svo fór út af svæðinu þá sá ég Prepp þjónustustöð, Swix, sem var engin biðröð í og ég dauðsá ennþá meira eftir að hafa verið að vesenast þetta sjálf. Ef ég hefði vitað af henni, hefði ég frekar rennt mér til þeirra og fengið þá kannski réttan bauk undir 😉 en það þýðir lítið að gráta gerðan hlut og ekkert annað í boði en að halda áfram. (Veit núna að Vallaservice – þýðir svona prepp þjónusta á sænsku). En það voru engar merkingar á ensku á leiðinni 😉
Leiðin frá Hökberg að Eldris var líka mjög svipuð, kannski ekki eins mikið af brekkum, svo ég hefði alls ekki þurft að bera þetta undir.
ELDRIS 81 km
Þegar ég kom að Eldris var klukkan 17:16:54. Þá var ég búin að vera 9 klst 16 mín og 54 sek á ferðinni (1.05:44 frá síðasta stoppi – hraðinn 6,34 pace og 9,1 km á klst). Ég stoppaði ekki lengi þarna, kannski eina til tvær mín, labbaði bara í gegn og fékk mér Energy þrúgusykurtöflur (þær voru góðar) og vatn og orkudrykk.
Nú vissi ég að það voru bara níu km eftir sem eru aðeins tveir litlir Bláfjallahringir í hausnum á mér. Maður var alltaf að brjóta leiðina niður og bera saman við eitthvað, níu km voru ekki neitt, enda 81 km búinn;-)
Leiðin frá Eldris að Mora er mjög falleg, farið í gegnum skóg en ég vissi ekki hvort hún væri bara niður eða svona upp og niður eins og hún hafði verið.
MORA 90 km
Það voru tvær tímaflögumottur í Mora, fyrri sem þeir kölluðu „forwarning“, þ.e. þegar um 600 metrar voru í markið og ég fór yfir þá mottu klukkan 18:03:02, og var þá búin að vera 10 klst 3 mín og 2 sek á leiðinni. Hraðinn frá Eldris að Mora var ágætur eða pace 5,26 eða 11,1 km á klst. Þarna fékk Óli meldingu um að það væru um 600 metrar í mig, en hann var með APP þjónustu í símanum þar sem hann gat keypt upplýsingar um alla þátttakendur sem hann vildi fylgjast með.
Þar sem ég hafði ekki farið leiðina, né þennan síðasta hluta, þá kom það mér á óvart að það voru tvær litlar, stuttar brekkur á leiðinni í gegnum bæinn. Maður fór yfir brú og svo þurfti að skera sig upp smá brekku. Þegar maður er orðinn þreyttur verður mjög lítil brekka svolítið stór og ég datt auðvitað á hausinn í síðustu brekkunni, alveg með andlitið á kaf í snjóinn 😉 Sakaði nú samt ekkert, svo ég bara hélt áfram og ennþá var einungis hægt að stika sig í mark með stöfunum. Fannst nú ekki mikið af áhorfendum við brautina, ætli þeir hafi ekki flestir verið farnir, hafa kannski verið þarna flestir um daginn þegar „pro-ararnir“ komu í mark 😉
Svo sá ég marklínuna, þekkti markið – þvílík tilfinning. Heyrði reyndar aldrei nafnið mitt, enda löngu hætt að nenna að hlusta á sænskuna 😉 Ég kom í mark klukkan 18:07:28, þá búin að skíða 10 klst 7 mín og 28 sek. (4 mín 26 sek frá forwarding Mora).
Ég var í 1105. sæti allra kvenna og 11.252. allra þátttakenda en það voru 15.800 þátttakendur skráðir og um 1100 manns kláruðu ekki.
Tilfinningin þegar maður kemur í mark eftir svona erfiða keppni er algjörlega einstök. Mig langaði mest til að gráta en lét það samt ekki eftir mér, þótt augun hafi verið tárvot af gleði.
Ég kom klárlega sjálfri mér á óvart að hafa náð að stika mér alla þessa leið, þar sem ég kunni það ekki áður en ég lagði af stað og gerði mér engan vegin grein fyrir að það yrði engin festa á skíðunum til að skíða vanagang.
