#7 Tor dés Geants, Rey (Ollomont) – Courmayeur

by Halldóra

Eftir að hafa farið út af Ollomont stöðinni klukkan 19:27 (komnir 127 klst og 27 mín), 298,5 km og 26.602 m samanlögð hækkun, var ég frekar rugluð og tók til að mynda strax ranga beygju, þ.e. til hægri í staðinn fyrir vinstri og þurfti að snúa við, eftir nokkur hundruð metra 😊 Það var enginn að kalla á mig núna, þó ég færi vitlaust, en sá bara allt í einu engin gul flögg 🙂

(17/9 17:06 Halldóra er að leggja í hann. Náði einhverjum svefni, kannski 1 klst og það verður að duga. Fætur í lagi, ljós, sími og úr hlaðið. Tékklistinn yfirfarinn fyrir síðasta legginn. Framundan er strax 1.080.- metra brekka upp að Rifugio Champillon skálanum, þar sem hægt er að taka stutt stopp fyrir efri partinn. Þaðan er rúmlega 300 metra hækkun upp í fjallaskarðið. Eftir það lagast færið mikið, fyrst brekka niður um 500 metra lækkun og svo mjög langur aflíðandi niður kafli, utan í fjöllum, alltaf smá upp og niður, en þægilegt alla leið til Saint-Rhémy Bosses um 16 km. leið. Frá Bosses heldur leiðin áfram 8 km til Merdeux, með smá hækkun í restina og þar er Cut kl. 8:00 í fyrramálið. Þetta verður ekki létt en hefst vonandi. Eftir Merdeux hefst síðasta fjallaklifrið hjá Halldóru, upp í Rifugi Frassati skálann og stutt frá honum er farið yfir hið fræga Malatra skarð þar sem Mont Blanc fjallið birtist þér í allri sinni dýrð og þaðan er mestmegnis niðurhlaup alla leið til Courmayeur. Við reynum að fylgja Halldóru alla þessa leið og yfir marklínuna á næstu 22 klst. og 45 mínútum, Stefán Bragi.)

(17/9 17:48 Halldóra er búin að fá tíma út úr Ollomont. 127:27 í sæti 392 af 437 hlaupurum sem eru eftir. 216 komnir í mark og 45 á eftir Halldóru. Skv. þessu mun þetta ganga upp. Ég fór út af Ollomont 2019 á 127:24 og kom í mark 8 mínútum áður en að Courmayeur lokaði. Halldóra er þremur mínútum seinna út þannig að hún mun þá koma í mark 5 mínútum áður en lokar í Cormayer. Eru ekki allir klárir í lokasprettinn ? Stefán Bragi.) 

(17/9 20:20 Enn er staðsetningarkerfið í rugli. Við höfum ekki hugmynd um hvar Halldóra er. Hlauparar sem að voru á svipuðum slóðum og hún eru sumir löngu komnir upp fyrir Champillon skálann á GPS trackinu en hafa enn ekki sýnt tíma í skálanum. Við höfum ekki númer á vin þar sem Halldóra er alveg sambandslaus og GPS laus. Þannig að við erum alveg ein í myrkrinu eins og Halldóra. En hún hlýtur að skila sér til byggða. Allt sem fer upp kemur niður. Stefán Bragi.)

Framundan var heilmikið klifur upp að Rif. Champillon (303,5 km, 27.681 m.hækkun), ég fékk ekki tíma þar einhverra hluta vegna. En ég kannaðist við þessa leið, þar sem við höfðum gengið hana saman upp að skálanum, ég, Iðunn og Stefáni í sumar. Þarna er t.d. sauna fyrir utan húsið, en drykkjarstöðin var mjög kósý. Hitti aftur Diego og félaga á drykkjarstöðinni, fékk mér heitt súpuseyði og kók, og fór svo með Diogo og félögum hans upp á topp á Col Champillon.

(17/09 20:49 Þættinum var að berast SMS og Halldóra er komin upp í Champillon skálann. Ætlar að stoppa stutt og taka síðan síðustu 300 metrana upp á topp. Nú er áreynsluasminn að hægja á henni en við verðum að treysta því að hún vinni upp tíma á leiðinni niður. Jón Örlygsson hitti naglann á höfuðið hér í skilaboðum neðst, Halldóra elti lengi vel Rizzi Lucio með Bib nr. 666. en í myrkrinu ryfjaðist upp hvað þetta númer þýðir í Biblíunni og þá leyfi hún honum bara að fara á undan. Bara 300 metrar upp og þá er Halldóra mun sterkari í niðurhlaupinu eftir það sem er yfir 20 km. Og vonandi náum við símasambandi þá, Stefán Bragi.)

