Við höldum upp Seigne skarðið en það skilur að Frakkland og Ítalíu. Kunnugir tindar eins og Mont-Blanc de Courmayeur, la Noire de Peutrey, les Grandes-Jorasses virðast vera rétt innan seilingar. Við höldum svo niður í Veny dalinn að og fáum okkur góða hádegishressingu í Elisabetta skálanum (2195 m). Skálinn stendur undir skriðjökli og gríðarfallegum tindum sem heita Pýramídarnir. Ef aðstæður eru góðar má taka krók í kringum Pýramídana en þeim spotta var bætt við Ultra-Trail du Mont Blanc hlaupið í fyrra. Við hlaupum næst niður í Veny dalinn framhjá Combal vatninu áður en við höldum upp í næsta skarð. Leiðin héðan og til Courmayeur er líklega ein sú mikilfenglegasta. Fyrir ofan Courmayeur (1226) er skemmtilegur skáli, Maison Veille (1956m), þar sem gott er að fá sér létta hressingu og slaka aðeins á áður en við brunum niður langa brekku í bæinn. Eftir gott bað á hóteli í Courmayeur er upplagt að rölta í bæinn, kíkja á útivistarbúðir og fá sér gourmet ítalska máltíð. Gisting á hóteli í Courmayeur.
-Gríðarlega flottur alpadagur á leið sem er mjög hlaupanleg. Dásamleg fjallasýn allan tímann og skemmtilegt niðurhlaup til Courmayeur. Algjör gulrót að koma inn á hótel eftir langan dag á fjöllum og hér má verðlauna sig með 7 rétta ítalskri máltíð.