1) ST PIERRE KLUKKAN 22:00 FIMMTUDAGSKVÖLDIÐ 17. OKTÓBER 2019
Hlaupið er frá bænum St. Pierre, sem er við suðvesturströnd Reunion. Hlaupið er ræst klukkan 22:00 í niðamyrkri, en við þurftum ekki að kveikja á höfuðljósunum fyrr en við vorum komin um 5 km út úr bænum. Við byrjum á að hlaupa út úr bænum á malbiki á upplýstri götu og stígum. Hitastigið var um 30 gráður í ræsingunni.
Mér leið ekkert sérstaklega vel fyrstu kílómetrana. Ég var með verki í mjöðmunum, verk í rifbeininu (sem hafði brákast fyrir 4 vikum síðan), verk í tönninni (var í brúargerð) og náði ekki að hita neitt upp, þar sem það var orðið ansi troðið og þétt á þessum leikvangi þar sem hlaupið var ræst. Notaði samt möntruna mína úr Ermasundinu, ég er #jákvæð og #grjóthörð til að peppa sjálfa mig upp, því ég vissi að það væru um 60 klst hlaup/ganga framundan á fótum, þ.e. næstu þrír sólarhringarnir. Því var ekkert annað í boði, en vera skynsamur, jákvæður og grjótharður.
Það var ótrúlega mikið af fólki að hvetja, báðum megin við götuna alla leiðina út úr bænum, bæði börn og fullorðnir. Allir að gefa öllum hlaupurum „high-five“. Það var dansað, mikil tónlist og bara mikil hvatning. Börkur var búin að segja mér frá þessari frábæru stemningu, en jafnframt varaði hann mig við að gefa öllum high-five, því það er auðvitað mikil smithætta og mismunandi hreinlæti þarna að baki. Ég fór því í gegnum allan bæinn, án þess að taka á móti einu high-five, gaf bara öllum „thumbs-up“ í staðinn og fékk þumalinn til baka frá fólki. En þar sem mér leið ekki mjög vel, þá fór ég bara hægt af stað og fann að ég var ekki að taka þessa orku inn á jákvæðan hátt eins og vanalega. Mér leið eiginlega bara mjög illa og í sannleika sagt á þessari stundu var ég alls ekki bjartsýn á að ég myndi klára þetta hlaup (í fyrsta skipti sem ég finn þá tilfinningu þegar ég legg af stað í fjallahlaupi).
Ég endaði því á að taka inn eina verkjatöflu (Panodil) og halda svo áfram rólega út úr bænum, fegin þegar fagnaðarlætin hættu og það var orðið hljótt. Þetta er mjög ólíkt mér, því ég elska yfirleitt svona hvatningu og gleði, en þetta var ekki mín ræsing eða minn dagur;-) Börkur heilsaði mér svo þegar hann hljóp glaður fram úr mér, en þá vorum við ennþá á leiðinni út úr bænum á malbikinu og hann var orðin mun ferskari en hann var fyrir ræsinguna. Áður en við lögðum af stað henti hann í sig einhverju hlaupageli sem heldur betur virkaði. Við sáum hins vegar Sigga ekkert meira eftir ræsinguna, hann var bara flogin af stað upp í fjöllin.
2) DOMAINE VIDOT #2208
Samkvæmt Garmin Connect (Garmin Fenix 6 úrinu mínu sem ég elska) þá fór ég inn eftir samanlagðan tíma 2:02:31 og út 2:06:03, rétt um 4 mín stopp. Þessi stoppistöð er í 655m hæð Domaine Vidot, (14,6 km frá ræsingu). Var þarna klukkan 00:04 og kominn föstudagur, þ.e. rétt eftir miðnætti. Bún að vera á ferð í 2 klst 3 mín og 50 sek. Var rétt á undan áætlun, þar sem hún gerði fyrir að ég væri þarna klukkan 00:10, en ég er að fara út af drykkjarstöðinni um 00:06. Þessi drykkjarstöð er í litlum bæ og gengið inn í hvítt hús, þar sem drykkjarstöðin var. Það var mjög troðið þarna inni og ég fékk mér bara banana og appelsínur, fyllti á báða brúsana og gekk svo út. Það var mikill hrollur í mér þegar ég kom út, þar sem það var svo heitt og raki inní húsinu. Hitti ekki á Börk, en hann var víst bara rétt á eftir mér inná stöðina, held um2 mínútum, en ég hafði farið fram úr honum á leiðinni upp brekkuna, þar sem hann var eitthvað að græja í bakpokanum sínum. Á drykkjarstöðinni bætti ég vatni á báða vatnsbrúsana þar sem ég vissi að það væru um 3 klst í næstu drykkjarstöð.
