Plan: 32 km, hækkun +354 m, lækkun -24 m
RAUN: 47 km og 604 m hækkun
Þar sem við Óli gistum hjá Kristjönu og Atla að Sigurðarstöðum á Melrakkarsléttu þá hittum við ekki Ísbjarnarhópinn fyrr en í morgun klukkan 09:45 að Mánárbakka. Það rigndi mikið síðustu nótt, svo þau urðu að pakka tjöldunum blautum. En þau borðuðu víst frábæran grillaðan silung, a´la Hrönn g Jón Örvar í gærkvöldi. Skipulagið hjá skipuleggjendum (google excel skjalið) var algjör snilld, frá A-Ö. Til að mynda þá fékk hver fjölskylda (aðili) úthlutað einu kvöldi, þ.e. að sjá um kvöldmat eitt kvöld fyrir allan A hópinn, þ.e. þá sem voru með í ferðinni alla leiðina, en það voru 35 manns. Svo sá hver bara um sinni morgunmat og nesti yfir daginn.
En það var einstaklega gaman að hitta hópinn að Mánárbakka. Við Óli komum dótinu mínu (tjald, dýna og svefnpoki, NF Duffelbag, kælibox og matarkassi fyrir í kerrunni hjá Sigrúnu og Hilmari.
Þar sem markmiðið var að hjóla frá strönd til strandar, þá þurftum við að byrja við ströndina, þ.e. um 16 km frá Mánarbakka, þ.e. austar. Það voru langflestir sem hjóluðu frá Mánárbakka að byrjunarstaðnum, allt á malbiki.
Sem sagt formlegur byrjunarstaður var við ströndina þar sem við dýfðum afturhjólunum á hjólunum í sjóinn, þ.e. Við Öxarfjörð, sem var skrítin tilfinning, vitandi það að framundan voru 9 krefjandi dagar á fjallahjólum yfir hálendi Íslands. Sumir ætluðu að skiptast á að hjóla og keyra en það var 13 manna hópur sem stefndi á að hjóla alla leið, um 560 km með rúmlega 6.000 metra hækkun.
Hjólaleið dagsins var einstaklega, þ.e. frá Tjörnesi að Þeistareykjum, undirlagið var að mestu á mjúkum, moldarstíg í gegnum grófið og fallegt undirlendi.
Að sjálfsögðu var matarstopp og eitt kaffistopp á leiðinni. Í stoppum er mikilvægt að vera með hlýja úlpu í bakpokanum sem maður fer strax í, því ef maður er sveittur og stoppar þá er maður fljótur að kólna. Ég var alltaf með frábæra 66 norður prímaloft-úlpu/jakka sem fer lítið fyrir í hjólabakpokanum en er mjög hlý og þægileg að skella sér í. Var líka alltaf með sessu sem ég settist á, sem er líka betra, en að setjast á blauta og kalda jörðina.
Þessi dagur var einstaklega fallegur og veðrið var mun betra en við áttum von á. Ég lagði af stað í tveim peysum og regnjakka, en þurfti fljótlega að fara úr annarri peysunni og svo úr jakkanum líka. En hjólaði í þægilegu “brynjunni” sem ég fékk í afmælisgjöf, sem er algjör snilld. Öryggið í fyrirrúmi, þar sem mig langaði ekki að slasa mig aftur á hjóli.
Skálinn að Þeistareykjum er mjög flottur, en við vorum með allan skálann, sem er upphitaður og með alvöru klósetti.
Guðrún og Elli sú um kvöldmatinn, en þau grilluðu lambalærisneiðar og voru með mjög gott meðlæti. Algjör veislumáltíð. Þar sem það var nóg pláss í skálanum, þá kom ég mér bara fyrir í efri koju, sem var reyndar það mjó að ég var smá stressuð að ég mynd detta fram af, en gat sett svona barnaspítu fyrir 🙂