Garðbæingurinn Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Samstarfsnets velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, er mikil hlaupadrottning. Fjallahlaup, þríþraut (götuhlaup, hjólreiðar og sund) og gönguskíði eiga hug hennar allan eins og sjá má á heimasíðu hennar, halldora.is.
Frá ljósastaurum til fjallahlaupa
„Fyrir 10 árum, þegar ég varð 40 ára, byrjaði ég á því að breyta mataræðinu og fór svo í kjölfarið að hreyfa mig. Fyrst gekk ég og hljóp á milli ljósastaura. Síðan fór ég í einstakan hlaupahóp, Bíddu aðeins, árið 2011 og sama ár í fyrsta maraþonið og fyrsta Laugavegshlaupið. Eftir það var ekki aftur snúið.“
Á Laugavegshlaupið sérstakan stað í hjarta þínu?
„Leiðin frá Landmannalaugum í Þórsmörk, þ.e. Laugavegshlaupið, er stórkostleg leið. Landslagið, litrófið í landslaginu, útsýnið, fjöllin, vötnin og árnar, allt er þetta stórfenglegt fyrir utan það að þjónustan og starfsfólkið í hlaupinu er svo hvetjandi og yndislegt.“
Bratti og ógnar hiti
Halldóra hleypur ekki bara á íslensk fjöll.
„Helsti munurinn er hæð fjallanna og veðurfar, því alls staðar er stórkostlegt útsýni. Fjallahlaupin í Ölpunum eru mun brattari og fjöllin hærri. Ég hef einnig lent í því að hlaupa í mjög miklum hita, um og yfir 30 gráðum, sem er ofboðslega heitt inni í fallegum dölum þar sem er engin vindkæling.
Hér heima æfum við okkur í Esjunni, Kerhólakambur er besta og brattasta æfingin fyrir þessi erlendu fjallahlaup. Til að undirbúa líkamann undir þennan mikla hita þarf að fara í gufubað og sauna.“
Fimmtug í Miðnæturhlaupi
„Svo skemmtilega vill til að 20. júní, þegar Miðnæturhlaup Suzuki fer fram, fagna ég 50 ára afmælinu mínu. Af því tilefni ætla ég að hlaupa 50 km, eða fimm 10 km hringi. Ég ætla að hjóla 50 km og synda 50 metra. Ég mun setja upp ákveðið tímaplan með upplýsingum um leiðirnar og bjóða vinum mínum að taka þátt, þ.e. taka einn hring eða fleiri með mér. Síðasti hringurinn verður hlaupinn í Miðnæturhlaupinu, 10 km leiðin, og hvet ég að sjálfsögðu alla til að fjölmenna þangað. Eftir Miðnæturhlaupið ætla ég að synda 50 metrana yfir í saltpottinn í Laugardalslauginni.“
Halldóra hvetur alla til að taka þátt með sér og í stað afmælisgjafa að styrkja vin sinn, Heimi Jónasson, sem glímir við taugahrörnunarsjúkdóm, á trausturvinur.is
Hægt er að fylgjast með Halldóru á samfélagsmiðlunum:
Instagram: @hallmatt
Twitter: @hallmattproppe