17/9 21:34 Í stuttu samtali við Halldóru áðan sagði hún mér að skila mjög góðri kveðju til allra Bakgarðshlauparanna sem að ætla að byrja að hlaupa í Heiðmörkinni kl. 9:00 í fyrramálið. Þar ætla 200 hlauparar að hlaupa hring eftir hring þar til einn verður eftir uppistandandi. Halldóra tók sérstaklega fram að hún ætlaði bara að skokka „Einn hring“ í þetta skiptið.  Stefán Bragi.)

Næsta tímatökustöð var Ponteille Desot, kom þangað klukkan 00:38, aðfararnótt laugardags (132 klst og 38 mín).

17/9 22:01 Hér er verið að vinna í lausnum og Halldóra er kominn í stopult 3G-4G samband. Hún sendir mér því Shared Location á Messenger og þá get ég séð nákvæmlega hvar hún er. Núna er hún að koma inn á drykkjarstöð Ponteille Desot og er þá búin með 10 km. frá Ollomont. Bara 40,4 km. eftir. 17 klst. og 55 mín að loka marki. Það gerir nauðsynlegan meðalhraða upp á 2,24 sem er lægri en meðalhraði hlaupsins 2,33. Halldóra er því „Inni“ í þessum nýjustu tölum frá Aosta dalnum, Stefán Bragi.)

17/9 23:31 Halldóra er á hlaupum, á mjög góðri ferð núna og 8 km. til Bosses. Miðað við áætlaða staðsetningu á hún núna eftir 16 km til Merdeux og þarf ekki að halda meðalhraða nema upp á 1,88 km til að ná því Cut. Þannig að það virðist vera í höfn. Alla leið til Courmayer eru 36 km og hún þarf ennþá að halda 2,18 km meðalhraða þangað, sem er lækkandi frá tölunni áðan. Þannig að staðan er að batna. Halldóra er núna komin 312 km og við bara gleymdum að halda upp á 300 km. mörkin. Hún er að reyna að hlaupa sem mest núna til að vinna sér inn smá svefn i Bosses, Stefán Bragi.)

(18/9 00:23 Netið dettur út og inn þannig að við missum staðsetninguna alltaf. Þannig að við erum aftur búin að velja spánskan vin Carmona Marina Jose Fernando Bib 793 sem Halldóra er rétt á eftir. Gengur vel og mikil hreyfing á hlaupurunum á þessum slétta kafla til Bosses. Styttist mjög í að Halldóra komi á malbikið og þá getur hún náð enn meiri hraða niður til Bosses. Aðal vandamálið núna er ekki svefn heldur eru háls og axlir algerlega að drepa hana þessa stundina. Hún sagði að þett væri eins og hún hefði hlaupið niður frá Champillon á herðablöðunum, Stefán Bragi.)

(18/9 00:28 Smá skemmtilegt innskot. Maður fær allskyns skemmtileg SMS og verkefni á þessari leið. Fékk þessi skilaboð áðan frá Halldóru, og þau eru skrifuð eins og og þau komu frá henni. “ Er í þessum hópi. Við búi að hlaupa alla leið nú Þ Að kepss brú. Þarf meira koffín“ Ég var ekki alveg viss um hvernig ég ætti að ná að leysa þetta , Stefán Bragi.)

(18/9 00:55 Halldóra er að koma inn á stöðina í Bosses. Hún er að vinna sér inn mikinn tíma á slétta og niðrímóti kaflanum sem er að baki. Hér verður tekið smá stopp sem hún er búin að vinna sér inn fyrir á hlaupum. Eftir eru 7 km. í Merdeux Cut stöðina og heilar 7 klst. til að ná því. 1 km á klst. þannig að þetta er orðið öruggt þangað. 30 km til Courmayeur og yfir ansi hátt Malatra skarðið að fara og meðalhraðinn þarf að vera 2 km á klst. alla leið þangað, ef hún færi strax af stað. 2- 3 tímar í birtingu og lokaorkan kemur með sólarupprásinni, Stefán Bragi.)

Eftir fjallaskálann Rif. Champillion er klifur áfram upp í næsta skarð (sem við Iðunn og Stefán Bragi gengum í frábæru veðri og dagsbirtu) og góða við skörðin, er að það er brekka niður hinum megin. Var þar um miðja nótt og löngu hætt að reyna að taka myndir að nóttu til 🙂

Kom svo í Saint-Rhémy-en-Bosses, aðfararnótt laugardags klukkan 03:01 (135 klst 01 mín), 320,6 km og 28.650 m. hækkun. Þegar ég kem inn í Bosses, vissi ég að ég yrði að hitta lækni, eða hjúkrunarfræðing og reyna að fá Voltarin gel eða eitthvað kælandi aftan á hálsinn á mér, var orðin virkilega kvalinn og náði ekki að halda uppi hausnum, nema með stöfunum. NB á þessum tímapunkti vissi ég ekkert hvar ég væri og ég þurfti að spurja Stefán Bragi að því þegar ég var að skrifa bloggið, hvar ég hefði verið þegar ég hitti lækninn. Svona var ástandið á manni 🙂

Ég fæ að hitta ítalska konu, lækni eða sjúkraliða, sem talaði ENGA ensku. Hún notaði GOOGLE TRANSLATE á símanum sínum til að tala við mig, skrifaði og sýndi mér svo skjáinn þar sem ég gat lesið á ensku það sem hún skrifaði á ítölsku.