3) NOTRE DAME DE LA PAIX #2028
Skv. Garmin var samanlagður tími 4:53:42 inn og út 4:59:07 eða um 6 mín stopp. En samkvæmt staðarhöldurum var tíminn 04:55:49, en Notre Dame de la Paix er í 1.612 metra hæð. Var í #2028 sæti og búin að vinna mig upp um 180 sæti frá síðustu drykkjarstöð. Kem þarna inn á föstudagsmorgni klukkan 02:56. Var um 10 mín á undan áætlun, því ég gerði ráð fyrir að vera þarna klukkan 03:04 og þá búin með 5:04 klst. (heildartími). Þarna er ég búin að hlaupa 25 km eða rúmlega hálft maraþon, í rúmar 5 klst, um 10,5 km frá síðustu drykkjarstöð sem tók mig rétt tæpar 3 klst að hlaupa og hækkunin samtals um 1.200 metrar.
Á þessum tímapunkti vorum við Börkur farin að hlaupa saman, hann náði mér stuttu eftir að ég fór út af Domaine Vidot drykkjarstöðinni. Þessi drykkjarstöð var á veginum og við reyndum að fá okkur te og súpu, en ég man að það var ekki til súpa þegar ég fór að biðja um hana. Það var mjög troðið á þessari drykkjarstöð. Eftir hana héldum við áfram eftir malbikuðum vegi.
4) AIRE DU NEZ DE BOEUF #1956 (Parking Aire du Nez de Boeuf)
Skv. Garmin var samanlagður tími 8:20:34 inn og 8:35:08 út sem gerir um 15 mín stopp. Þessi drykkjarstöð er í um 2.039 metra hæð. Það var farið að birta þegar við komum inná hana á föstudagsmorgni klukkan 06:23. Búin með 8 klst og 23 mín.
Munurinn á Garmin tímunum mínum og tímunum frá staðarhöldurum, er sá að ég kveikti á Garmin úrinu þegar ég fór yfir ráslínuna, en þau greinilega miða bara við klukkan 22:00 þegar hlaupið var ræst, en það var mikill troðningur eins og komið hefur fram í byrjun hlaups. Það má segja að við höfum verið alveg á plani á þessari drykkjarstöð (plan 08:27:04). Þegar við komum að stöðinni, var mjög kalt, hitastigið var í mínus, allar rúður í bílunum við drykkjarstöðina voru hélaðar og það var frost í jörðu. Það voru allir komnir í hlý föt og jakka nema Börkur sem var ennþá í stuttbuxum og stuttermabol 😊
Mig langaði ekki að stoppa lengi þarna út af kuldanum, en náttúran kallaði og ég varð að hlaupa aðeins upp í brekku, ekki spennandi að vera með niðurgang í svona hlaupi og hvað þá á þessum tímapunkti í skítakulda. Ég tók því Immodium eftir kall náttúrunnar, fékk mér mikið af heitu tei og smá súpu. Sá svolítið eftir að hafa ekki verið með betri bolla, þar sem það er mjög erfitt að drekka heita drykki úr þessum örþunnu bollum sem gefa eftir. Eins og framan greinir þá erum við búin að hlaupa í rúmar 8 klst og ég án þess að setjast niður eina mínútu og mig langaði ekki til að setjast niður þarna í þessum kulda. Búin að vinna mig upp um 72 sæti í viðbót frá síðustu stöð.
