Við ákváðum að leggja snemma af stað, þar sem framundan voru um 30 km ganga, þ.e. að klára hringinn í kringum Snæfellið.
Eftir frábæran morgunmat, var pakkað niður, húsið þrifið og fjallaskíðum og skóm pakkað niður í púlkurnar.
Þá var allur farangurinn tilbúinn til að láta sækja sig, þ.e. trússa hann til baka.
Þegar við lögðum af stað fór sólin að skína, sem var nú ekki spáð. Svo fór aðeins að blása á okkur, en sem betur fer norðanátt, svo það var að mestu í baki.
Við tókum okkur svo smá pásu þar sem við fengum smá skjól.
Eftir að hafa verið komin upp á hæsta punkt, lentum við í frekar miklu roki, svo við bara settum út hendurnar og bjuggum í raun til vængi úr jakkanum okkar og við fukum á sléttunni, eftir reyndar að hafa langflest flogið á hausinn í brekkunni á leiðinni niður.
Já það er ekkert grín að vera á ferðaskíðum niður brekku í púðursnjó 🙂
Til að komast í skjól færðum við okkur aðeins neðar og það var magnað útsýni þarna yfir Eyjabakkana. Magnað að vera staddur þarna megin og í raun alveg undir Snæfellinu með útsýni yfir Eyjabakka Geldingarfell og alveg niður í Lónsöræfin.
Síðan sáum við Þrándarjökul sem mun að öllum líkindum hverfa á þessari öld og svo niður Fljótsdalinn og út á Lagarfljót.
Tókum svo lengri matartími um hádegisbilið í sólinni sem var algjörlega yndislegt.
Það var gaman að sjá hvar hægt er að fara upp á Snæfell þarna á suðurhliðinni.
Vorum því næst farin að sjá Laugafellið, það virkaði miklu nær en það var.
Náðum síðustu stoppustöðinni áður en það fór að snjóa á okkur, en við fórum síðustu km í snjókomu, þakklát fyrir að geta notað allan búnað og föt sem við vorum búin að bera á okkur í bakpokanum allan tímann 🙂
Það voru ALSÆLIR og glaðir gönguskíðamenn sem komu að skálanum í Laugafelli. Eftir teygjur og öl var farið aftur í heita pottinn áður en við fengum mjög gómsætan mat í kvöldmat.
Ölið kláraðist í skálanum og sú hugmynd kom upp að ég myndi bara skokka niður í bíla, þar sem nokkrar kippur voru, um 14 km leið. Þegar ég var orðinn tilbúin að drífa mig, þá mætti Ragnar Reykás á staðinn og hvatti mig til að fara ekki ha ha ha 🙂
Það var kannski ágætt, því mannskapurinn orðinn frekar þreyttur og allir komnir í bólið klukkan 21:00 🙂
Takk elsku Milla og Tóti fyrir frábæra ferð og fararstjórn. Kæru ferðafélagar takk kærlega fyrir yndislega samveru og samverustundir, hver einasti dagur náði að toppa daginn á undan .. svo mikil var gleðin <3