Hún spurði mig hvar ég væri með verk? Hversu lengi ég ætlaði að stoppa? Hvaða lyf ég væri búin að taka inn o.s.frv.? Ég skyldi hana ekki þegar hún spurði mig hvað ég ætlaði að stoppa lengi, því ég óttaðist MEST AF ÖLLU að hún myndi „grounda mig“, þ.e. ekki leyfa mér að halda áfram í keppninni. Svo ég var alltaf að segja við hana, ég verð að halda áfram, ég ætla að halda áfram. Ég held hún hafi séð hversu rugluð og kvalinn ég var orðinn, svo hún fór með mig inná fyrstu hæð á hóteli við hliðina á drykkjarstöðinni og lét mig leggjast þar á læknabekk.

Þar spurði hún mig hversu lengi ég ætlaði að sofa. Ég var að tala við Stefán Braga í gsm sem eiginlega hjálpaði mér að skilja hana og enduðum við á að segja 45 mínútur. Þegar hún kom til baka þá vaknaði ég og vissi ég ekki hvar ég væri eða hvað væri í gangi, var mjög rugluð í hausnum. Talaði við Stefán Braga sem hringdi sem betur fer í mig á sama tíma til að vekja mig og ég spurði hann: Hvað ætlaði ég að biðja hana um, hvað er að mér ? Hann sagði mér að ég ætlaði að biðja um annað hvort kælisprey á hnakkann, eða verkjalyf í gelformi til að smyrja á hann og einhverja kælingu.

Sjúkraliðinn átti ekki kælisprey og hún átti ekki verkjalyf í krem- eða gelformi, en hún bauð mér fljótandi verkjalyf (sem ég fyrst neitaði ha ha ha) og hún margsagði ARE YOU SURE ?? Svo ég endaði á að segja já takk og hún setti það undir tunguna á mér. Svo gaf hún mér kælipoka, úr þurrís, þar sem er ýtt á hnapp og hrist til að kælingin fari af stað.

Hún kom því fyrir á hnakkann á mér (aftan á hálsinn) undir hettupeysuna sem hélt þessu á sínum stað. Þvílíkur munur að fá þessa kælinguna á verkinn. Ég bað hana um að fá annan poka með mér í „nesti“.

(18/9 02:24 Halldóra náði að sofa í 45 mín og fékk aðstoð sjúkraþjálfara vegna háls og bakeymsla. „Þetta hangir“ sagði hún og bara 28,7 km eftir. Fékk kælipoka og verkjalyf í fljótandi. Órjúfanlegur partur af TOR ferðalagi, það er alltaf eitthvað sem kvartar. Planið fyrir næsta stað er Merdeux þar sem er Cut kl. 8:00, 5,5 tímar til stefnu, 7,6 km. og 900 metra hækkun. Bara ein stöð í einu. Stefnan er að ná þessu á undir 4 tímum og eiga því 1,5 tíma allavega á Cut timann. Halldóra kom inn á Bosses í sæti 396 en það eru margir búnir að fara í gegn síðan hún lagði sig. Innan við 20 hlauparar eftir í brautinni fyrir aftan Bosses. Það eru en að detta út hlauparar, sem er óvenjulegt eftir Ollomont, nú eru 279 hlauparar hættir keppni. 433 í keppni og af þeim hafa 276 klárað nú þegar. Verkefnið heldur áfram og styttist í sólarupprás enn einn fallega daginn í Aosta dalnum á Ítalíu, Stefán Bragi.)

Þegar ég legg af stað sé ég að Diego og vinir hans eru að leggja sig á gólfinu í drykkjarstöðinni, allir orðnir frekar steiktir. Ég held áfram út úr bænum og sé þá að ljósið mitt er að vera batteríslaust. Garmin úrið varð líka batteríslaust og gsm síminn var líka orðinn tæpur. Ég tek því upp stóra hleðslukubbinn minn, 20.000 sem ég var búin að bera á bakinu frá Ollomont og fór að hlaða allar þrjár græjunar, var líka með auka léttan USB hleðslupung, svo ég gat hlaðið þrjá hluti í einu.

