Lagði ein af stað frá Alpenzu Grande áleiðis til Rifugio Grand Tournalin. Þetta átti að verða langerfiðast dagurinn okkar, þ.e. 20 km. 2.000 metra hækkun og 1300 metra lækkun.
Til að við gætum haldið áfram að vera með bílinn, þá fóru Stefán og Iðunn á bílnum niður allan dalinn í áttina að Donnas, þ.e. að Ávaxtadalnum og upp svo upp næsta dal til Champoluc.
Ég ákvað hins vegar að taka bratta fjallið ein og gekk upp í mikilli þoku. Var komin í fjallaskálann Rifugio Alpenzu (1779 m) eftir um 30 mínútur, en skv. skiltinu átti sú ganga að vera 1 klst og 10 mín. Fékk mér því bara einn kaffibolla þar áður en ég hélt áfram rólega upp fjallið í þokunni.
Út af persónulegum aðstæðum var þetta mjög erfið ganga andlega, en reyndi mun minna á mig líklega. Þegar ég var komin í um 2600 metra hæð, fann ég aðeins fyrir þunna loftinu og brattanum, svo ég fékk mér asmapúst, sem létti á, svo restin gekk vel. En skarðið á fjallinu er í um 2.800 metra hæð. Náði samt að villast aðeins einu sinni af leið, en þá snýr maður bara við og finnu réttu leiðina 🙂
Stoppaði og tók myndir af öllum fallegu Maríu Mey líkneskjum á leiðinni en hitti ekki mikið af fólki. Það voru þrír menn á leið niður en svo var eitthvað af fólki á toppnum.
Það var ekki mjög heitt, þar sem það var engin sól og bara þoka alla leiðina upp, en samt alveg hlírabolaveður fyrir Íslendinginn. Fór samt í þunna hvíta Salomon jakkann minn á leiðinni niður. Þar hitti ég ítalska stelpu sem var að ganga niður, en hún hafði komið sömu leið upp þ.e. þá leið sem ég var að fara niður.
Ferðin niður gekk mjög vel ég var komin niður í bær fyrir klukkan 15:00 og kom beint að kirkjunn i í Bænum Champoluc. Fór inní fallegu kirkjuna og keypti kerti (donation) sem ég kveikti á.
Gekk svo í gegnum bæinn, ætlaði að koma við í búð, en hún var lokuð til klukkan 15:00. Ég nennti ekki að bíða eftir því að það opnaði, þ.e. í 7 mín ha h a ha en hélt áfram í gegnum bæinn að næsta bæ, þar sem ég stoppaði í Wellness Center sem er örugglega drykkjarstöð í TOR hlaupinu. Fékk mér þar samloku og kaffi og beið eftir Stefáni og Iðunni. Komst þar á WIFI, en er ennþá að vesenast með Vodafone og 3G sambandið, orðin frekar þreytt á því.
Við ákváðum svo að hætta við að fara uppí skálann þar sem við áttum bókaða gistingu, þar sem við erum farin að þrá almennilegan svefn, svo Stefán Bragi fann hótel í Champoluc sem var laust og fékk tvö herbergi, samt ekki með loftræsingu en bæði með svalaopnun, mjög flott hótel í þessum fallega bæ. Borðaði svo bara salat með ólívum og fetaosti, brie ost og kaldar kjúklingabringu og fransbrauð og sódavatn uppí rúmi – þvílíkt kósý 🙂