Lagði af stað klukkan 19:04 á fimmtudagskvöldi frá Valtournenche. Leiðin frá Valtournenche liggur fyrst upp fjall áður en farið er að fjallaskálanum Rif. Barmasse við stífluna, þar sem við Iðunn og Stefán Bragi gistum í síðasta mánuði og vorum í frábæru veðri.
Ég var hins vegar að príla þarna upp í bleytu og rigningu og því svolítið hált að reyna að ganga/hlaupa á steinunum.
Ég tók nokkrar myndir á leiðinni til að sýna Stefáni Braga og Iðunni hversu heppin við höfðum verið með veðrið þarna þegar við vorum hérna í ágúst. Myndirnar tók ég við torgið, á veitingastaðnum og í bænum Valtrounenche, þar sem ég keypti mér litla kúabjöllu, merkta Valtrournenche.
(16/9 17:26 Here we go again. Halldóra er farin af stað aftur með 10 tær. Og nú er erfiðasti áfanginn framundan. Leiðin liggur frá Valtorence aðeins niður og svo beint upp að Barmassa skálanum sem er í 2.175.- metra hæð. Góður stígur upp en bratt og hækkun upp á 800 metra. Næsta sólarhringinn mun Halldóra meira og minna halda sig í yfir 2.000.- metra hæð. Hún þarf að fara samtals 50 km til Ollomont með hækkun og lækkun upp á 5.056.- metra. Eftir Barmasse tekur við heilmikið skálaferðalag. Fyrst Rifugue Magia eftir 14 km, svo Rifugio Cuney eftir 3 km, svo Bivacc skýli eftir 5 km áður en að niðurhlaupið til Oyace tekur við sem er 9 km. og svo eitt fjall yfir til Ollomont sem Halldóra er búin að fara í sumar. Ekkert símasamband er á stórum hluta þessarra leiðar og ef GPS sendirinn kemst ekkert í lag þá vitum við ekkert yfir löng tímabil. Halldóra má ekki vera meira en 24 tíma að komast þessa leið til Ollomont lifebase. TOR segir að hægasti maður fari þetta á 22 klst. en ég fór þetta samt hægar 2019 á 22,5 tímum (Hughreystandi) En ég er bara bjartsýnn á að Halldóra massi þennan legg eins og aðra. Það góða við þetta er að það er afar sjaldgæft að þeir sem nái Ollomont nái ekki að klára TORinn, þannig að þessi leggur er mjög mikilvægur. Allir að senda sterka strauma, hún þarf á þeim að halda í nótt og á morgun. Og hún mun halda áfram að halda okkur í Spennutreyjunni. Stefán Bragi.)
(16/9 17:34 Halldóra fór út í sæti 400 og heldur áfram að ýta hlaupurum aftur fyrir sig. Það gefur góða von. Það eru núna 465 hlauparar enn með og af þeim eru 40 komnir í mark. 65 á eftir Halldóru og 247 hættir eða 35% Stefán Bragi.)
(16/9 19:02 GPS kerfið er ekki að lagast þannig að við beitum öðrum brögðum. Á þessum tímapunkti í hlaupinu eru allir hlauparar meira og minna jafnir. Yoshida Yosuke, Japani er okkar maður núna, BIB 509. Hann fór út af Valtornence á nákvæmlega sömu mínutu og Halldóra og ef ég þekki hana rétt þá eru þau núna orðnir vinir. Við sjáum hann mjög ofarlega í brekkunni upp í Barma skálann með 30 mínútna gamla staðsetningu og það er næsta víst að Halldóra er stutt frá honum. Hlaupararnir eru ekki að fá inn tíma í Barma, enda ekki símasamband þar, en eftir næsta skála veljum við nýjan vin og fylgjum henni þannig yfir fjöllin. Fremri hlauparar fengu tíma í Magio, Cuney, Bivacc og Oayce. Stefán Bragi).