Þurfti að nota varahöfuðljósið á meðan og ég setti gsm á airplanemode á meðan ég var að hlaða. Hafði auðvitað ekki vit á því þegar ég kom inn á Bosses stöðina að setja allar græjurnar í hleðslu. Þurfi því að halda á kubbnum og öllu þessi dóti á meðan ég gekk út úr bænum, kælingin var að virka vel á verkinn aftan á hnakkanum og mér leið mun betur.

(18/9 02:34 Farin af stað frá Bosses og nýjasti vinur okkar er Bagliane Marco með bib nr. 551. Fylgjum honum upp í Merdeux því að nú höldum við aftur inn í óbyggðir og náum ekki að staðsetja Halldóru með Messenger Location. Síðasta fjallið framundan, frá Stefáni Braga.)

Á leiðinni upp fjallið, tóku Diego og vinir hans fram úr mér, eins og vanalega, en svo náði ég þeim stuttu áður en við komum að Frasatti skálanum, þar sem þeir höfðu lagst út af á jörðinni og lagt sig. Þeir voru hóstandi þegar ég kom að þeim, svo ég gaf þeim STREPSILS töflur sem ég hafði keypt í apótekinu sem komu sér mjög vel. Við vorum öll hóstandi og slæm í hálsinum af álaginu held ég og ég líka af astmanum.

(18/9 05:16 Halldóra nálgast síðustu Cut off stöðina, Merdeux. Hún mun ná þangað í síðasta lagi um 6:00, var að senda mynd af dalnum í sólarupprásinni þar sem bæði sést til Merdeux og Frasatti skálans. Hún verður þá með 2 klst. á Cut of tímann. Næsti áfangi upp og jafnframt sá síðasti upp er til Frasatti og þaðan yfir upp í Malatra skarðið. Það er mjög stutt frá Merdeux til Frasatti, þú sérð skálann allan tímann en það er samt tæplega 300 metra hækkun. Halldóra mun taka stutt stopp þar og svo halda áfram upp í skarð. Malatra skarðið er bara 2 km. frá en aftur 400 metrum ofar. Eftir það eru 17 km., nánast allt niður í móti og í MARK. Ný mynd neðst, frá Stefáni Braga).

(18/9 05:59 Hún er komin í gegnum síðasta Cut off með rúmlega 2 tima á tímamörkin. Smá spölur eftir. Hvað eru 700 metrar upp þegar þú ert búinn með 30.000.- metra upp á síðustu 6 dögum, frá Stefáni Braga.)

Kom inn í Rif. Frassati skálann á laugardagsmorgni klukkan 08:18, komnar 140 klst og 18 mín (329,7 km og 28.650 m hækkun). Mér leið eins og ég hefði verið hérna áður. Þegar ég spurði Michele og dóttir hans Chiöru um hvaða hluti af leiðinni væri fallegastur, þá voru þau sammála um að Frasatti og Malatra skarðið væru fallegasti hlutinn. Ég sagði einmitt við þau, að þá væri eins gott að maður kláraði TOR-inn svo maður sæi síðasta og fallegasta hlutann 😉

Chiara var einmitt að hlaupa á þessum sama tíma TOR30 sem eru síðustu 30 km af TOR leiðinni. Í Frasatti skálanum settist ég við hliðina á Diogo en vinir hans Ítalarnir voru á næsta borði. Á þar næsta borði við hliðina á mér, voru Danirnir sem komu inn á svipuðum tíma og ég. Ég hafði ekki mikla lyst á mat, en keypti mér Sprite og Kitkat. Diego pantaði sér Polentu og ætlaði að borða hana. Ég ákvað að stoppa ekki lengi, því ég vissi að ég átti ennþá eftir enn eitt fjallið uppí Malatra skarðið og þau myndu öll taka fram úr mér á leiðinni þangað. Tók stutt myndbrot til að sýna ykkur hversu fallegt útsýnið er frá Frassati skálanum.

Fallegt útsýni að og frá Frasatti skálanum.

(18/9 06:29 Halldóra var að koma inn í Frasatti skálann. Hún var komin þangað á 140 klst. og 18 mínútum. Bara 9,5 klst. eftir þar til að markið lokar í Courmayeur. Hún er í sæti 412 af 432 hlaupurum sem eru enn eftir. Það eru enn 19 km. eftir í mark og meðalhraðinn verður að vera yfir 2 km. á klukkustund til að þetta náist. Sem betur fer er megnið af leiðinni niður í móti. En stoppið í Frasatti verður stutt. Hún mun leggja af stað 6:45 sem er bara 45 mínútum áður en TOR hlaupið mælir með því að hlauparar reyni að komast yfir Malatra skarðið. Þannig að við mælum ekki lengur forskotið í klst. heldur mínútum. Við erum komin með nýjan vin til að elta yfir Malatra skarðið, Somozza Francisco BIB 615, frá Stefáni Braga).