5) MARE À BOUE #1941
Samkvæmt Garmin var samanlagður tími 10:17:46
inn og 10:27:45 út, stoppaði í um 10 mín. Stöðin er í 1.608 m hæð, um 500 metra
lækkun frá síðustu drykkjarstöð (tími staðarhaldara 10:19:45). Börkur átti mjög
góðan kafla þarna niður og flaug niður brekkurnar. Ég sá til að byrja með
alltaf í hann, en svo missti ég sjónar af honum. Það er mjög langur malbikaður
kafli rétt áður en maður kemur inn á þessa stöð. Þar var mikið af heimafólki á
þessum kafla að taka á móti og aðstoða sitt fólk.
Klukkan var um 8:20 þegar ég kom inn á þessa drykkjarstöð, hafði unnið mig upp
um 15 sæti en ég var búin að vera með verki í vinstra fæti út af blöðrum sem
voru að angra mig. Þegar ég kem inn á stöðina fer ég beint í læknatjaldið og
fer úr skónum og bið um aðstoð við að sprengja blöðruna. Í fyrsta skipti sem ég
sest niður eftir að hafa verið 10 klst og 20 mín á hlaupum. Endaði svo með því
að sprengja blöðruna sjálf og notaði minn eigin plástur til að setja yfir
sárið, en fékk gefins sótthreinsiklút í læknatjaldinu. Fór svo aftur í skóna og
fór í matartjaldið. Þar var verið að bjóða uppá kjúkling og hrísgrjón sem ég
hafði ekki lyst á.
Fór og leitaði að Berki en fann hann ekki. Ég hafði stoppað í læknatjaldinu í um 10 mín svo ég hélt að Börkur væri bara farinn. Ég reyndi að hringja í hann, en hann svaraði ekki. Það kom svo í ljós síðar að Börkur hafði verið rétt um 4 mín á undan mér á drykkjarstöðina og hafði fengið sér að borða og beið eftir mér, en sá mig ekki, svo einhvern veginn tókst okkur að fara á mis hvort við annað á 24 fermetrum. En hlauparar voru þarna út um allt á túninu að hvíla sig og næra.
Ég var alveg á plani m.v. tímann sem ég fór út. Ég fyllti á vatnsbrúsann og hélt áfram, en borðaði ekki neitt. Var á þessum tímapunkti komin með algjört ógeð á gelum en fékk mér Chia bar sem ég var með á mér. Fór svo á Facebook live og lét vita af mér og hélt svo áfram. Framundan var mikið klifur, bæði upp og niður og mjög erfiður kafli fyrir mig.
Börkur hringdi að lokum í mig en hann hafði
komist að því að ég hefði farið á undan honum út. Hann var þá búin að bíða í um
40 mín á drykkjarstöðinni þegar hann áttaði sig á því að ég væri komin inná
stöðina og farin út aftur. Þegar ég heyrði í honum var ég orðin mjög orkulaus
og hélt að ég væri að „bonka“ út af orkuleysi, en komst svo síðar að því að
þetta var þetta klássíska „lungnavesen“ á mér.
Ég sagði Berki að ég myndi ganga rólega áfram og hann myndi klárlega ná mér.
Þegar hann náði mér var ég lögst niður, orðin mjög þreytt og ætlaði að sjá
hvort ég myndi ná að hvíla mig eða sofna. Ég var örugglega bara búin að hvíla
mig í 2-3 mínútur þegar Börkur kom, svo hvíldin varð ekki meiri.
Sólin var farin að skína og það var orðið frekar heitt og sólin skein, svo Börkur fékk sólarvörn hjá mér. Var á þessum tímapunkti ekki í mjög góðum málum og sagði honum að fara bara á undan mér. Hann gerði það, en eftir smá stund náði ég Berki aftur. Hann hafði þá fengið bakþanka, sagði að það væri erfið og krefjandi leið framundan og vildi ekki skilja mig eftir á þessum tímapunkti. Hann var því mjög þolinmóður að bíða, á meðan að mér fannst allir taka fram úr okkur á þessum tímapunkti, sem var mjög erfitt fyrir mig andlega. Eftir á að hyggja held ég að það hafi verið mistök hjá mér að stoppa ekki lengur á síðustu drykkjarstöð og næra mig af þessum hrísgrjónum og kjúkling þó mig hafi ekki langað í það, alla vega hefði ég átt að setjast aðeins niður og hvíla mig áður en ég hélt áfram. En það er alltaf auðveldara að vera vitur eftir á.
