Vaknaði klukkan 06:00 í morgun, fór samt ekki fram úr fyrr en korter yfir, fannst ég allt í einu ekkert hafa við allan þennan tíma að gera. Fékk mér svo kaffi á fastandi maga áður en ég henti mér í sturtu, algjörlega nauðsynlegt fyrir allar langar hlaupaæfingar eða maraþon. Svo var bara að plástra tærnar og smyrja með vaselíni. Var búin að græja gelið í Salomon skvísuna í gærkvöldi og gera allt ready, fyrir bæði maraþonið og hreindýraveiðarnar, en við ætluðum að aka beint austur eftir hlaupið. Var þar af leiðandi ekki komin upp í rúm fyrr en klukkan 00:00 í gærkvöldi. Gaf mér samt tíma í naglalökkun, keppnislakkið fyrir maraþonið.
Kristó kom svo heim rétt rúmlega sjö og átti þá eftir að fara í sturtu, fá sér að borða, láta Óla tape-a á sér ökklann og klæða sig í. Var nú orðin smá stressuð að við færum út á réttum tíma, en þar sem Óli skutlaði okkur, þá var minna stress að þurfa ekki að finna bílastæði, svo við höfðum aðeins svigrúm.
RÁSMARKIÐ
Við vorum komin niður í Lækjargötu rétt fyrir klukkan átta, en Íslandsbanki var með skemmtistaðinn, Græna herbergið lánaðan fyrir starfsmenn. Fórum beint þangað til að fara á klósettið og skila af okkur fatnaði og dóti sem við vildum geyma. Fórum svo að leita að Rúnu Rut vinkonu, því ég var með auka gel í poka sem ég ætlaði að lána henni. Leitaði um allt að henni, við Torfuna, við MR og út um allt, en það var orðið ansi fjölmennt úti. Var búin að reyna að hringja í hana og senda henni SMS en náði ekki á hana. Var því mjög glöð þegar hún kom svo í Græna herbergið, þar sem ég var að fara síðustu klósettferðina mína og gat komið gelunum á hana.IMG_4244 (2)
RÆSING
Ræsing í heilt og hálft maraþon var klukkan 08:40. Þegar ég var að fara að koma mér fyrir rétt fyrir aftan ljósbláu blöðrurnar sem voru með 1:53-1:58 tímann í ½ maraþoni, þá hitti ég Siggu og Pétur og Gúu og Önnu, þvílík tilviljun í öllum þessum fjölda. Svo við Kristó lögðum af stað með þeim. Þegar við erum rétt komin yfir mottuna segir Kristó mér að hann hafi látið pabba sinn tape-a rangan fót ha ha ha – gott þetta var ekki aðgerð 😉
Ræsingin gekk vel og mér leið vel. Það var samt vel heitt strax, sólin skein og það var blankalogn. Kristó gaf svolítið mikið í til að byrja með svo ég reyndi að halda í hann, en svo týndi ég honum mjög fljótlega, veit ekki hvort ég var á undan honum eða eftir 😉 Ég hélt því bara áfram og spáði ekkert í það hverjir voru í kringum mig, enda fjöldinn gífurlegur. Þrátt fyrir mikinn troðning fyrsta kílómetirinn, þá var ég á 5:26.14 pace. Hjartslátturinn var ekki svo hár, eða um 173 bpm. Tók ákvörðun fyrir hlaupið að ég ætlaði bara að horfa á einn glugga sem var þrískiptur, þ.e. pace, average pace og hjartsláttur bpm. Ætlaði að hlaupa maraþonið á púls og fara aldrei yfir 180 (gamalt ráð frá Ásgeiri) og aldrei að spá í klukkuna eða tímann.
MARKMIÐ
Þegar við Sjana skráðum okkur í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka, þá var upphaflegt markmið að ná Boston lágmarki. Miðað við minn aldursflokk þá er lágmarkið 3 klst og 55 mín en til að komast örugglega inn þá þarf ég að hlaupa á undir 3 klst og 50 mín. Þeir hleypa fyrst þeim að í skráningu sem eru með 20 mín betri tíma en lágmark, svo þeim sem eru með 10 mín betri tíma og svo þeim sem eru með 5 mín betri tíma. Enda síðan á þeim sem eru með nákvæmlega þann tíma sem þarf.
