Við náðum að verja síðasta deginum okkar á Ítalíu í Bologna, þar sem flugið heim frá Bologna var kvöldflug. Við vorum á bílaleigubíl og völdum bara city center parking, þar sem við lögðum bílnum og gengum svo í bæinn.
Við skoðuðum miðbæinn, þ.e. Neptún brunninn (Fontana di Nettuno) sem er eitt af táknum borgarinnar á Nettuno torginu. Hann fer ekki framhjá neinum sem heimsækir borgina enda vinsæll staður til dægrastyttingar meðal borgarbúa. Stytta af Neptúnus er á brunninum. Svo sáum við líka Tvíburaturnana (Torre degli Asinelli / Torre dei Garisenda) sem eru engu minni tákn fyrir Bologna en brunnurinn við Nettuno. Asinelli turninn er opinn almenningi og hægt að klífa þær tæplega 500 tröppur upp í 98 metra hæð hans. Við höfðum nú ekki tíma fyrir það, en fengum okkur í staðinn góðar veigar og sátum fyrir framan turnana tvo á torginu í góðu veðri.
Hér að neðan er að finna frekari upplýsingar um borgina, sem ég væri alveg til í að heimsækja aftur síðar.
Bologna er 400 þúsund manna borg og er höfuðborg Emilía-Rómagna héraðsins á norður Ítalíu og er elskuð og dáð af Ítölum sjálfum og flestum þeim er eyða þar tíma. Matargerðin er velþekkt út fyrir borgarmörkin svo mjög reyndar að landsmenn tala um Bologna sem matarkistu Ítalíu. Eru það stór orð í landi þar sem matur er í hávegum hafður.
Hér er einnig fínn arkitektúr og byggingar ýmsar stórkostlegar í gamla miðbænum og þekkt er hin rauða ásýnd húsa í borginni: Bologna la rossa. Hér er elsti háskóli í veröldinni sem er það vinsæll að þessi annars gamla borg er full af ungu fólki öllum stundum. Best af öllu kannski er að enn sem komið er er fjöldatúrismi eitthvað sem á heima annars staðar og því er hægt að njóta Bologna án þeirra leiðinda sem því fylgja.
Loftslag og ljúflegheit
Borgina er best að heimsækja á vorin og sumrin þegar hiti gerir fólki kleift að dúlla sér hálfberu undir beru lofti án vandkvæða eða kuldahrolls. Reyndar verður yfirgengilega heitt í júlí en hér er stressinu ekki fyrir að fara og sé það plan ferðamanna skiptir hitinn litlu til eða frá. Hitastig fer niður í frostmark eða neðar í desember og janúar.
Til og frá
Guglielmo Marconi heitir alþjóðaflugvöllur Bologna og nánd hans við borgina gerir það að barnaleik að fljúga til borgarinnar. Tíu mínútna einfaldur rúntur skilar fólki alla leið í miðbæinn og því skiptir ekki höfuðmáli hvort farið er með leigubíl eða á ódýrari hátt.
Með leigubíl kostar far á miðbæjarsvæðið 1800 krónur plús lítil þóknun fyrir farangur. Flugrúta, Aerobus, flytur þig á sama stað fyrir jafngildi 750 króna íslenskra en fyrir fátæka, félitla eða níska ferðalanga kostar aðeins 200 krónur að taka næsta strætisvagn á sama áfangastað. Þarf reyndar að leggja á sig tíu mínútna labb á næstu stoppistöð en þar stoppa vagna 81 og 91 sem aka að Aðallestarstöð bæjarins í miðborginni.
Bologna er ekki af þeirri stærðargráðu að fólk villist mikið en vænlegt er að verða sér úti um borgarkort engu að síður. Slíkt er hægt að kaupa dýrum dómum en fyrir styttri ferðalög er enn betra að fá frítt bæjarkort á upplýsingamiðstöð ferðamanna við Piazza Maggiore. Dugar það til brúksins og með slíkt í höndunum nægir að vita hvar Due Torri, tvíburaturnarnir, eru staðsettir til að rata á alla kanta.
Samgöngur og snatterí
Það er varla þess virði að kynna sér samgöngukerfi borgarinnar enda hún lítil og að miðbæjarkjarnanum frátöldum er ekkert þar sérstaklega heillandi við borgina. Hér er þó fínt strætisvagnakerfi og vegir til allra átta. Fargjaldið er 180 krónur og dugar hver miði í klukkustund eftir kaup. Er því óhætt að hoppa á milli vagna standi hugur til þess. Heimasíða strætó hér.
Flest hótel eru á þröngu svæði í miðbænum og þarf í raun engin farartæki til að sjá það sem skoðunarvert er í Bologna. Helsta torgið er Piazza Maggiore og helsta gatan Via Rizzoli. Allt markvert er nánast í eða við þessa tvo staði.
Söfn og sjónarspil
Til umhugsunar: Góð söfn er að finna í Bologna og að heimsækja þau nokkur er vel þess virði. Hagkvæmast er að punga út 800 krónum fyrir dagskortinu Carta Bologna dei Musei sem gefur frían aðgang eða góðan afslátt af þeim flestum. Kortið fæst á öllum söfnum og á upplýsingamiðstöðvum.