6) CILAOS (STADE) #2004 – FYRRI „DROP OFF“ POKINN
Samkvæmt Garmin úrinu mínu var samanlagður tími 15:53:52 inn og 17:20:33 út, samtals 1 klst og 26 mín stopp. Cilaos (Stade) er í um 1.213 metra hæð og við búin með 65,4 km. Þegar við komum þangað var klukkan orðin 13:53 á föstudegi og við búin að bæði hækka okkur og lækka okkur. Á þessum tímapunkti þegar við komum inn á drykkjarstöðina vorum við um 30 mínútur á eftir áætlun. Þá var ég búin að tapa 63 sætum frá síðustu drykkjarstöð, sem sýnir hvað síðasti kafli var erfiður fyrir mig.
Á þessari stöð var fyrri „drop pokinn“ okkar og við Börkur ákváðum að við yrðum að leggja okkur. Við sóttum pokana og lögðumst fyrir. Ég stillti vekjaraklukkuna á gsm símanum mínum á 15 mínútur, en gat ekki sofnað, kannski í mesta lagi um 1 mín. Börkur steinsofnaði og eftir 15 mín, framlengdi ég 15 mínútur í viðbót fyrir hann og fór sjálf í matartjaldið og sótti mér súpu.
Þegar Börkur vaknaði fór hann líka í matartjaldið og fékk sér jógúrt. Við skiptum um boli og bættum gelum og orkubörum í hlaupavestið. Ég tók líka með í hlaupavestið nýja rafhlöðu í höfuðljósið mitt, en ég hafði bara klárað eina rafhlöðu fyrstu nóttina, svo ég var með tvær fullhlaðnar á mér núna eftir þessa drykkjarstöð. Við stoppuðum mjög lengi hérna, eða í um 1 klst og 26 mín. Fylltum svo á drykkjarbrúsana á leiðinni út af stöðinni og þá fór ég enn og aftur á FB live 😊 Á leiðinni út af stöðinni tókum við spjallið við tvo unga drengi, sem sögðu okkur að þeir höfðu stoppað í um 3 klst í Cilaos.
7) SENTIER TAÏBIT (DÉBUT) #2020
Skv. Garmin var samanlagður tími 19:31:41 inn og 19:41:23 út um 10 mín stopp. Sentier Taïbit (début) er í um 1.257 metra hæð. Við vorum komin þangað klukkan 17:34. Þarna voru um 72 km búnir og 19 klst og 33 mín og ég í 2.020 sæti. Áætlaður tími þarna var 18 klst og 39 mín, svo ég var næstum orðin 1 klst á eftir áætlun og um 6,6 km frá síðustu stöð. Hafði misst 16 manns í viðbót fram úr mér og þegar ég kom á drykkjarstöðina og hitti Börk var ég víst orðin mjög pirruð á öllum þeim sem höfðu farið fram úr mér (að hans sögn) en mér fannst það miklu fleiri en 16 manns 😊 😊 . Þessi drykkjarstöð var á veginum að Cilaos og framundan var mjög erfitt klifur upp í 2.100 m hæð. Stoppaði mjög stutt á drykkjarstöðinni eða í um 10 mínútur.
Ferðin upp var mjög töff og mér fannst hún endalaus. Það var komið myrkur. Mér fannst ég búin að heyra í fólki frá drykkjarstöðinni, löngu áður en ég kom þangað, þetta var svona endalaus leið upp og aftur niður. Við Börkur vorum búin að ákveða að hvíla okkur í Marla, sem var næsta drykkjarstöð, svo ég var búin að stilla hausinn minn á það. Börkur var kominn á undan mér í Marla, þar sem ég fór auðvitað svo hægt upp í þessu klifri.