Þegar maður er komin að Col Malatrà, eða í Malatra skarðið þá eru 331,8 km búnir og 30.293 m í hækkun. Þegar ég kom í skarðið var margt fólk í skarðinu, þ.e. göngufólk, sjónvarpstökumenn og ljósmyndari og ég fékk einhvern til að taka af mér ljósmynd í skarðinu. Ég var búin að lofa Stefáni Braga að láta taka af mér mynd með Courmayeur í baksýn, mynd eins og hann sendi mér af sér, þegar hann var þarna í skarðinu og kláraði sinn TOR. Ljósmyndarinn og kvikmyndatökufólkið tóku mikið af myndum af mér og mér leið ótrúlega vel, þrátt fyrir allt klifrið þarna upp, enda vissi ég að það væri stutt eftir.

Eftir klifrið, tók við brekka niður eins og vanalega, sem var algjört æði. Hins vegar þegar ég er komin alveg niður í dal og hélt ég væri að fara að klára þetta. NEI !!! Þá er merki sem bendir okkur á að fara upp aftur fjallið hinum megin. Það fauk í mig, eina sekúndu, og ég hringdi í Stefán Braga og spurði hann af hverju hann hefði ekki sagt mér frá þessu fjalli þarna. Ég sem hélt þetta væri bara allt niður eftir Malatra skarðið. Var svo ennþá frekar súr þegar ég kom í Mont del Saxe klukkan 12:53 komnir 144 klst og 53 mín sagði við grey sjálfboðaliðana að ég hefði haldið að allar brekkur væru búnar 🙂 🙂 LOL LOL.

Þau auðvitað reyndu að hvetja mig og sögðu að það væri mjög stutt eftir 🙂

(18/9 08:54 Það er svo sem ekkert nýtt að frétta nema að Halldóra er að fara að klára TORX 2021 innan tímamarka. Hún er komin núna 335,6 km með 30.468 metra hækkun. Það hlýtur að fara að koma á hana tími á Pas Entre Deux Saus stöðinni. Og þá er hægt að reikna meðalhraðann í mark. Hún hringdi áðan og kvartaði yfir því að það væri brekka upp í móti og ég hefði sagt að þetta væri allt niður í móti (Það er ekki alltaf hægt að segja satt, frá Stefán Bragi.) 

Á þessum tímapunkti var ég líka farin að hlakka svo mikið til að komast í mark, því hugarórar mínir voru búnir að ákveða að Óli, Kristó og Hafrún og Siggi og Hildur væru öll í markinu að bíða eftir mér með íslenska fánann. Stefán Bragi sagði mér að hann væri búin að hita Óla upp fyrir markið og ég hafði heldur ekkert heyrt í Óla lengi. Svo ég var viss um að hann væri bara í flugi á leiðinni til Ítalíu. Þegar Siggi hringdi í mig í gær, þá var ég viss um að hann væri að tékka hvort ég myndi ekki örugglega klára TORINN, svo hann væri ekki að fara til Ítalíu í fýluferð LOL LOL (eina sem var að trufla þetta var að ég vissi að Siggi væri að stýra Backyard Ultra hlaupinu, svo kannski væru ekki hann og Hildur í Courmayeur, en Óli var pottþétt þar 🙂 🙂

(18/9 09:16 Tor 30 var ræst í morgun og nú eru fyrstu hlaupararnir þar að kom að Frasatti skálanum, þeir eru eins og gefur að skilja mjög hraðir og mjög margir, þannig að það er heil skriða af hlaupurunum núna um 2-3 klst. á eftir Halldóru og þeir eru allir á leið til Cormayeur líka. Það gefur góðan kraft að fá svona ferska hlaupara inn í brautina og er gott búst í síðustu klukkutímana. Þá er líka veislan í hámarki þegar að Halldóra kemur til Courmayeur, frá Stefáni Braga).

(18/9 9:22 Halldóra var að fá inn tíma á Pas Entre Deux Saus 143 klukkustundir þannig að tíminn er 22 mínútna gamall. Þaðan eru 13,7 kílómetrar í mark. 6 klst. og 50 mínn tíma til að ná í gegn ennþá þannig að Halldóra er að bæta í og er búin að ná að lækka meðalhraðann sem þarf niður fyrir 2 í 1,98 km á klst. Þetta er að hafast frá Stefáni Braga.)