(16/9 19:33 Yoshida Yosuke er kominn í Barmasse 21:15 og vonandi Halldóra með honum. Hann fór frá Valtornence 19:06 og er því búinn að vera 2 klst. og 9 mínútur a leiðinni. TOR úrhlutar hægasta manni 1,5 tíma í þennan legg. Þannig að þarna eru farnar 39 mínútur af umframtímanum. Ekki gott. Vonandi fer Halldóra hraðar en hann Stefán Bragi)
Ég kom inn í Rif Barmasse klukkan 21:12 (komnar 105 klst og 12 mín) 252,8 km og 22.390 m samanlögð hækkun. Ég ákvað að stoppa aðeins g keypti mér SPRITE sem ég fékk í glerglasi, það var svo gott og svo fékk ég líka heita kjúklingasoðssúpu, líka í glerkaffiglas sem var algjört æði, búin að fá ógeð á þessu plasti 😉 Náði að leggja mig í 10 mín, powernap og var svo alveg tilbúin til að halda áfram.
Þegar ég var komin niður langa brekku eftir fjallaskálann, þá kom snögg vinstri beygja og GULU FLÖGGIN vísuðu manni í þá átt, en GPS trackið í úrinu frá hlaupahöldurum sem ég var með sagði mér að halda beint áfram. Ég ákvað að taka beygjuna og elti gulu flöggin. Þegar ég er komin vel áleiðis, þá kalla tveir hlauparar á mig sem voru á eftir mér og sögðu mér að ég væri að fara vitlausa leið, ég kallaði til baka að ég væri að elta gulu flöggin.
Svo fóru að renna á mig tvær grímur, ég hélt ég væri kannski að fara ranga leið svo ég hringdi í Stefán Braga og spurði hann hvort ég ætti að elta gulu flöggin eða fylgja trackinu frá hlaupahöldurum sem ég var með í úrinu. Fyrst sagði hann að ég ætti að elta gulu flöggin sem ég gerði, en svo hélt hann að ég væri kannski að elta 130 km gulu flöggin, svo hann sagði mér að snúa við.
Þegar ég sný við þá hitti ég hóp af fólki, Frank Þjóðverjinn vinur minn var einmitt í þeim hóp og ég snéri þeim við líka. Þau enduðu á að hringja í stjórnstöðina og láta vita, því þegar við fórum hina leiðina þá voru engin gul flögg, en trackið var samt þá leiðina, en það voru Ítalir í hópnum sem gátu látið hlaupahaldara vita á ítölsku og við fengum grænt ljós á þetta.
(16/9 20:36 Við erum komin með nýjan vin. Reichardt Frank, þýskur langhundur með BIB númer 549. Hann er aðeins hraðari en Halldóra og hún er að reyna að hanga í honum. Náði að hringja inn númer fyrir okkur að elta. Stefán Bragi)
Svo komum við að vegamótum og þá komu aftur flögg, þ.e. frá vinstri hefðum við komið ef ég hefði haldið áfram mína leið, komið þá þennan hring, þ.e. gulmerkt leið, sem var smá útúrdúr. Til hægri áttum við að fara núna upp fjallið og þá loksins komin gul flögg aftur til að elta og við alltaf á tracki skv. Garmin úrinu mínu.
Þessi gulu flögg voru mjög sniðug og nauðsynleg og það var búið að líma á hvert flagg, svona endurskinslímmiða, svo þau sáust mjög vel í myrkrinu, enda algjörlega nauðsynlegt, þegar maður er einn á ferð. Ég held að leiðin sem ég ætlaði upphaflega að fara hafi verið rétta leiðin, en hin klárlega styttri, en ég stytti mér enga leið, þar sem ég fór hálfa hina leiðina og þurfti að snúa við svo ég fór örugglega lengra en ég hefði þurft 🙂 😉
Næsta tímataka var í Vareton (Torgnon) þá var klukkan orðin 23:37 á fimmtudagskvöldi, komnir 257,9 km og 22.911 m samanlögð hækkun (107 klst 37 mín).
