Upphaflegt plan gerði ráð fyrir að við værum að fara frá Rifugio Lo Magia til Oyace sem er 17 km leið um 500 m hækkun og 1600 m. lækkun. En frábæra sveigjanlega ferðaskrifstofan RANDON TRAVEL var búin að breyta plani og eftir frábæra pizzu í gærkvöldi, þá fann hún gistingu innst í dalnum, alveg upp við topp Matterhorn, sem sagt Ítalíu megin. Þetta er mjög líflegt skíðaþorp og hótelið tók vel á móti ferfætlingum, enda var mikið af uppstoppuðum dýrum á hótelinu.
Eftir morgunmat 08:25 með öllum ferfætlingunum var keyrt í þorpið OYACE þar sem við Iðunn hófum gönguna upp í skarðið Col De Brison sem er í um 2.500 metra hæð. Fyrst skoðuðum við fallegu kirkjuna í bænum og Stefán sýndi mér hvar drykkjarstöðin var, undir íþróttavellinum. Svo fórum við Iðunn af stað en Stefán ætlaði að keyra til Ollemont og koma á móti okkur, þ.e. upp skarðið þeim megin og hitta okkur vonandi við skarðið.
Gangan gekk vel hjá okkur Iðunni, samt þó nokkuð að flugu sem vildi ráðast á okkur, og svo fengum við íslenskan vind, sem var mjög gott, þar sem það var mjög heitt, sólin skein og 26 stiga hiti þegar við lögðum af stað.
Við fórum í byrjun yfir túnblett (sem hlýtur að verða sleginn fyrir TORINN) en þar lentum við eins og ég lenti í fyrsta daginn einhverju grasi sem stingur mann, eins og marglyttustungu. Síðan komumst við inná rétta stíginn, sem var mjög fínn.
Leiðin upp var brött, svo við áðum í skjóli við húsarústir, þar sem ég fékk mér HERBALIFE bar, er eiginlega búin að borða mest af honum síðan ég fór af stað. Stefáni Bragi kom svo á móti okkur, þ.e. hann var fljótari en við að keyra inn næsta dal og hlaupa upp skarðið hinum megin og kom á móti okkur niður. Hann hefur örugglega slegið öll hraðamet þarna upp á skarðið hinum megin.
Ferðin uppá topp gekk því vel, þar tókum við auðvitað myndir og svo héldum við áfram niður hinum megin í áttina að Ollemont. Þar sagði Stefán okkur söguna af því um þegar hann var í TORNUM árið 2015. Þá var honum og nokkrum öðrum sem voru að koma þarna á toppinn sagt að það væru bara 2 klst eftir af tímamörkum og þeir myndu ekki ná því. Stefán fékk hlauparana til að bruna niður fetir með sér og þeir hlupu því mjög hratt niður eftir, skiptust á að leiða. Hann endaði svo á að festa framlærisvöðvann og gat ekki gengið meira niður þegar bara 3 km voru eftir og ca. 30 mín í tímamörkin. Hann hljóp því afturábak í gegnum skóginn þessa km sem eftir voru og náði inn á Ollemont stöðina. Hins vegar náði hann ekki að losa vöðvann og varð því miður að hætta ;-( Veit þessa saga er lygileg, en hún er algjörlega sönn.
Þegar við vorum komin niður, þá sýndi úrið mitt 12,5 km og úrið hjá Iðunni næstum 15 km … alveg óþolandi ha ha ha, svo ég tók smá hlaupasprett niðri til að ná alla vegana 13 km. Líka gott að finna tilfinninguna að maður geti hlaupið eftir allt þetta klifur sem og erfiða og bratta brekku niður.
Skelltum okkur svo á besta hamborgarastaðinn í Aostos sem heitir PuBurger og hann stóðst algjörlega undir væntingum.
Keyrðum svo í gistinguna okkar sem er í bænum Valpelline, mitt á milli Aosta og TOR leiðarinnar okkar sem er hérna uppí fjalli fyrir ofan okkur.