Á þessum tímapunkti var ég búin að uppgötva að þetta var ekki hefðbundið „BONK“ út af orkuleysi eins og ég hélt, heldur þessi áreynslu-asmi sem lýsir sér þannig að þegar ég er í miklu klifri og komin í ákveðna hæð, þá hrinur púlsinn niður í 80-85 og orkuleysið verður algjört og ég rétt kemst áfram fetið, eitt skref í einu.
Í Grand Raid Reunion má ekki nota hlaupastafi, svo ég gat ekki „hangið“ á stöfunum eins og ég gerði í UTMB þegar ég lenti í þessu lungnaveseni þar. Þarna sá ég og upplifði að þetta var vandamál. Sá þegar púlsinn hrundi niður í miklu álagi sem er óeðlilegt. Þetta gat ég staðfest með splunkunýtt Garmin Fenix 6 úr á mér sem mældi réttan púls og ég sá og fann að þetta væri ekki eðlilegt. Þegar ég hafði lenti í þessu vandræðum áður, eins og í UTMB, UT4M, Bhutan og HK100 þá hélt ég alltaf að úrið væri bilað þegar púlsinn fór svona niður. Núna vissi ég að þetta væru réttar mælingar á púlsinum, þ.e. púlsinn fór niður og orkan með og ég bara gat bara hreyft mig mjög hægt.
Eftir UT4M í fyrra fól ég í lungnapróf, og var greind með áreynslu asma. Þá fékk ég Symbicort asmalyf sem hjálpaði aðeins, en bara alls ekki nóg, og svo má bara taka það 8 sinnum á sólarhring. Ég gleymdi að taka Ventolin með mér, sem maður á að taka á móti, þar sem það er skammvirkandi á méðan að Symbicort er víst langverkandi. En ég tók ákvörðun á þessum tímapunkti að fara ekki í UTMB á næsta ári, fyrr en ég mun láta rannsaka mig betur og vinna í þessum veikleika mínum, svo ég lendi ekki í þessu aftur.
8) MARLA #1942.
Ég komst að lokum í drykkjarstöðina í Marla skv. Garmin Connect eftir 22:21:45 inn og 23:14:06 út, samtals um 53 mín stopp. Marla er í um 1.627 metra hæð og 77,9 km búnir. Þá var ennþá föstudagskvöld og klukkan orðin 20:24 og heildartími kominn í 22 klst og 23 mín (skv. staðarhöldurum). Eins skrítið og það hljómar m.v. mína líðan og ástandið þá hafði ég tekið fram úr 78 einstaklingum frá síðustu drykkjarstöð, en aðalástæðan að mínum mati er sú að ég var ekki að stoppa lengi á drykkjarstöðvunum, en margir hlauparar voru að því og að leggja sig bara út um allt.
Á þessum tímapunkti hélt ég að ég væri á tímaáætlun, en ég hafði þá ruglað saman heildarklukkustundum og tíma dags. Áætlunin gerði ráð fyrir að ég væri þarna klukkan 19:21, samanlagður tími þá 21:21, en klukkan var orðin 20:24 og samanlagður tími komin í 22 klst og 23 mín. Þarna var ég bara heppin að halda að ég væri innan tíma, svo við ákváðum að leggja okkur smá.
Þessi stöð eins og flestar aðrar voru bara tjaldbúðir, en þarna var svefntjald sem Börkur hafði reynt að fá pláss í, en ekki fengið. Við ákváðum samt að reyna aftur, því ég var ekki búin að sofa nema í um 1 mín og við búin að vera á ferðinni í rúmar 22 klst á þessum tímapunkti.