(16/9 21:00 Nú lokaði Valtornence Out. Það fara ekki fleiri hlauparar í gegnum þá stöð. Þar með hefst niðurtalningin til Oayce sem er næsta Cut. Oyace er ekki lifebase þannig að það er bara 1 tími 13:30 á morgun. Reichardt nálgast Vareton og þá eru komnir 10 km. af 50 km. og 1.400 metrar af 5.056.- metrum af leiðinni til Ollomont – á 4,5 klukkutímum. Þannig að ef Halldóra hangir enn í honum er hún innan tímamarka, Stefán Bragi.)
(16/9 22:35 Nú erum við á „engar fréttir eru góðar fréttir“ tímabilinu. Halldóra er greinilega enn með en við höfum bara ekki hugmynd um hvar. Magnað að vinur okkar Reichardt fékk tíma í Vareton en enginn annar hlaupari sem er á eftir honum og er á GPS kortinu kominn fram hjá stöðinni. Við vitum því ekki hvar Halldóra er og hvort hún er komin í gegnum Vareton eða ekki. En vonum það besta. Lítið annað í stöðunni að gera. Hún er þarna á stöðugri uppleið, upp, upp, upp en aflíðandi og það er kolniðamyrkur og á vinsti hönd er djúpur dalur allan tímann og því ekkert ef þú lýsir til vinstri en brekka ef þú lýsir til hægri. Virkilega fallegur dalur að degi en lítið spennandi að nóttu til. Hún verður vonandi komin til Rifugio Magio kl. 02:00 og er þá komin 18 km. af þessum 50 km, Stefán Bragi.)
Næsta stopp var í Rif. Lo Magià, aðfararnótt föstudags klukkan 03:19 (111 klst 19 mín). Rif. Lo Magià er mjög flottur fjallaskáli. Ég var búin að ganga/hlaupa með Diego Polotti vini mínum alla leið niður í Rif. Lo Magià fjallaskálann og spjallaði mikið við hann, hann sagði mér að eiginkona hans og dóttir væru í fríi í Portúgal, að hann ætti heimili í Bormio, þar sem er geggjað skíðasvæði, fjölskylda konunnar hans rekur þar hótel. Diego er verkfræðingur og vinnur í Genf við að hanna nýjar rafmagnslestir, sem eru keyrðar á rafmagni og án ökumanna. Hann var mjög almennilegur og talaði ágætis ensku, en allar ítölsku konurnar sem ég talaði við, töluðu enga ensku.
Ég spurði Diogo þarna um nóttina, hvað hann gerði þegar honum liði illa, eins og hann væri ekki lengur í líkamanum sínum, heldur svona til hliðar við hann (ég var orðin frekar þreytt). Hann skildi mig og sagðist byrja á að borða, ég sagðist nú vera búin að gera það. Þá sagðist hann taka inn svona „koffín shot“ koffínskot og rétti mér lítinn innsiglaðan brúsa frá Enervit. Ég spurði hann hvort hann mætti missa þetta, og hann sagðist eiga annan, svo ég var mjög þakklát og tók við honum. Opnaði innsiglið og fékk mér sopa og viti menn, innan tveggja mínútna var ég aftur kominn til baka í líkamann. Þetta var mjög sterkt og vont á bragðið, þ.e. koffín skot, sem skilaði sér greinilega mjög vel „beint í æð“ eða beint í hausinn 🙂 Ég notaði þetta svo í þrjú til fjögur skipti í viðbót, þ.e. tók bara sopa í staðinn fyrir að drekka allt skotið í einu og virkaði alltaf jafn vel, en var alltaf jafn vont á bragðið 😉
(16/9 23:53 Vinur okkar Reichart er kominn upp á topp og byrjaður í niðurhlaupinu til Rifugio Magio fyrir 20 mín síðan. Það þýðir að hann verður kominn þangað eftir um 1 klst. eða um 01:00. Það er 1 klst. fyrr en áætlað var. Það styttist því í að við náum símasambandi við Halldóru í smá stund til að finna út hvort að Reichart er vinur okkar ennþá eða ekki lengur, Stefán Bragi.)
