Áramóta íþróttaannáll 2022

by Halldóra

Árið sem er senn á enda var mjög viðburðarríkt og skemmtilegt. Ég er þakklátust fyrir, eftir tveggja ára Covid tímabil, að hafi haldið heilsu eftir að hafa fengið vírusinn, enda er það alls ekki sjálfsagt. Vonandi er þetta lokunartímabil C-19 búið.

Ég lagði af stað með það markmið fyrir hreyfiárið 2022 að hreyfa mig eitthvað smá á hverjum einasta degi, hvort sem það var bara léttur göngutúr, eða styrktaræfingar. Kannski frekar háleitt markmið þar sem ég átti ennþá eftir að fá Covid, sem varð líka raunin.

JANÚAR var vel nýttur í skíðaæfingar, gæðaæfingar með Náttúruhlaupunum, hlaupaæfingar sem þjálfari með Stjörnunni, ásamt Arnari P. Var þjálfari á hjólaæfingum hjá ÞRÍKÓ í WC á fimmtudagskvöldum og stundaði sundæfingar.

Í FEBRÚAR fórum við Óli til Ítalíu á skíði (svigskíði) með Siggu og Pétri. Við gistum í Canazei og skíðuðum Sella Ronda, réttsælis og rangsælis og ég fór í fyrsta skipti og skoðaði bæinn Selva og skíðasvæðið þar í kring. Við komumst örlítið á gönguskíði, en ekki mikið þar sem það var lítill snjór í bænum. Æðisleg skíðaferð með yndislegum vinum. Verst var að Óli fór eiginlega lasin út (flensan) svo hann lá í rúminu á hótelherberginu helminginn af ferðinni.

Í lok febrúar flugum við Sigga svo til Osló með Brynju, Hrefnu og Óla hennar og keyrðum til Svíþjóðar til Sälen þar sem við bjuggum hjá Hrefnu og Óla og vorum með þeim ásamt Hörpu, Jimmy, Fjólu og stelpunum í heila viku. Yndislegur tími.

Í lok FEBRÚAR byrjun MARS tók ég þrisvar sinnum þátt í 90 km skíðagöngu. Fyrsta keppnin var Opið Spor (Oppet Spår) 28. febrúar, með Hrefnu og Siggu. Síðan fór ég í Næturvasakeppnina (Nattvasan) 90 km föstudagskvöldið 4. mars alein og að endingu í Vasagönguna sjálfa 90 km þann 6. mars með Siggu og Jimmy. Allar þrjár keppnirnar voru ólíkar en mjög skemmtilegar. Það tók alveg á, að fara þrisvar sinnum 90 km skíðagöngu á einni viku.  Síðasta keppnin var erfiðust þar sem ég datt í Næturvasa keppninni og var líka komin með slæma blöðru á stóru tána á hægri fæti. Er því mjög stolt af mér að hafa klárað allar keppnirnar. Þess á milli vorum við að njóta þessa fallega svæðis Lindvallen þar sem Hrefna og Óli eiga fallega íbúð. Frábær ferð með yndislegum félögum.

Þann 18. mars fékk ég Covid-19 og með því fór að sjálfsögðu markmiðið um skráða æfingu í Strava á hverjum degi. Ég gat ekki æft neitt nokkra daga í mars þar sem heilsan var mjög slæm. Ég var með síðustu æfinguna sem þjálfari Stjörnunnar þann 30. mars, þar sem ég ákvað að einblína á Náttúruhlaupin. Markmið sumarsins í utanvegahlaupum voru mjög háleit og því þurfti ég að leggja megináherslu á þau.

Í APRÍL fór námskeiðið Laugvegshópur Náttúruhlaupa af stað þar sem ég var einn af þjálfurum. Ég var ennþá að glíma við rifbeinin sem brotnuðu við byltuna í Næturvasakeppninni. Við Óli vorum samt mjög dugleg að skíða í apríl. Við tókum fram fjallaskíðin og fórum á Snæfellsjökul. Fórum líka í frábæra ferðaskíða- og fjallaskíðaferð í kringum og uppá Snæfell með Millu og Krillu-ferðum og frábærum félögum.

Gæðaæfing í Laugavegsnámskeiðinu í Heiðmörk þann 18. apríl var afdrifarík þar sem ég missti út úr mér, að ég þyrfti að komast í Yoga kennaranám þar sem ég væri eins stirð og Solla stirða. Nafna hennar, Sigga Lára, tók mig á orðinu og bauð mér með sér í morguntíma í Iceland Power Yoga daginn eftir, þ.e. 19. apríl. Eftir tímann varð ekki aftur snúið. Ég keypti mér 3ja mánaða kort og skráði mig í Baptiste Power Yoga námið sem átti að byrja um haustið.