Var einnig um tveimur klst á undan áætlun. Ég hafði eins og komið hefur fram miklar IMG_0438áhyggjur af því að lenda í „rauða kaðlinum“, þ.e. að fá ekki að halda áfram en það voru tímamörk á hverri einustu stoppistöð, þ.e. sjö vatnsstöðvum og síðustu tímamörkin voru í Eldris klukkan 19:00. Ég hafði grínlaust miklar áhyggjur af þessu þar sem ég er ekki góð skíðagöngumanneskja, með mjög takmarkaða reynslu og þjálfun. Ég kom í mark klukkan 18:07 sem var vel innan tímamarka.
Það er líka sérstaklega gleðilegt að við náðum öll 13 að klára sem vorum í hópnum hans Óla Má, því það er alls ekki sjálfgefið. Það getur allt komið upp eins og maður sá á leiðinni, auk þess sem það voru 1.105 sem kláruðu ekki.
Ég er virkilega þakklát að hafa fengið þetta tækifæri að taka þátt í Vasaloppet 2016. Þetta var mikil upplifun og virkilega skemmtilegt og sætur sigur að koma í mark í þessari sögufrægu keppni.
Vasaloppet 2016
Tímar Íslendinganna sem voru skráðir í Vasaloppet 2016, er að finna hér. Gulmerktir voru í okkar hóp, þ.e. hópnum hans Óla Má.
Hér má sjá alla þátttakendur koma í mark, ég sést koma í mark á tímanum 6:43:00, og já ég hoppa á skíðunum fyrir ljósmyndarann þegar ég kom í mark, næstum því Haddýjar hopp.
ÞAKKIR
Maður fer ekki „einn“ í svona ferðalag heldur eru margir sem koma að því og þeim vil ég þakka.
Ég þakka skipuleggjendunum, þeim fyrirmyndarhjónum Þóru og Ólafi Má, innilega fyrir að bjóða mér með í þessa frábæru ferð og alla skipulagningu sem var algjörlega til fyrirmyndar en við flugum til Osló, gistum á frábæru hóteli í Trysil í Noregi þar sem við gátum skíðað á gönguskíðum í þrjá daga fyrir keppnina sem var algjör snilld.
Ég þakka líka flottu krökkunum þeirra, þeim Birni Má, Þóri Sveini, Sóleyju og Tomma fyrir góð kynni og skemmtilega samveru, allt ofboðslega flottir krakkar. Ég þakka foreldrum Óla, þeim Birni Má eldri og Siggu og Palla sem er bróðir Siggu og Elínborgu konunni hans fyrir samveruna. Sigga, Elínborg og Óli minn voru á hliðarlínunni alla keppnina og hvöttu okkur áfram og kann ég þeim bestu þakkir fyrir það.
Ég þakka einnig Fjólu og Helga, Ingu Björgu, Örnólfi og Sigga fyrir yndislegar samverustundir. Það var alltaf gaman hjá okkur, hvort sem var í bílnum, í æfingum á gönguskíðunum, í preppinu niðri, í matsalnum eða á barnum. Ég óska líka öllum samferðarmönnum mínum innilega til hamingju með frábæran árangur í Vasaloppet 2016.
Ég greindist með brjósklos í mars í fyrra og hef verið að vinna á því meini með aðstoð frábærra sérfræðinga. Halldór Víglundsson sjúkraþjálfari er búin að kenna mér frábærar æfingar og hefur haldið mér algjörlega gangandi. Hann hefur einnig komið smá skynsemi í hausinn á mér, þegar ég fer á flug varðandi keppnir og æfingar. Það er algjörlega einstakt að vera með einn svona frábæran sjúkraþjálfara á hliðarlínunni, takk kærlega fyrir það nafni. Einnig hafa æfingarnar hjá Bjössa (Hilmar Björn) í Laugum verið ómetanlegar. Hann var fljótur að bæta inn gönguskíðaæfingum, eins og kaðlinum og æfa og styrkja þá vöðva (upphandleggi og bak) sem ég þurfti að nota í göngunni. Það er klárlega þeim æfingum að þakka að ég gat skíðað með „ýtingum“ sem ég kunni ekki, alla þessa leið, takk Bjössi kærlega.
Að lokum þakka ég Óla mínum og Kristó sem standa alltaf við bakið á mér, alveg sama hvaða vitleysu ég tek uppá og Óla fyrir að nenna að fara á gönguskíði með mér og þvælast um heiminn með mér til að takast á við nýjar áskoranir. Takk mínir kæru, luv ju 😉