Það er ótrúlega falleg leið að hlaupa þarna í áttina að Courmayeur, tala nú ekki um þegar maður fer að sjá Mt. Blanc í öllu sínu veldi. Ég var hins vegar með hræðilegan verk aftan á hálsinum, hausinn hékk ekki lengur uppi, eins og sjá má á myndunum, hér að neðan. Ég gaf samt bara í, tók fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum, því ég vildi bara komast í mark, sjá íslenska fánann og hitta alla vini mína sem biðu eftir mér þar. Ég tók fram úr og taldi alla vega fimm konur og miklu fleiri karla. Ég píndi mig áfram, þó ég væri að drepast aftan á hálsinum.

(18/9 10:08 Halldóra er hætt að hugsa um tímamörkin. Nú er hún að hugsa um hversu mörgum hún nær að taka framúr þangað til hún kemst til Courmayer. Við erum komin með nýjan/gamlan vin. Halldóra var að taka fram úr Fabrice Gueriot með bib 730 – sem kemur við sögu hér fyrr í frásögninni. Hann er samt ekki lestarstjórinn, það var Diego. Skv. hans staðsetningu er bara mjög stutt í að Halldóra komi að Bertone skálanum og þaðan er ekki nema rúm klukkustund niður til Cormayeur. Þannig að Halldóra virðist eiga eftir innan við 2 klst. í mark á sama pace og hún er á núna, frá Stefáni Braga.)

Kom svo að Bertone skálanum, sem er síðasta tékkinnstöðin, fékk samt ekki tíma þar. Við Bertone skálann bað ég starfsmanninn (sjálfboðaliðann) að hjálpa mér að virkja klakapokann sem ég átti eftir í Salomon vestinu. Verkurinn var aftur orðinn óbærilegur og gamli pokinn löngu hættur að virka. Það var einstaklega gott að fá aftur kælingu aftan á hálsinn síðasta spölinn.

Stefán Bragi heyrði í mér í gsm og varaði mig við niðurhlaupinu frá Bertone skálanum þar sem hún væri mjög grýtt og hættuleg. Ég ákvað samt að halda áfram og hlaupa hana, fór samt varlega, hugsaði það væri nú ekki þess virði að fara að detta þegar það væru örfáir kílómetrar eftir í mark. Á sama tíma var ég orðin verulega spennt að klára TOR DÉS GEANTS 2021.

Þegar ég er komin um hálfa leið niður brekkuna þá fara hlauparar úr TOR 30 að taka fram úr mér. Fyrsti hlauparinn var reyndar löngu búinn að taka fram úr mér, en hlauparar númer tvö og þrjú og fyrstu konurnar tóku fram úr mér á þessum kafla, komu sem sagt á hvínandi siglingu þarna niður.

Það sem mér fannst sérstakt var að bæði kona númer eitt og tvö voru með „héra“ með sér, einhverja stráka, sem leiddu fyrir þær brautina og opnuðu fyrir þeim leiðina niður.

Annað sem mér fannst sérstakt í TOR-num var að við konurnar í TOR330 fengum miklu meiri hvatningu og hrós frá almenningi og öllum heldur en karlarnir sem voru í sama hlaupi, kannski er það vegna þess að við erum bara um 11% þátttakenda 🙂

Þegar ég kem svo loksins inn í Courmayeur, var ég mjög utan við mig. Ég sá ekki skilti sem sýndi að við ættum að beygja til hægri. Heyrði heldur ekki þegar kallað var á mig og mér sagt að snúa við. Það var ung stelpa sem þurfti að hlaupa á eftir mér til að láta mig snúa við aftur upp og taka beygjun 😉

Eftir þessa hægri beygju þá liggur leiðin í gegnum garð (park), sem er rétt fyrir ofan ræsinguna, þ.e. þar sem hlaupið var ræst fyrir sex dögum síðan.

Ég var eiginlega ekki að trúa því að ég væri að klára TOR-inn. Ég lagi af stað í hlaupið, vitandi að ég yrði að berjast við tímamörk og astmaköst. Væntingum um að klára var algjörlega stillt í hóf. Ég vissi líka á sama tíma að ég var bara með eitt skýrt markmið og það var að klára innan tímamarka, mér var alveg sama um sæti og eða tíma.

(18/9 10:34 Bertone skálinn nálgast en hann er síðasta stöðin áður en komið er í mark. Halldóra á eftir innan við 30 mínútur í skálann. Er eins og stendur að ganga með Guido Zansottera Bib 447. Þeir sem til þekkja í UTMB hlaupunum þá er Halldóra núna að koma öfuga leið niður í Cormayer miðað við UTMB og CCC hlaupin. Leiðin niður er mjög gróf og grýtt og ég bað Halldóru að hægja á sér. Þetta hlaup snýst ekki um sæti, það snýst eingöng um að komast leiðina innan tímamarka. Nú á að njóta síðasta klukkutímans, njóta þess að sigur er unninn og í Courmayour bíður fjöldi fóks sem mynda göng eftir allri göngugötu bæjarins þar til að FINISH pallinum er komið. Það er engin ástæða til að flýta sér í gegn, þú hefur fyllilega unnið fyrir því að þér sé aðeins fagnað á lokametrunum, frá Stefáni Braga.)