Í Rif. Lo Magià keypti ég mér expresso kaffi, alvöru ítalskt kaffi sem var mjög gott. Reyndi svo að taka 10 mín powernap bara liggjandi á borðinu sem gekk nú ekki vel. Vinur minn #546, Fernandez Francisco Benjumea sem hafði bjargað mér og látið mig hafa annan vettlinginn minn sem ég týndi fyrr um nóttina. Hann lá þarna í skálnum á bedda steinsofandi og ég dauðöfundaði hann og vini hans. Þeir voru alltaf svo hraðir upp fjöllin, en svo náði ég þeim yfirleitt á leiðinni niður.
Diogo fór svo ásamt vinum sínum út á undan mér, en ég fór bara ein út í myrkrið nokkru seinna.
(17/9 00:00 Smá hugleiðingar fyrir þá sem að ekki geta sofið. skv. tímum annarra hlaupara og tímaáætlun TOR þá hefur Halldóra 1,5-2 tíma til að komast frá Magio skálanum til Cuney. 2 tímar er með því að hvílast aðeins í Magio skálanum. Frá Cuney til Bivacc er um það bil aftur 2 tímar og frá Bivacc til Oayce er 3,5 tímar sem að mestu er niðurhlaup. Gangi það eftir að Halldóra sé rétt á eftir Reichart þá er hún komin 01:30 í Magio skálann, 3:30 í Cuney, 5:30 í Bivacc og 9 til Oyace. Bætum við 1 klst. í hvíld á leiðinni og þá væri hún að lenda 10:00 í Oyace. Cut þar er 13:30 þannig að Halldóra kemst þá í gegnum enn eina Cut stöðina vel innan tímamarka og þetta á að duga henni til að komast til Ollomont fyrir 15:00, sem er MUST. Þá tveimur tímum áður en Ollomont lokar. Þeir sem vakna í nótt geta skoðað hvernig Halldóru gengur að fylgja þessu plani. Lykiltíminn sem að tryggerar þetta plan er tíminn hennar inn í Rifugio Magia, Stefán Bragi.)
(17/9 06:09 Þetta verður tæpt. Það er ljóst að Halldóra náði ekki að hanga í vini okkar Reichardt. hann var kominn á 110:58 í Magio og Halldóra 111:19 og enn dró á milli í Cuney, hann var kominn þangað á 112:57 en Halldóra klukkutíma seinna á 114:03. Við erum því komin með nýjan vn Fabrice Gueriot, frakki með BIB nr. 730. Það hefur ekkert náðst í Halldóru, hún svarar hvorki SMS né síma og alltaf utan þjónususvæðis. Glugginn sem að hún hefði möguleg haft til að ná sambandi í Magio skálanum virðist ekki hafa opnast. Nú er kl. orðin 6 og við hefðum viljað sjá Halldóru komna í Bivacc en ef hún er á sömu slóðum og Fabrice á hún ennþá eftir 1 klst. þangð. Þar með er hún komin 1,5 klst. á eftir planinu hér í næstu færslu fyrir ofan. Það leiðir til þess að hún nær tímamörkum í Oayce en er orðin mjög tæp að ná tímamörkunum í Ollomont. Nú skiptir hver mínúta máli. Góðan daginn annars og eigið góðan dag, Stefán Bragi.)
(17/9 6:21 Það var að detta inn ný staðsetning á Fabrice. sem er einungis 15 mínútna gömul. Skv. henni er hann búinn núna með næstum alla hækkun til Bivvac og á sennilega ekki eftir nema 20 mínútur þangað. Það lagar aðeins stöðuna og ef Halldóra er að hanga í honum þá verður hún komin fyrir 7:00 í Bivacc. Þá er hún bara 30 mínútum á eftir planinu hér fyrir ofan (miðað við að hafa þegar notað 1 klst í hvíld) og auknar líkur eru á að hún nái Ollomont á síðustu stundu. Þannig að það verður spennandi að sjá tímann í Bivacc, 3,5 tímst þaðan til Oayce og Halldóra verður að spretta úr spori þann legg. Koma svo….., Stefán Bragi.)