Fyrir nokkrum dögum komst ég að því að ég var bara ekki búin að æfa nógu vel til að fara maraþonið á þessum tíma og ætlaði því bara að fara það á gleðinni og njóta, taka það sem langa æfingu. Hafþór vinur minn Benediktsson var búin að bjóðast til að hlaupa maraþonið með mér og Ívar Trausti þjálfari Jósafatsson hafði fulla trú á að ég næði þessu. Þeir voru báðir virkilega duglegir að hvetja mig og höfðu báðir meiri trú á mér í þetta hlaup en ég. Endanlegt markmið hjá mér var að taka þátt, hlaupa þetta á púls, þ.e. aldrei yfir 180 og njóta og hafa gaman af þessu, en jafnframt langaði mig að ná PB þ.e. fara undir 4 klst múrinn.
Fyrir þá sem nenna ekki að lesa meira, þá náðist það, þ.e. ég fór á 3:55:26 flögutími, 3:56:19 byssutími, hafði mjög gaman af hlaupinu og leið vel allan tímann, average bpm 177. Sorglegt samt að vera 27 sekúndum frá Boston lágmarki en að kemur bara næst.
HLAUPIÐ
Við fiskbúðina á Nesveginum hljóp Sigga Rúna fram úr mér. Þá var ég að reyna að hægja á mér, óttaðist að ég væri að fara of hratt, þar sem maraþon er 42,2 km, þó var hjártslátturinn bara fínn. Var búin að ákveða að hlaupa fram hjá fyrstu drykkjarstöðinni sem var eftir um 4 km eða við Eiðistorg. Hafði lesið einhvers staðar að maður þyrfti ekkert að drekka fyrr en eftir 8 km, svo ég ákvað að prófa það.
Á Lindarbrautinni hitti ég Lilju Dögg hlaupafélaga, en hún hafði dottið á hraðahindrun á Nesveginum og misstigið sig, en fór samt á miklum hraða fram úr mér 😉
Þegar ég var komin á Norðurströndina, tók ég eftir því að ég hafði verið eiginlega allt hlaupið á svipuðum tíma og þrír hlauparar sem voru að hlaupa saman og kannaðist ég við einn þeirra. Stelpurnar voru tvær saman í fallegum sumar-hlaupapilsum. Ég heilsaði og sá að þetta var Þóra Björg Magnúsdóttir hans Sigga Þórarins sem voru með mér útí Chamonix í fyrra en hún hljóp þar OCC hlaupið. Ég spjallaði við Þóru og hennar félaga og komst að því að hún stefndi á að klára maraþonið á 3 klst og 45 mín (sem hún náði, innilega til hamingju Þóra). Ég sagði henni að ég ætlaði bara að njóta, en var hrædd um að ég væri að fara of hratt.
Fékk mér að drekka við Eiðisgranda þ.e. JL húsið gamla og tók þá líka inn gel enda komin um 8 km. Fékk mér bara vatn, ekki Powerade drykk, ákvað að prófa þetta í fyrsta skipti, alla vega framan af hlaupi. Það var ennþá mjög heitt svo ég var mjög dugleg að taka inn salt, sem bjargaði mér alveg.
GRANDAGARÐUR 10 km motta – tími:00: 52:51
Mér fannst skemmtilegt að hlaupa í fyrsta skipti Grandahringinn, þ.e. fram hjá Íslandsbanka og svo Grandagarðinn til baka. Fór yfir 10 km mottuna á Grandagarði á tímanum 00:52:51. Rétt eftir mottuna hitti ég Viggó sem hvatti mig áfram og tók þessar flottu myndir af mér.
Það var líka skemmtilegt að hlaupa í gegnum bæinn og fram hjá Hörpu þar var svo mikið af fólki að hvetja, virkilega skemmtilegt.