Í apríl tók ég líka þátt í ÍR-hlaupinu á sumardaginn fyrsta þann 21. apríl.

Ég tók þátt í IMOC 2022, Íslandsmóti í sundi, með mömmu í Ásvallalaug í Hafnarfirði 6. og 7. MAÍ.  Ég var með nýliðanámskeið á vegum Náttúruhlaupa og Stjörnunnar í maí og tók þátt í Stjörnuhlaupinu 10 km 21. maí. Ég hljóp nokkrar Esjur og fór aftur á fjallaskíðum á Snæfellsjökul sem var einstaklega skemmtilegt. Ég prófaði líka hjólaskíði í fyrsta skipti með Ferðahópnum Ísbjörnunum.

Í JÚNÍ var ég dugleg að gera styrktaræfingar frá Styrktarþjálfun Bigga (Coach Birgir). Ég hélt áfram Náttúruhlaupa-Laugavegsæfingum með hópnum mínum, sem bar heitið Hrafntinnusker. Ég hljóp Hengil Ultra 26 km miðnæturhlaupið 3. júní og fór á nokkurra daga utanvegahlaupanámskeið á vegum FRÍ hjá ÍSÍ sömu helgi og endaði á að hlaupa Hvítasunnuhlaup Hauka 17 km þann 6. júní. Ég var líka dugleg að mæta í Power Yoga tíma hjá Iceland Power Yoga með utavegahlaupunum og Esjuhlaupunum og styrknum. Við Helga María stofnuðum skemmtilegan stelpuhóp „Girls Who Love to Run“ og fyrsti hittingurinn var á afmælinu mínu 20. júní, sem var tilviljun, ekki skipulagt sem afmælishlaup, en mjög skemmtilegur dagur. Ég skellti mér síðan í einnar nætur flug og gistingu með Kristófer (syni okkar) til Chicago 24. júní og hljóp með Kristó í Chicago um 15 km.

Í JÚLÍ voru Laugavegsæfingar reglulegar sem og styrkur hjá Bigga og nokkrar sund- og hjólaæfingar. Ég kláraði Laugavegshlaupið í sjöunda skiptið þann 16. júlí. Ég var mjög lasin í hlaupinu og á mánudaginn eftir hlaupið fór ég til læknis og fékk uppáskrifað pensilín, þar sem ég var komin með lungnabólgu. Hann sagði að ég væri alls ekki að fara í Alpana fimm dögum síðar. En ég hvíldi alla þá viku (þar með fór markmið algjörlega um Strava æfingu á hverjum degi) og flaug svo til Genfar laugardaginn 23. júlí með fyrri hópnum sem hljóp TMB (Tour Mont Blanc) hringinn með okkur Sigga Kiernan á vegum Náttúruhlaupa.

Ég var mjög lánsöm hversu fljót ég var að ná heilsu þannig að ég treysti mér til að fljúga út og hljóp hringinn með þessum frábæra hópi. Viku seinna eða 30. júlí kom Óli út til Chamonix og var með mér yfir verslunarmannahelgina. Því miður veiktist ég af Nora vírus síðustu nóttina, þ.e. nóttina áður en Óli kom út, svo ég var hálfmeðvitundarlaus þegar Óli kom og daginn eftir. Við náðum einum góðum degi saman áður en að hann veiktist líka.

Þannig að 1. ÁGÚST hjóluðum við Óli saman frábæran e-bike hjólatúr um Chamonix. Síðari hópurinn kom út til Genfar 4. ágúst með sömu vél og Óli og Siggi K. og fjlsk. flugu heim. Seinni hópurinn lagði af stað 5. ágúst og gekk sú ferð líka mjög vel. Báðir hóparnir voru algjörlega frábærir, yndislegir vinir manns. Seinni hópurinn var samt heppnari með veður, að því leiti að það var ekki eins ofboðslega heitt og fyrri vikuna. Eftir heimkomuna náðum við Óli að hjóla að eldgosinu að Merardölum sem var frábært því það gos var ekki í marga daga. Ég hljóp einnig með skemmtilegum samstarfskonum 10 km í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Ég æfði áfram utanvegahlaup með því að hlaupa nokkrar Esjur og létt utanvegahlaup fyrir UTMB sem var aðalmarkmið ársins 2022. Ég hafði reynt við þetta hlaup þ.e. UTMB árið 2017 en varð að hætta þar sem ég fékk astmakast í fyrsta skipti (áreynsluastmi) og var ekki með neitt púst og því náði ég ekki til Courmayeur innan tímamarka. Í ár flaug mamma með mér til Genfar og var með mér í Chamonix þessa viku og það var yndislegt að vera með henni úti sem og að hitta hana á drykkjarstöðvum í keppninni sem og þegar ég kom í mark.