Ég var mjög mikið ein um nóttina eftir Magio skálann. Næsta tímatökustöð var Rif. Cuney , klukkan 06:03 á föstudagsmorgni (114 klst og 3 mín) komnir 269,7 km og 24.202 m. hækkun. Þar hitti ég aftur vin minn #546 Fernandez F. B. sem hafði rétt mér vettlinginn sem ég missti. Á stöðinni var mjög samviskusamur ungur drengur, sjálfboðaliði, sem lagði sig fram við að sýna öllum hlaupurum, plakatið, þ.e. myndrænar upplýsingar um leiðina (hækkun og lækkun) fram að næsta tímatökustað, þ.e. Biv.R.Clermont. Fékk mér smá súpuseyði og heitt te í bolla á drykkjarstöðinni en stoppaði ekki lengi.
Þegar sólin kom upp þá varð ég að fara á SNAPPIÐ og sýna öllum þessa fallegu sólarupprás, en því miður á ég ekki afrit af því snappi til að deila með ykkur, en það er ljósmynd í myndaalbúminu hér að neðan sem sýnir hversu falleg sólarupprásin er. Getið rétt ímyndað ykkur hvað þetta er magnað, að vera einn lengst uppá fjalli og sjá sólina kom upp á bak við fjöllin, algjörlega magnað móment <3
Næsta tímatökustöð var Biv. R. Clermont, föstudagur klukkan 08:23 (116 klst 23 mín) komnir 274,4 km og 24.682 m hækkun. Þegar ég kom þangað var ég orðin frekar þreytt eftir nóttina svo ég lagðist út í fjögurra manna kláf sem var þarna fyrir utan litla skálann, með teppi og það hitnaði vel í kláfnum þegar sólin kom upp.
Eftir 10 mín powernap heyrði ég í Stefáni sem sagði mér að ég væri í góðum gír og gæti hlaupið niður allt fjallið. Fyrst væri bara upp eina brekku (eitt fjall) og svo gæti ég bara hent mér niður eftir alla leið. Mér leið vel eftir powernappið, tók samt eina verkjatöflu út af hnakkaverknum, fékk mér Powerbar Coca-Cola koffín gúmmí og henti mér niður fjallið, tók fram úr öllum á leiðinni og var komin í Oyace klukkan 11:17 (119 klst 17 mín), 285,10 km 25.038 metra hækkun.
Tímamörk í Oyace voru klukkan 15:30, svo ég var 4 klst innan við tímamörkin þar.
(17/9 7:00 Aðeins betri fréttir. Halldóra náði loksins í gegn, fann símablett og hringdi, er komin til Bivacc þó að það sé ekki búinn að skrást tími. Hún var að fara þaðan út, er orðin mjög þreytt eins og gefur að skilja en enn í keppnisham. Við náðum að ræða planið til Oayce og leiðina en nú er það bara ein stöð í einu. Skv. þessu gæti Halldóra náð til Oayce um 10:10 og má því miður nánast ekkert stoppa í Oayce til að ná Ollomont. Það verður mjög erfitt. TOR tímaplanið gefur hlaupurum ekki nema 3,5 tíma til að fara á milli Oyace og Ollomont, en hlauparar eru almennt 5-6 tíma að fara þá leið. Þess vegna er öruggt núna að Halldóra nái Cut í Oayce en ennþá óvíst með Ollomont. Við vitum það ekki fyrr en tíminn í Oyace smellur inn. Nú eru komnir 274 km. og 24.682 metra hækkun. Halldóra staðfesti að Fabrice með Bib 730 er vinur okkar núna, Stefán Bragi).