Stuttu eftir að við fórum fram hjá Hörpunni þá fékk vinkona hennar Þóru krampa í fótinn og fór að ganga. Ég hélt áfram með Þóru og fór að spyrja hana um besta marþon tíma hennar, ætli mér hafi ekki orðið svo mikið um of (hún á svo góðan tíma) að ég bara fékk hraðari bpm og hægði á mér ha ha ha 😉
Fékk mér svo aftur að drekka á drykkjarstöðinni fyrir framan Íslandsbanka, ennþá bara vatn, fór samt hratt fram hjá, en þar sem það var svo heitt og mikil sól (sem var ekki spáð) hellti ég yfir mig vatni, hefði kannski ekki átt að hella yfir bolinn því ég fann hvernig hann þyngdist og var ekki þægilegt að vera í honum svona rennandi blautum.
Rétt áður en ég kom að snúningspunktinum á Sæbrautinni (16 km) sá ég hvar Forseti Íslands var að hlaupa til baka og að sjálfsögðu heilsaði maður forsetanum og hann nikkaði kolli til baka. Mikill hraði á honum 😉
SUÐURLANDSBRAUT 20 km motta – tími 1:46:48
Við höfuðstöðvar Íslandsbanka á Kirkjusandi, skilja leiðir hjá 1/2 maraþoni og heilu. Þá hugsar maður, af hverju skráði ég mig ekki bara í 1/2 þá væri þetta að verða búið. En svo hugsar maður aftur, en hvað ég er glöð að þetta sé ekki að verða búið og ég er að verða hálfnuð, þetta er yndislegt, veðrið svo gott og forréttindi að geta hlaupið.
Það voru líka ótrúlega margir hlauparar í kringum mig, kannski ekki skrítið þar sem það voru 1.306 sem kláruðu maraþonið, fannst ekki svona mikið af fólki þegar ég tók þátt 2012. Hins vegar voru bara útlendingar allt í kringum mig. Það var maður á undan mér sem var með Ironman derhúfu, sá samt ekki í hvaða IM hann hafði verið í og var ekkert að trufla hann.
Það blés aðeins á móti okkur þarna upp að Suðurlandsbraut og var aðeins brekka upp í móti, svo það hægðist aðeins a hraðanum á mér, en mér var alveg sama, þar sem mér leið vel og passaði BPM (hjartsláttinn). Þegar ég var komin upp á Suðurlandsbraut og á leið inn í Laugardalinn var orðið verulega heitt, svo ég fór úr fína Dale Carnegie bolnum mínum.
ENGJAVEGUR VIÐ HÚSDÝRAGARÐINN 21,1 km motta – tími 1:52:51
Það var motta við Engjaveginn við Húsdýragarðinn og þar var í fyrsta skipti boðið upp á banana. Ég fékk mér smá vatnssopa og banana bita, án þess að stoppa. Tíminn þar eftir hálft maraþon 1:52:51, það hljómar ekki illa þar sem besti tími minn í 1/2 maraþoni er 1:49:49 árið 2011, árið sem ég byrjaði að æfa hlaup og fór mitt fyrsta maraþon.
Þegar við komum til baka úr Laugardalnum og hlupum fram hjá Glæsibæ, var búið að setja upp svið þar og skemmtilegur kynnir að spila músík og hvetja okkur áfram þar. Þegar ég tók þátt árið 2012 var ekkert svið þarna og mjög fáir að hvetja. Meira að segja flautuðu bílstjórar á okkur af Miklubrautinni þegar við hlupum yfir brúna við Mörkina til að hvetja okkur áfram.
VÍKINGSHEIMILIÐ 25 km motta – tími 2:14:10
Stoppaði í fyrsta skipti og labbaði drykkjarstöðina sem var við Víkingsheimilið og fékk mér Powerade þar líka í fyrsta skipti, enda komin 25 km á 2:14:10. Fór að hugsa til baka til maraþonsins 2012 þegar 4 klst blaðran náði mér í miðjum Fossvogi og velti fyrir mér hvort hún myndi ná mér þar aftur, því ég hafði ekkert kíkt á klukkuna eða tímann og vissi ekkert hvað tímanum leið.