Ég kláraði þetta „mekkahlaup“ utanvegahlaupara, UTMB 100 mílur, eða 176,6 km. með 10.167 metra hækkun skv. Strava, á 45 klst. Náði öllum markmiðum mínum, þ.e. að komast að ráslínu, klára og hafa gaman alla leið. Mér gekk mjög vel fyrstu tvö fjöllin, svo bankaði gamli astminn uppá, en þá er bara að hægja á sér upp fjöllin og reyna að ná næstu drykkjarstöð innan tímamarka. Eina sem skyggði á gleði mína var að vinir mínir þeir Siggi og Börkur náðu ekki að klára, Siggi var lasinn svo hann lagði ekki af stað og Börkur var veikur á leiðinni og þurfti að hætta keppni.

Fyrri hluti SEPTEMBER var „recovery“ tími eftir UTMB. Mikið af sundæfingum, léttar gæðaæfingar en áframhaldandi styrkur, skv. plani frá Bigga. Um miðjan september fór ég samt að æfa hlaup aðeins á malbiki þar sem ég var bókuð í Berlínarmaraþonið 25. september og var fararstjóri með hóp á vegum Bændaferða. Ég náði lengst 18 km og einni 16 km æfingu fyrir maraþonið sem er kannski ekki alveg nógu mikið né gott.  

Markmiðið með Berlínarmaraþoninu var því alltaf að fara, taka þátt og hafa gaman og fá medalíuna. Það gekk eftir og ég hljóp það á 4 klst. og 20 mín, mjög skynsamlega. Berlínarmaraþonhópurinn var alveg frábær og mjög gaman að upplifa borgina á hlaupum og kynnast nýju, yndislegu fólki.  Eftir maraþonið lagði ég að mestu áherslu á Jóga og styrk, þar sem Jóga kennaranámið byrjaði fimmtudaginn 29. september en fyrsta helgin var í byrjun október.

OKTÓBER mánuður var því að mestu tileinkaður Jóga. Kennaranámið Baptiste Power Yoga á vegum Iceland Power Yoga, var kennt fyrstu tvær helgarnar í október, síðan komu tvær fríhelgar, aftur tvær Jóga helgar, aðrar tvær fríhelgar og að lokum þrjár Jóga helgar í desember. Hver kennsluhelgi var eftir vinnu á fimmtudögum og föstudögum fram á kvöld og svo allan laugardag og sunnudag. Við lærðum mjög mikið í Jóga fræðunum og ég heillaðist gjörsamlega af Yin Yoga sem ég held að allir hlauparar hefðu gott af því að stunda. Beinþynningin mín er ekki að hjálpa mér svo ég lenti í því að gamla rifbeinsbrotið frá því í Næturvasakeppninni brákaðist aftur í  Power Yoga tíma, aðra kennsluhelgina. Ég heyrði þegar það brotnaði og það er ekki gott að hreyfa sig; hlaupa, synda, skíða eða stunda Jóga rifbeinsbrotin. Þá er bara að aðlaga hreyfingarnar eftir því sem maður getur. Ég fór líka á sérstakt hand- og höfuðstöðunámskeið hjá Ingu í Iceland Power Yoga (IPY), enda alltaf verið draumur hjá mé r að geta staðið á haus og að mér fannst mjög fjarlægur draumur. Reynslan hefur kennt mér að maður á aldrei að segja aldrei eða að maður geti ekki eitthvað.

NÓVEMBER fór þannig að mestu eins og október, í Jóga. Ég fór líka á sérstakt Asana kvöldnámskeið hjá Ingu í IPY. Jógatímar, jógakennsla og hugleiðsla, ásamt jú nokkrum hlaupaæfingum, NH gæðaæfingum, Esjum og jú svo nokkrum sundæfingum sem voru teknar í nóvember.  Styrkur að hætti Bigga (Coach Birgir) var líka á dagskrá, en hefði mátt taka það fastari tökum. Náði að mæta í einn tíma í Sporthúsinu með Team Rynkeby. Það er markmiðið á nýju ári að vera duglegri að hjóla, bæði sjálf sem og með félögum mínum í Team Rynkeby.

