Vorum sóttar af leigubílstjóra í Hobbita-gistiheimilið okkar. Kvöddum Ann, fullvissar um að við myndum pottþétt koma aftur til þeirra hjóna, enda yndislegt að gista hjá þeim.
Í leigubílnum voru bresku hjónin vinir okkar, en þau voru þrjár nætur á Rómantíska hótelinu og gengu út frá því, voru með aðeins öðru vísi plan en við. Það var gaman að hitta þau aftur.
Við vorum keyrð uppá hæsta punkt á eyjunni La Palma, sem heitir Roque de lo Muchachos, rétt undir 2.500 metra hæð. Þar er mjög góð aðstað til stjörnuskoðunar og mikið af rannsóknarsetrum, mjög flottur staður.
Það var mjög hvasst þarna uppi og því skítakuldi fyrir okkur vinkonurnar sem vorum bara á stuttum stuttbuxum og hlaupapilsi og reyndar í vindjökkum, en ekki með húfu né vettlinga, sem hefði kannski ekki veitt af 🙂
En við hlupum samt alveg upp á toppinn á útsýnispallinn og hlupum svo niðureftir. Þetta er algjörlega mögnuð leið og við að hlaupa öfuga Transvulcania leið. Hlaupið er uppá þennan hæsta topp, fyrri hlutannn og svo niður vestan megin í eyjunni.
Við hlupum að mestu niður, en svona aðeins upp og niður fyrstu 15 km. Þá tókum við hægri beygju og þá var mjög brutal bratt niðurhlaup, næstu 8 km. Síðustu 8 km voru svona frekar aflíðandi, en við hlupum í gegnum bæinn El Paso (eins og Garðabær) til Llos Llanos (eins og Hafnarfjörður), en Transvulcania hlaupið endar þar. Mjög gaman að sjá þann fallega bæ.
Fengum okkur ofboðslega góða pizzu og bjóra (mjög góður óáfengur bjór á La Palma).
Tókum svo strætó til baka til Santa Cruz de La Palma. Þar sem við vorum saddar og sælar var kvöldmaturinn hjá okkur ís, með jarðarberjum og mars súkkulaði í hótelíbúðinni okkar, sem var „huges“ m.v. Hobbit-herbergið okkar í Fransesca.