Klukkan var sem sagt 20:24 á föstudagskvöldi og það var mjög kalt. Ég hafði einungis sest einu sinni niður til að sprengja blöðruna á fætinum á mér og svo lögðumst við niður í Cilaos þegar við reyndum að leggja okkur. Til að gera langa sögu stutta, fengum við inni í svefntjaldinu, sem var mjög lítið kannski 30 fm og fólk lá þar bara á dýnum út um allt. Við fengum saman eina mjóa dýnu, en sitt hvort teppið. Náði þarna að sofna í fyrsta skipti. Ég stillti vekjaraklukkuna á 30 mín, en eftir 20 mín þá vaknaði ég við að ég var orðin blaut á lærunum. Skildi ekki hvaðan sú bleyta kom. En það hafði kona lagst við hliðina á mér með hlaupabakpokann sinn og og svo lak úr vatnsbrúsanum hennar. Það var því ekki hægt að liggja þarna lengur, svo við Börkur hentumst á fætur og út.
Það þarf heldur betur að taka á honum stóra sínum við þessar aðstæður, í myrkri og kulda að fara út úr tjaldinu og halda áfram. Það var niðamyrkur, það var kalt, og við vorum þreytt. En um leið og við lögðum af stað þá hlýnaði okkur og með jákvæðum hugsunum þá hvarf þreytan eins og dögg fyrir sólu 😊
9) PLAINER DES MERLES #1919
Eftir að hafa lagt sig í Marla gekk hlaupið hjá okkur Berki mjög vel og við sópuðum upp hlaupara. Komum í Plainer des Merles rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöldið og þá búin að vera næstum 26 klst á ferðinni. Var komin í 1.919 sæti eða upp um 23 sæti.
Við héldum áfram að hlaupa taka fram úr hlaupurum og áttum mjög góðan kafla fram að Sentier Scout (unnum okkur upp um 96 sæti).
10) SENTIER SCOUT #1846
Samkvæmt Garmin var samanlagður tími 26:38:21, gleymdi að stimpla mig út, svo ég veit ekki hvað stoppið var langt. En við komum í Sentier Scout, þ.e. þessa skáta drykkjarstöð klukkan 00:44, þ.e. komin aðfararnótt laugardags, nótt tvö. Við vorum í 1.651 metra hæð. Þá voru 88 km búnir. Man að ég farin að hlakka til þegar við værum búin með helminginn og það var næstum því á þessum tíma.
Búin að hlaupa í tæpar 27 klst (26:43:28 skv.
staðarhöldurum) og um 2 klst á eftir áætluðum tíma. Við stoppuðum ekki lengi
þarna, fylltum bara á vatnsbrúsa sem þurfti og héldum áfram.
Vorum samt búin að vinna okkur upp um 96 sæti, enda hafði gengið mjög vel eftir
Marla, þar sem við náðum 20 mín svefni og margir að sofa og því stoppa mun
lengur en við.
Á þessum kafla frá Sentier Scout til Ilet Á Bourse voru mjög brattar hlíðar og þröngur stígur. Siggi var búin að var mig við þessum kafla, þar sem það var hnífbratt niður hlíðina við stíginn og menn hafi dáið í þessu hlaupi, held hann hafi sagt að tveir menn hafi látist í fyrra. Og svo eru hlauparar sofandi út um allt við þessa hnífbröttu hlíðar.
Við Börkur vorum að hlaupa við eina svona hlíð þegar ég ákveð að vara hann við, en hann var á hraða kaflanum búinn að vera fyrir aftan mig. Ég kallaði svo á hann og sagði Börkur: Við verðum að passa okkur hérna það er hnífbratt hérna niður. Hann svaraði mér ekki. Fyrst hélt ég að hann hefði bara ekki heyrt í mér, því við vorum bæði með tónlist Ipad Shuffle í eyrunum. Svo sný ég mér við og sé hann ekki lengur og þá dauðbrá mér, ætli hann hafi dottið hugsaði ég og ég hafi ekki heyrt það út af tónlistinni. En ég hélt samt áfram upp fjallið og hugsaði, hann hefur kannski farið fram úr mér,ég hlýt að hitta hann þarna uppi. Svo þegar ég kom upp var enginn Börkur svo ég hljóp niður aftur. Enginn Börkur svo ég fór aðeins upp en svo aftur niður. Var farin að ókyrrast verulega. Reyndi að hringja í hann, en hann svaraði ekki svo ég reyndi að hringja í Sigga og hann svaraði ekki heldur. Mér leist ekki orðið á blikuna og var orðin mjög stressuð. Fann svo staðinn, þar sem ég hélt að Börkur hefði dottið niður og fór og stoppaði aðra hlaupara til að hjálpa mér að leita.