UNDIR FLUGBRAUTINNI NAUTHÓLSVÍK 30 km motta – tími 2:42:54
Var glöð að komast Fossvoginn án þess að 4 klst blaðran hefði náð mér og hélt svo áfram yfir brúnna. Meðalhraðinn hafði hægst aðeins en mér leið samt mjög vel. Fann enga magakrampa þó ég hafi verið mjög dugleg að taka inn gel reglulega og drekka vatn. Held þessi tilraun með vatnið hafi gefið góða raun. Svo tók ég inn mikið af salti. Í hvert skipti sem mér fannst ég þurfa að pissa, þá tók ég bara inn meira salt og þá fór sú tilfinning. Tíminn eftir 30 km, við flugbrautina í Nauthólsvík var 2:42:54. Var búin að ákveða að stoppa aðeins þar og fá mér Powerade að drekka.
Það var klukka við mottuna þar og ég var frekar hissa að sjá tímann. Hugsaði wow, ég hef 1 klst og 17 mín til að klára þessa 12,2 km sem eru eftir til að ná PB og vera undir 4 klst, en ég var ekki með neinar væntingar um Boston lágmark og ákvað að halda áfram að spá ekki í klukkuna. Það var ekki vænlegt að stoppa því þá missti ég Ironman mannin og nokkra aðra sem ég hafði verið að hlaupa með fram úr mér og var því ein í smá stund að berjast við mótvindinn, en náði svo hópnum með því að gefa aðeins í 😉 Man ég hugsaði bara 12,2 km eftir, eins og einn stór Garðabæjarhringur. Alltaf gott að réttlæta og einfalda hlutina í hausnum á sjálfum sér 😉
ÚT UNDIR GRÓTTU 37,2 km – tími 3:25:53
Það hlupu margir fram úr mér á þessum kafla þarna við Gróttuna, en ég hafði hlaupið fram úr Ironman manninum við Seltjarnarnes sundlaugina. Gallinn við að hlaupa á svipuðum hraða og annar hlaupari er sá að þegar hægist á honum þá hægist einnig á manni sjálfum og ég var bara farin að hlaupa of hægt án þess að púlsinn hefði eitthvað hækkað, svo ég ákvað að fara fram úr honum þarna og auka aðeins hraðann.
Þegar ég kom að Gróttu kom einn hlaupari fram úr sem heitir Sigurður Ingvarsson og var að hlaupa maraþon númer 60. Innilega til hamingju með það. Þessi mynd var tekin af okkur og Sigurður sendi mér.
SÍÐASTA DRYKKJARSTÖÐ 40 km
Síðasta drykkjarstöðin var þegar 40 km voru búnir. Þá var ég aðeins farin að finna fyrir “líklegum” krömpum bæði í kálfum og framan á lærum. Ákvað því að stoppa alveg á þessari drykkjarstöð, fékk mér vatn, powerade og helti vatni yfir höfuðið á mér, þar sem það var svo heitt.
Var búin með öll gelin mín, svo ég fékk mér þrúgusykur sem ég hafði gripið með mér um morguninn. Svo krossaði ég bara fingur að ég myndi ekki fá neina krampa. Var nýbúin að sjá nokkra hlaupara út í kanti með mikla krampa í kálfum, sem voru að reyna að teygja og losna við þá, fann mikið til með þeim.
Ég var farin að hlakka til að hlaupa fram hjá Slippbarnum og hitta hlaupafélagana úr Þríkó-hlaup. Hefði samt ekki trúað því að óreyndu, hversu frábært það var að heyra hlaupafélagana kalla nafnið manns. Ívar Trausti hlaupaþjálfari var búin að láta útbúa plaköt þar sem þau skrifuðu skilaboð og nafnið manns á plakatið og þau héldu fullt af plakötum uppi þegar ég hljóp fram hjá. Þetta var svo magnþrungin stund, enda bara 1,2 km eftir í mark. Ég gladdist mikið, kallaði á þau að ég elskaði þau og gaf svo í. Hljóp virkilega hratt alla Geirsgötuna og hafði líka orku til að gefa í þegar ég hljóp Lækjargötuna.