DESEMBER var líka að mestu tileinkaður jóga, æfingum og náminu, enda kláraði ég Jóga námið og fékk „Certified 200 klst jógaréttindi“ þann 11. desember í formlegri útskrift. Ég hélt að sjálfsögðu áfram að mæta á jógaæfingar og stundaði hugleiðslu heima, hélt einnig áfram að þjálfa NH gæðaæfingar á þriðjudögum, þótt það væri kominn bæði mikill snjór og frost. Ég er mjög stolt af öllum þeim sem héldu áfram að mæta. Það er árlegur viðburður að taka þátt í Þorláksmessusundi Breiðabliks og Gamlaárshlaupi ÍR sem ég að sjálfsögðu gerði. Þess á milli fórum við Óli á gönguskíði og ferðaskíði á vötnum höfuðborgarsvæðisins, þ.e. Rauðavatni, Elliðaárvatni og Hvaleyrarvatni.

Á næstsíðasta degi ársins, náði ég markmiði mínu að safna 1000$ fyrir „Free to Run“ samtökin, en ég er mjög stolt af því að vera sendiherra (e.ambassador) Free to Run á Íslandi. Það er ennþá hægt að heilta á þessu frábæru samtök sem eru að hjálpa konum í stríðshrjáðum löndum að mennta sig, fá að hreyfa sig og auka sjálfstæði þeirra og styrkja þær á allan hátt. Þakka öllum þeim sem hafa heitið á mig og styrktu þannig samtökin. Mér finnst mikilvægt að geta gefið af mér til góðs í allri þessari hreyfingu minni.

STRAVA ÁRIÐ 2022 Í HNOTSKURN
324 virkir dagar
106.826 hæðarmetrar sem ég kleif.
4.183 km sem voru farnir.
Hlaup var algengasta sportið.
Í topp1% af virkustu meðlimum Strava á árinu 2022 (fjöldi daga sem voru 324).
Lengsta æfingin var 176,6 km UTMB hlaupið.

KEPPNIR ÁRSINS (samandregið)
Oppet spor 90 km
Nattvasan 90 km
Vasaloppet 90 km
ÍR hlaupið sumardaginn fyrsta 5 km
IMOC Íslandsmeistaramót í ýmsum sundgreinum
(50m 100m og 800 m skriðsund, 100 m og 200 m bringusund og skrið í tveimur boðsundssveitum)
Stjörnuhlaupið 10 km
Hengill Ultra 26 km
Hvítasunnuhlaup Hauka 17 km
Laugavegshlaupið 55 km
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 10 km
Ultra Trail du Mont Blanc UTMB 100 mílur /176 km
Berlínarmaraþonið 42,2 km
Þorláksmessusund Breiðabliks 1.500 m
Gamlaárshlaup ÍR 10 km

ÞAKKIR:
Takk elsku Beta (Elísabet Margeirsdóttir) fyrir frábært hlaupaplan sem ég fékk fyrir UTMB hlaupið sem var A-markmið ársins .
Takk Biggi (Coach Birgir/Birgir þjálfari) fyrir að halda mér við efnið með mjög góðum styrktaræfingum og plönum.
Takk Alparnir fyrir frábæra skó, Salomon Ultra Glide sem ég hljóp í, í allt sumar og frábæran Salomon hlaupafatnað og hlaupavesti.
Takk Telma og Bætiefnabúllan fyrir ykkar frábæra stuðning með frábærum vörum, bæði orku, prótein og recovery drykkjum.
Takk kæru gönguskíða/sundvinir mínir, fyrir yndislega samveru hvort sem er í lauginni eða á sporinu.
Takk kæru vinir úr Jóganáminu, yndislegt að kynnast ykkur og fara með ykkur í þetta magnaða ferðalag.
Takk frábæru æfingafélagar í Náttúruhlaupunum, Stjörnunni, Þríþrautardeild Breiðabliks og allir sem komu með okkur í frábæru námskeiðin og ferðirnar okkar, þ.e. báðar TMB ferðirnar og Berlínarmaraþonið.
Takk elsku Óli fyrir allan stuðninginn og þolinmæðina fyrir öllu þessa íþróttabrölti mínu, elska þig og takk mamma fyrir að koma með mér til Chamonix í sumar <3

Það sem stendur upp úr eftir þetta ár, er þakklæti. Ég er þakklát fyrir að eiga frábæra fjölskyldu, vini og vinnufélaga. Einnig er ég auðmjúk og þakklát að hafa heilsu andlega og líkamlega til að geta verið úti að leika mér, bæði á æfingum og í keppnum.
Ferðalagið í frábærum félagsskap vina er það sem skiptir öllu máli, keppnin sjálf er einungis toppurinn á ísjakanum <3 < 3 <3

TAKK ÖLL KÆRU VINIR, ÞIÐ VITIÐ HVER ÞIÐ ERUÐ <3 <3 <3



You may also like

Leave a Comment