Fyrstu hlaupararnir sem ég stoppaði töluðu enga ensku svo ég beið þangað til það komu einhverjir sem skildu mig. Ég bað þá að hjálpa mér að leita að vini mínum sem ég hélt að hefði dottið niður brekkuna. Við notuðum ljósin okkar til að lýsa niður hlíðina. Einn sagðist vera viss um að hann sæi ljós og mann þarna niðri og hinir fóru að leita líka. Ég sá ekkert en var farin að sjá þyrluna fyrir mér, þurfa að koma og sækja Börk sem væri kannski slasaður þarna niðri.
Á meðan við leituðum og biðum, fóru fullt af hlaupurum fram úr okkur, allir þeir sem við höfðum verið að hlaupa fram úr, en ég hafði engar áhyggjur af því, hafði bara áhyggjur af Berki sem læi þarna kannski slasaður.
Skyndilega kemur Börkur niður stíginn og spurði hvað gengur á: Ég sagði honum að við værum að leita að honum og honum brá smá því hann hélt að eitthvað hefði komið fyrir mig og það væri verið að leita að mér. Hann hafði sem sagt þá farið fram úr mér og ég ekki séð það og hélt svo áfram uppá fjallið, þ.e. ég hafði ekki farið nógu ofarlega. Svo þegar ég skilaði mér ekki og allir sem við höfðum verið að taka fram úr voru komnir á undan mér, fór hann að hafa áhyggjur að ég hefði hrapað svo hann snéri við.
Við vorum því bæði mjög ánægð að sjá hvort annað og komast að því að við vorum bæði heil á húfi.
11) ILET Á BOURSE #1940 SÆTI
Ilet à Bourse er í 889 metra hæð og við búin með 95,4 km. Ég var komin þangað klukkan 04:22 á laugardagsmorgninum. Samanlagður tími var kominn í 30 klst 21 mín og 25 sek. Við höfðum misst 94 hlaupara fram úr okkur – út af þessu veseni, þegar ég hélt að Börkur hefði hrapað.
Við náðum mjög góðum hlaupakafla niður brekkuna í myrkrinu. Á leiðinni niður sá ég fullt af sprautum (með nálum í) og skildi ekki af hverju frönsk yfirvöld á eyjunni, hreinsuðu ekki upp allar þessar sprautur eftir dópistana sem skildu þetta eftir út um allt.
En við náðum mjög góðum kafla niður brekkuna og fórum svo yfir brú. Á leiðinni niður brekkuna, voru hlauparar út um allt að leggja sig, láu þar með álpoka yfir sig út um allt. Þegar við vorum komin yfir brúnna þá veltum við fyrir okkur hvort við ættum að halda áfram að næstu drykkjarstöð eða leggjast bara þarna niður og leggja okkur, enda orðin mjög þreytt.
Klukkan var langt gengin í 5 um morguninn svo við ákváðum að leggja okkur. Ég spurði Börk hvort hann ætlaði virkilega að leggjast á allar sprauturnar? Börkur hristi hausinn og svaraði: „HVAÐA SPRAUTUR? Þetta eru ekki sprautur heldur strá.“ Ég fór svo og skoðaði þetta betur og þá voru þetta strá sem litu alveg út eins og sprautur og ég var búin að passa mig mikið að stíga ekki á þau á leiðinni niður 😊 😊
Við Börkur ákváðum að leggja okkur fyrst í 20 mín (stilltum gsm) og svo bættum við 10 mín við.