Annað áhugavert
Neptún brunnurinn (Fontana di Nettuno) er eitt af táknum borgarinnar á Nettuno torginu. Hann fer ekki framhjá neinum sem heimsækir borgina enda vinsæll staður til dægrastyttingar meðal borgarbúa.
Tvíburaturnarnir (Torre degli Asinelli / Torre dei Garisenda) eru engu minni tákn fyrir Bologna en brunnurinn við Nettuno. Þvert á móti má sjá þessa tvo turna langt að þó sá fyrrnefndi sé öllu hærri. Asinelli turninn er opinn almenningi og hægt að klífa þær tæplega 500 tröppur upp í 98 metra hæð hans. Skal þó líkamlegt atgervi vera bærilegt og greiða verður 500 krónur fyrir þau herlegheit. Er turninn opinn daglega 9 – 18.
Lögfræði eins og hún þekkist í dag má að nokkru leyti rekja til Bologna en allra fyrstu lögmenn hennar voru vanir að handskrifa minnispunkta á hinar ýmsu skrár og plögg. Umrædd plögg eru vandlega geymd og til sýnis í Tombe dei Glossatori en þar eru einnig grafnir flestir helstu merkismenn borgarinnar. Afar forvitnilegt skoðunar. Við Pizza de San Domenico.
Basilíka heilags Lúkasar (Santuario della Madonna di San Luca) er dómkirkja í hlíðum borgarinnar en þar finna menn eitt besta útsýnið yfir borgina. Basilíkan sjálf stór og merkileg og innandyra eru munir sem eru þjóðargersemar.
I Portico heita á frummálinu miklir yfirbyggðir gangar í miðborginni sem ná heila 38 kílómetra á lengdina. Voru þeir upprunalega byggðir til að hýsa aðkomufólk og heimilislausa og eru nógu breiðir til að hægt sé að leggja sig undir þeim.
Basilíka heilags Petróníusar (Basilica San Petronio) við Piazza Maggiore Bologna er tileinkuð einum biskupa Bologna og er ómissandi listaverkaunnendum. Má þar finna marga fræga muni og Bolegnoni kapelluna frægu. Basilíkan er opin frá 9:30 til 12:30 og aftur milli 14:30 og 17:30.
Garður Margheritu (Giardini Margherita) er helstu garður Bologna borgar og yndisleg vin þegar hitastækjan er hvað mest yfir sumartímann. Þegar kvölda tekur breytist villa garðsins í næturklúbb á sumrin. Garðurinn er opinn alla daga ársins frá 06 til miðnættis.
Grasagarðurinn (Orto Botanico) við Via Irnerio er tilþrifamikill með yfir 5000 tegundir planta auk gróðurhúss fyrir kaktusa og sérstök afbrigði. Opinn 8:30 til 15 alla daga og 8:30 til 13 um helgar.
Verslun og viðskipti
Sökum smæðar Bologna er ekki eiginlegt verslunarsvæði neins staðar í borginni heldur fremur smærri verslanir út um allt. Þó eru fjórar götur sem skera sig úr sökum fjölda verslana og úrvals en þar eru helst dýrari verslunarkeðjur sem eiga per se lítið skylt við Bologna. Liggja göturnar út frá Maggiore torginu, Piazza Maggiore, og eru Via dell´Indipendenza, Via Ugo Bassi, Via Rizzoli og Via D´Azeglio.
Ekki skal þó láta numið staðar þarna heldur endilega vafra um sem víðast og ábyggilegt er að fyrr en síðar er rambað að smærri verslanir sem hafa bæði úrval og gæði og finnast ekki annars staðar í veröldinni en hér.
Aðeins ein stærri verslunarmiðstöð er í borginni. Galleria Cavour heitir sú en er undirlögð af dýrari ítölskum verslunum og verðin eftir því.
Matur og mjöður
Bologna er ekki óskrifuð matarkista Ítalíu fyrir ekki neitt. Hér eru trattoríur á hverju strái og ganga má út frá að allir þeir staðir í borginni sem ekki líta út fyrir að hafa verið opnaðir í gær séu vel þess virða að heimsækja.
Sama gildir um pöbba. Ávallt er fjör á háskólasvæðinu, Via Zamboni, og fjölmargir barir og klúbbar þar fyrir yngra fólkið. Þeir sem eldri eru og vilja hafa hægar um sig ættu að halda til Via Pratello þar sem barir eru í massavís og flóra þeirra fjölbreytt.
Líf og limir
Bologna er með öruggari borgum heims. Veskjaþjófar eru hér eins og annars staðar en alvarlegri glæpir eru sjaldgæfir og sökum smæðar borgarinnar og fámennis kemst upp um þá flesta. Engin sérstök hverfi ætti að forðast en betlarar geta verið til mikilla leiðinda á köflum í miðbænum.
HEIMILD: https://fararheill.is/bologna/