Á leiðinni niður í Oyace hitti ég Billi Francesca #438 sem Stefán Bragi hafði verið að elta, hún sat þar að hvíla sig. Ég fór til hennar og bað hana að aðstoða mig að komast úr hlífðar-buxunum sem ég var í yfir hlaupafötin mín, þar sem það var búið að vera frekar kalt um nóttina. Ég hafði hlaupið niður allt fjallið í hlífðar-buxunum og í ullarpeysunni og jakkanum, alveg að stikna úr hita. Francesca hjálpaði mér við að komast úr buxunum svo ég þyrfti ekki að fara úr skónum 😉
(17/9 9:14 og vitið hvað. Halldóra er búin að hlaupa niður allan helv. dalinn og er að koma inn á stöðina í Oayce. Skildi Fabrice eftir upp í dal. Hún er algerlega að massa þetta. næstum 1 klst. á undan tímanum sem að við bjuggumst við henni. Nú er smá stopp, 40-50 mín og hún fer aftur út af stöðinni 10:00 á íslenskum tíma. Powernapp og borða. Nú er ljóst að vegna þessa spretts mun Halldóra komast til Ollomont vel fyrir tímamörkin og þar með væntanlega tryggja sér að geta klárað TOR hlaupið innan tímamarka á morgun. Þessi klukkutími í vinning er að skipta gríðarlega miklu máli. Hún er ekki komin með tíma inn í Oyace en væntanlega er hún að fara upp um mörg sæti vegna þessa, Stefán Bragi.)
(17/9 09:26 Það er kominn tími á Halldóru í Oyace og hún fór upp um 21 sæti frá Bivacc, er núna í sæti 399 af 459 hlaupurum sem eru eftir. Það eru 126 komnir í mark og 60 á eftir Halldóru. 253 hættir, Stefán Bragi.)
(17/9 09:40 Ekki að það skipti neinu máli ern Fabrice vinur okkar var að koma til Oyace, Stefán Bragi. )
Stefán Bragi var búin að láta mig vita að Siggi Kiernan ætlaði að hringja í mig. Á drykkjarstöðinni við hliðina á kirkjunni hringdi Siggi. Hann var bara að spjalla og taka stöðuna á mér. Ég fékk mér epli og appelsínu sem ég skrældi og tók afganginn sem ég gat ekki borðað á staðnum í plastpoka með mér upp fjallið (gott ráð sem Siggi sagði mér í gsm) og það kom sér mjög vel síðar. Ég fór á salernið á drykkjarstöðinni, en ég fór ykkur að segja mjög sjaldan á salernið á þessum sex dögum, mér fannst ég þurfa mjög lítið að pissa í þessari ferð. Held að svitinn hafi farið að mestu út um líkamann á annan hátt, þ.e. oftast undir handakrikann, enda oft orðin mjög vond svitalykt af mér 🙂 LOL LOL LOL.
Eftir drykkjarstöðina í Oyace þá tók við brött fjallganga upp í bratt skarð. Þetta var leið sem við Iðunn höfðum gengið saman í frábæru æfingarferðinni okkar í ágúst. Á leiðinni þangað var tímatökustöð í Bruson l’Arp klukkan 14:13 (122 klst 13 mín) og svo kom ég að Col de Brison skarðinu klukkan 15:16.
(17/9 11:02 Halldóra er farin frá Oyace fyrir nokkru síðan, rúmlega 10. Hún og Iðunn voru 4 tíma að fara þessa leið til Ollomont óþreyttar í sumar. Þannig að við erum að vona að Halldóra nái þessu núna á 4,5 – 5 tímum frá brottfarartíma frá Oyace. Það gæti bætt enn hálftíma við aukatímann sem hún hefur á stöðinni. Við erum komin með nýjan vin Watteyne Martin með Bib nr. 605 til að fylgjast með Halldóru á þessum legg. Svo má sérstaklega leiðrétta fyrir Rúnu Rut að Fabrice er víst kona Halldóra bað fyrir yndislegar kveðjur til allra sem eru að fylgja henni þessa kílómetra sem eftir eru, af skiljanlegum ástæðum hefur hún ekki tíma til að svara kveðjum en lofar að bæta það upp tvöfalt þegar hún er komin í mark í Cormayeur, Stefán Bragi.)
(17/9 13:48 Klukkan tikkar. Halldóra er ekki enn búin að fá tíma á Berio Damon fjallaskarðinu, sem er toppurinn. Við hefðum viljað sjá þann tíma fyrir 1 klst. síðan……., Stefán Bragi.)
(17/9 14:23 Halldóra hefur ekki fengið tíma á Berio Damon toppnum en er að sjálfsögðu löngu kominn yfir hann og er á niðurleiðinni. Komin niður mesta brattann og á líklega 40 mínútur eftir inn á Ollomont Lifebase. Alveg bara eins og Strætó, á áætlun, en aðeins of seinn, Stefán Bragi.)