(18/9 11:00 Halldóra var að fá inn tíma í Bertone skálanum en stöðin heitir Mont de la saxe. 144 klst. og 53 mínútur. Nú horfir hún beint niður á Cormayeur og heyrir músíkina úr miðbænum. Það þarf ekki að reikna neina tíma lengur. Það eru enn 5 tímar í tímamörkin og hún á bara rúman klukkutíma eftir Á https://www.tordesgeants.it/en síðunni er vefmyndavél sem að hægt er fylgjast með þeim sem að koma inn á FINISHER pallinn, frá Stefáni Braga).

Áður en ég hleyp inn göngugötuna, þá þurfti að ég hugsa og taka ákvörðun um það hvort ég ætlaði að vera á FB live, eða taka upp myndband af öllum sem voru að hvetja mig síðustu metrana. Tók ákvörðun um að vera með VIDEO stillingu á gsm símanum mínum, til að geta sett inn myndbandið síðar. Það voru mjög stór mistök. Ég nefnilega stillti símann óvart bara á PHOTO og tók bara eina ljósmynd í staðinn fyrir myndbnadið ha ha ha 🙂

Ég á því ekkert myndband af þessu magnaða MÓMENTI þegar ég hleyp inn göngugötuna, fram hjá kirkjunni og öllu þessu fólki sem fagnaði mér svo innilega, eftir að hafa hlaupið 350 km í sex daga um 30.000 metra hækkun. Þetta var svo magnað móment að það mun lifa í minni mér að eilífu.

TOR330 FINISHER 2021- KOMIN Í MARK Á 145 KLUKKUSTUNDUM og 55 MÍNÚTUM – 4 klst og 5 mín frá tímamörkum.
349,3 km – 30.879 m SAMANLÖGÐ HÆKKUN, skv ITRA.

Frank spurði mig stuttu eftir að við kynntumst, hvernig ég ætlaði að taka því þegar kynnirinn myndi „REYNA“ að segja allt nafnið mitt „Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé“. Ég svaraði honum, að mér alveg sama, því ég ætlaði bara að gráta af gleði þegar og ef ég kæmist í mark 🙂

Þegar ég kom í mark, þá komu tár, ég fékk gæsahúð og naut hverrar mínútu þegar ég stóð undir TOR FINISHER skiltinu. Grét ekki hátt eða mikið, en ég var mjög hrærð 🙂 Fékk FINISHER medalíuna mína, fór svo á svæði á bak við við þar sem ég fékk FINISHER bolinn minn, bjór (áfengur svo ég gat ekki drukkið hann) og Fanta. Þar tóku þeir tracker græjuna og ég fékk 50 EUR trygginguna til baka.

Það var hins vegar ENGINN Íslendingur í markinu að taka á móti mér. Það var enn ein ímyndunin, eins og huldufólkið og álfarnir og húsin sem ég sá á leiðinni. Tommi, finnski vinur minn var í markinu og tók á móti mér, auk auðvitað allra Ítalanna sem tóku vel á móti mér og fögnuðu innilega. Sjá myndband sem Stefán Bragi tók þegar ég kom í mark.

Ég fór að sjálfsögðu á FB live, „BROSTI HRINGINN“ í orðsins fyllstu merkingu og þakkaði fyrir allar kveðjurnar og hringdi svo í Óla sem var eins og öll plön höfðu gert ráð heima á Íslandi.

(18/9 11:24 Smá leiðbeiningar til þeirra sem að ætla að reyna að sjá Halldóru koma inn í beinu útsendingunni. Útsendingin er á https://www.tordesgeants.it/en en þið þurfið að fara neðst á stikuna og færa bendilinn alveg til hægri til að vera á LIFE. Þá er bein útsending og klukkan efst vinstra megin á að vera nákvæmlega 2 tímum meira en okkar. Annars eruð þið að horfa á gamla upptöku, frá Stefáni Braga.)

(18/9 11:58 Komin í mark – Útsendingu lokið 🙂 Við þökkum þeim sem hlýddu 🙂 frá Stefáni Braga.)

Komin í mark eftir 145 klst og 55 mín. Rúmlega 350 km og 30.000 metra hækkun skv ITRA.
Stefán Bragi tók myndina og setti UTMB lag Vangelis undir, Conquest of Paradise, magnað ekki satt ?
Fór á FB Live þegar ég var komin í mark og komin baksviðs, þar sem ég fékk FINISHER bolinn, skilaði tracker græjunni og fékk bjór og Fanta. Tommi, finnski vinur minn var sá eini sem ég þekkti og tók á móti mér í markinu.