MARK, 42,2 km motta = 3:55:26 flaga
Það var yndislegt að heyra nafnið manns kallað þegar maður var að koma í mark (og það tvisvar) og sjá andlit sem maður þekkti við markið. Þorði samt ekki að taka Haddýjar hoppið út af krömpunum þegar ég kom í mark.
Kom í mark á 3 klst 55 mín og 26 sek. Var virkilega glöð að ná PB og komast undir 4 klst múrinn, en á sama tíma hugsaði ég, það er grátlegt að vera 26 sek frá Boston lágmarki 😉 Hefði kannski átt að horfa á tímann á úrinu mínu.
Svo þýðir ekkert að vera með EF og HEFÐI, því ég hefði líka getað lent í því að fá krampa í hlaupinu og þá ekki einu sinni náð þessum tíma.
Þegar ég var að fara út af lokaða svæðinu fyrir maraþonhlauparana, þá festist vinstri kálfinn á mér í krampa og ég þakkaði Guði fyrir að það hefði ekki gerst nokkrum mínútum fyrr svo ég var virkilega glöð og sæl með mitt PB.
ÁRANGUR Í MARAÞONINU 2016
Hér að neðan er smá tölfræði um hvað þessi tími telur í samhengi við aðra hlaupara sem tóku þátt. Ég var:
#394 í heildina af #1306 sem klára
#69 af öllum konum sem voru #467
#25 í aldursflokki 40-49 ára af #140 konum
#7 í aldursflokki 40-49 ára af #17 íslenskum konum sem taka þátt.
ÞAKKIR
Verð að þakka Ívari Trausta hlaupaþjálfara fyrir að hafa trú á mér. Hann var eins og komið hefur fram alveg fullviss um að ég gæti náð Boston lágmarki og blés í mig sjálfstrausti þegar ég var ekki á því að ég myndi einu sinni ná undir 4 klst að þessu sinni. Áður en ég talaði við hann á Expoinu, ætlaði ég bara að taka þetta sem langa hæga æfingu 😉
Frábært framtak hjá honum líka að hóa Þríkó hlaupahópinn saman við Slippbarinn til að hvetja maraþon hlauparana áfram. Langar líka að þakka Hafþóri sem var tilbúinn að hlaupa með mér og pace-a mig og hjálpa mér þannig að ná Boston lágmarki, þó ég hafi bara ekki verið andlega tilbúin og hafði ekki trú á að ég myndi ná því, svo ég gaf það frá mér, en vona að ég eigi það inni hjá honum síðar. Það er ekki hægt að æfa nema maður sé í frábærum félagsskap og ég á bestu hlaupafélaga í heimi.
Æfði reyndar ekki mikið eða skipulega fyrir þetta maraþon, vegna fjallahlaupaæfinga í sumar, en tók tvær langar æfingar með vinkonum mínum sem eru yndislegar. Innilega til hamingju stelpur með maraþonið ykkar elsku Sigga Sig, Sjana og Rúna Rut og til hamingju með 10 ára hlaupa-afmælið þitt Rúna Rut.
Óska líka Kristó og Heklu til hamingju með sitt hlaup og öllum hlaupafélögum mínum með glæsilegan árangur.
TÍMA-SAMANBURÐUR VIÐ ÖNNUR MARAÞON
Hér að neðan er að finna samanburðinn við önnur maraþon sem fyrirmyndarhúsmóðirin (Maraþonía) hefur tekið þátt í:
2011 Kaupmannahöfn 4:35:33
2012 París 4:03:19
2012 Reykjavík 4:11:36
2015 Sevilla 4:01:50
2016 Reykjavík 3:55:26 (3:56:19 byssa)