október 2020
Hjóluðum í dag á fjallahjólum um Hengilsvæðið. Keyrðum upp Nesjavallaveginn og lögðum þar á bílastæði við Dyradal.
Hjóluðum stíg inn að Múlaseli, áleiðis þar sem við Óli lögðum sl páska þegar við vorum á utanbrautargönguskíðum á þessu svæði. Inga tók þar rosalega byltu þar sem hún fór kollhnís á hjólinu, en slasaðist sem betur fer ekki. Frambremsu handfangið brotnaði samt, svo hún var bara með afturbremsuna það sem eftir lifði ferðar . EN við sem sagt snérum við þar sem hún hafði dottið og fórum að skála sem er í eigu Orkuveitunnar að Múlaseli, mjög flottur skáli, sem við skoðuðum, fórum inn og borðuðum nesti. Óli borgaði 1000 kr í skálasjóð. Fórum svo Marardals leiðina til baka, sem var mjög krefjandi sérstaklega með þungu rafmagns-fjallahjólin, þar sem klöngrast þarf með þau yfir kletta og hæðir. En falleg leið sem ég hljóp með Náttúruhlaupurum síðastliðið sumar.
Hér má sjá leiðina sem við fórum.


Var búin að bóka okkur Óla í ferð með Haraldi og Fjallafélaginu á stálkanta gönguskíðum á Geitlandsjökul. Út af Covid-19 og hertum sóttvarnaraðgerðum þá ákvað Haraldur að hætta við ferðina. Við ákváðum hins vegar að fara með Helgu Maríu vinkonu sem er vanur jöklaleiðsögumaður og fórum bara tvö og tvö í bíl til að tryggja sóttvarnir.

Veðrið var algjörlega magnað og þetta var ógleymanlegur dagur. Það var samt mjög erfitt að renna sér niður á gönguskíðunum (með hælinn lausan) í þessum nýfallna snjó og eftir á hefðum við frekar viljað vera á fjallaskíðunum, það hefði verið algjörlega magnað í þessum frábæra snjó 🙂
En frábær ferð í frábærum félagsskap, þar sem allt öryggi, bæði línur sem og sóttvörnum var fylgt.