COURMAYEUR – LAUGARDAGUR KLUKKAN 13:55 (145:55 klst).
349,3 km – 30.879 m SAMANLÖGÐ HÆKKUN, ITRA MÆLIKVARÐAR.
TÍMAMÖRK KLUKKAN 18:00.

ÞAKKIR
Ég er einstaklega þakklát vinum mínum Stefáni Braga og Elísabetu Margeirsdóttur (sem bæði hafa klárað TOR330). Þau voru vakin og sofin yfir mér alla vikuna, auk þess sem þau hjálpuðu mér mikið við undirbúning. Fékk t.d. hlaupaplön frá Betu og tékklista og undirbúningslista frá Stefáni Braga. Auk þess heyrði ég reglulega í Stefáni allan tímann og í Betu. Ég veit að Stefán Bragi svaf ekkert síðustu nóttina, vakti algjörlega yfir mér. Einstakir vinir <3

Stefán Bragi skrifaði einnig þessar skemmtilegu færslur allan tímann og leyfði vinum mínum og öllu hlaupasamfélaginu á Íslandi að fylgjast með á Facebook síðunni: Utanvegahlauparar.

Elsku Stefán, Beta og Iðunn þið eruð einstakir vinir og ég hefði ekki klárað TOR330 án ykkar <3

Með Stefáni Braga og Betu - hefði ekki klárað TOR330 án ykkar kæru vinir.
Fékk yndislegar móttökur og Siggi K hélt fyrir mig æðislegt partý eftir að ég kom heim.
TOR FINISHERS, Stefán Bragi og Elísabet Margeirsdóttir.

Ég er einnig fullviss um að æfingaferðin með Iðunni og Stefáni Braga hafi verið mjög mikilvægur þáttur, ekki bara líkamlega heldur líka andlega og er ég þeim einstaklega þakklát fyrir að koma með mér í það yndislega og frábæra ferðalag.

Í æfingarferðinni okkar með Iðunni og Stefáni Braga.

Ég er líka þakklát „Óla mínum“ sem hefur endalausa þolinmæði og ber virðingu fyrir þessu áhugamáli mínu.

Þakka ykkur öllum sem fylgdust með mér og sendu mér kveðjur allan tímann, öll þessi hvatning, myndir og myndbönd frá ykkur gáfu mér heilmikla orku. Þið eruð best.

Það kom aldrei upp í hugann á mér, allan tímann að mig langaði að hætta, hugsaði aldrei um það, þó ég væri að berjast við astmann og hæðarveiki. Markmiðið var alltaf skýrt og einfalt, það var að KLÁRA TOR330 INNAN TÍMAMARKA.

ÁRANGUR HGMP
HGMP náði 9. sæti í aldursflokki V2 af 18 sem hófu keppni (11 sem klára / 7 sem hætta).
HGMP var í 40. sæti kvk overall af 78 sem hófu keppni. (47 sem klára / 31 sem hættir).
HGMP var í 377. sæti overall af 712 sem hófu keppni (431 sem klára/ 281 sem hættir 39,5%).

ÁRANGUR VINA MINNA
Richard Newey #335 var í 260. sæti – 133 klst og 47 mín
(Bretinn sem ég kynntist í röðinni daginn fyrir keppni, lagði af stað 2 klst á undan mér)
Fabrice Gueriot #730 var í 370. sæti – 145 klst og 45 mín
Halldóra Gyða #827 var í 377. sæti – 145 klst og 55 mín
Frank Reich #549 var í 394. sæti 146 klst og 47 mín.
Fernandes Benjumea #546 var í 398. sæti 146 klst og 51 mín
Francesca Billi #438 var í 401. sæti 146 klst og 54 mín.
Diego Polotti #524 var í 405. sæti 147 klst og 2 mín.
Flenning Anderson #421 DANI í 411. sæti 147 klst og 20 mín.
Allan Bode #480 DANI í 412. sæti 147 klst og 20 mín.

VINIR MÍNIR SEM EKKI NÁÐU AÐ KLÁRA
Michele Zenato #424 – hættir í Rif.Coda – 69 klst og 6 mín
Tommi Lainema #456 – hættir í Niel La Gruba – 79 klst og 47 mín
Matts Björklund #757 – hættir í Niel La Gruba – 83 klst og 52 mín
Veit ekki hvort Bretinn sem var að reyna við þetta í þriðja skipti, sem var með íslenskt buff, náði að klára eða ekki ?

You may also like

Leave a Comment