Þegar ég kom inní Ollomont bæinn þá langaði mig svo mikið í ís og gosdrykk. Fór á næsta veitingastað sem seldi bæði ís og gos, en vandamálið var að þeir tóku ekki kreditkort og ég var búin með peninga mína, kláraði þá þegar ég keypti þrjú armbönd í Rif Grand Tournalin (náði ekki að borga með kreditkortinu þar).😊
Konan í versluninni sá hversu þreytt og buguð ég var og vildi endilega fá að gefa mér ísinn og sagði að samstarfskonan sín ætlaði að gefa mér gosið. Ég gat ekki annað en þakkað þeim báðum kærlega fyrir mig og fann hvernig orkan hlóðst upp um leið og ég borðaði rjómaísinn, sem var besti ís sem ég hef nokkrum sinnum smakkað <3
Kom inn á Ollomont stöðina klukkan 17:05 á föstudegi (125 klst 05 mín) búin með 298,5 km og 26.602 m.hækkun. Tímamörkin þar voru inn klukkan 19:00 og út klukkan 21:00 á föstudagskvöldinu.
Mér leið orðið ofboðslega illa aftan á hálsinum svo ég leitaði strax til nuddara þegar ég kom á stöðina. Fann líka bedda og á meðan ég beið eftir nuddi, þá græjaði ég mig fyrir svefninn og fór að hlaða það sem þurfti að hlaða, símann, höfuðljósið og úrið. Fékk mjög gott nudd hjá einhverjum sérfræðing og bað hana líka að teipa á mér bakið og hálsinn til að reyna að rétta úr mér, hún tók svo af okkur mynd áður en ég fór, hefði verið gaman að eiga þá mynd núna, en hún eins og allir aðrir nuddarar, sjúkraliðar og sjálfboðaliðar voru einstaklega almennilegir.
Var í stöðugu sambandi við Stefán Braga á stöðinni sem sagði mér að ég gæti sofið í rúma klukkustund, en ég hafði sofnað líka á bekknum í smá stund hjá nuddaranum. Fór út af Ollemont stöðinni klukkan 19:27 (127 klst 27 mín), þá voru bara 90 mín í tímamörkin út.
(17/9 15:15 Halldóra er komin inn á Ollomont Lifebase á 15:02. Hún hringdi rétt áðan og baðst innilegrar afsökunar á að vera 2 mínútum of sein en hún bara varð að skreppa inn á veitingastað í Ollomont og fá sér ís og lemonsoda. Það var skilti fyrir utan. En þetta eru frábærar fréttir. Hún er tveimur tímum á undan Cut á Ollomont In og ætlar sér að fara út aftur eftir 2 klst. og eiga þessa tvo tíma til góða. Heilsan er bærileg, eymsli í bakinu líklega vegna mikillar stafanotkunar á niðurleið og hún er að reyna að komast í nudd á stöðinni. Þannig að nú getum við farið að skipuleggja lokasprettinn sem að hefst eftir 2 klst. 50,8 km eftir og bara 4.277 metra hækkun. Tvær stórar brekkur en miklu betri hlaupanlegir kaflar á vegum og malbiki inn á milli. Mun betri en voru í fjallaskálaleiðinni sem nú er að baki, Stefán Bragi.)
(17/9 15:24 Það er kominn tími á Ollomont inn 125:05 Sæti 403. 439 hlauparar eftir og þar af 36 á eftir Halldóru. Það hafa 20 í viðbót hætt og þeir eru orðnir 273 eða 38% þeirra sem hófu keppni, Stefán Bragi.)
(17/9 16:55 Það styttist í brott för frá Ollomont í síðasta áfangann. Það er bara ein Cut stöð eftir Merdeux kl. 8:00 í fyrramálið. Og síðan endamarkið Courmayeur kl. 16:00, Stefán Bragi.)
Búin með 298,5 km og 26.602 m. samanlögð hækkun. Tíminn út 19:27 um 90 mín fyrir tímamörkin út.