12) GRAND PLACE #2006 sæti
Þessi drykkjarstöð var eins og svo margar aðrar, tjald og við vorum þarna um miðja nótt, eða á laugardagsmorgni klukkan 05:42. Samanlagður tími var þá komin í 31 klst 41 mín og ég fór út af þessari drykkjarstöð eftir 31 klst og 59 mín svo ég hef stoppað þarna í 18 mín. Fór þarna á FB live og var að segja frá því að við Börkur hefðum lagt okkur í sprautunum og sagði líka frá því þegar við Börkur týndum hvort öðru og ég hélt hann hefði hrapað.
Vorum búin með 98,5 km og var í 2006 sæti höfðum tapað um 57 sætum við það að leggja okkur. En það var samt alveg nauðsynlegt til að geta haldið áfram.
Stöðin er í 673 metra hæð. En eins og framan greinir, þá fór ég á FB á þessari drykkjarstöð og eins og vanalega, var Börkur ekkert sérstaklega spenntur yfir því. Þannig að þegar ég var svo tilbúin að leggja af stað, þá var Börkur týndur, bara farinn. Ég fór og leitaði að honum og kallaði og kallaði og reyndi að hringja í hann, án árangurs. Svo ég bara lagði af stað. Man að Rúna Rut vinkona svaraði mér og skrifaði að ég yrði að hafa bara Börk í bandi 😊 😊
Það var mjög erfiður kafli frá Grand Place upp í Roche Plate, hér voru tröppurnar ekki tröppur, heldur þurftirðu að æfa þig í kassa-hoppi, eða kassa-tröppum til að komast upp fjöllin. Mér leið ekki mjög vel. Það var komin dagur og það orðið frekar heitt. Ég hélt þessi brekka ætlaði aldrei að hætta. Svo var mikil tónlist í einu húsinu svo ég var fullviss um að þar væri drykkjarstöðin, sem var svo ekki reyndin, heldur var það bara mikið stuð á því heimili.
13) ECOLE DE ROCHE PLATE #1.990 sæti
Ég kom inn á Ecole de Roche Plate skv. Garmin eftir 35:41:49 inn og 37:09:44. Svo ég stoppaði þar í 1 klst og 28 mín. Ætlaði að vera samkvæmt planinu mínu þarna 33:12:21, svo ég var ennþá þó nokkuð á eftir plani, en það skipti engu máli. Því markmiðið var alltaf númer eitt að klára þetta hlaup og ná innan tímamarka og helst að hafa gaman allan tímann 😊 Þrátt fyrir mjög erfiðan kafla, þá náði ég að vinna mig upp um 16 sæti, skil það ekki alveg, en það hljóta einhverjir að hafa bara lagt sig 😊
Ég var mjög glöð þegar ég hitti Börk, því ég hélt ég ætlaði aldrei að koma að þessari drykkjarstöð. Hann var inni í sjúkratjaldinu að láta taka úr sér flís. Ég notaði tækifærið og fékk sjúkraliðana til að sprengja fleiri blöðrur sem voru nú komnar á báðar fætur sem og bera eitthvað á núningssár sem ég fann líka fyrir. Börkur hafði hvílt sig smá á pappaspjaldi, og eftir aðgerðina á blöðrunum, lagðist ég á pappaspjaldið með honum og náði að leggja mig í ca 20 mín.
Þessi stöð er í skóla og við vorum þar um klukkan 09:43 á mjög heitum tíma og stoppuðum mjög lengi eða í um 1 klst og 28 mín, enda ánægð að liggja þarna í skugga á mjög svo heitum tíma úti.
Það var svo mjög heitt að hlaupa eftir þessa drykkjarstöð, en ofboðslega falleg leið.
13) MAIDO TÉTE DURE #2024 sæti
Morguninn var heitur og erfiður, en útsýnið var stórkostlegt á leiðinni. Kom inná Maido Téte dure skv. Garmin eftir 40:27:56 inn og 40:48:35 út, bara um 20 mín stopp. Maïdo Tête dure er í 1.559 metra hæð og við búin með 113,5 km. Við vorum komin þangað klukkan 14:31 á laugardeginum.
Þá vorum við búin að vera á ferðinni í rúmar 40 klst. Vorum búin að missa 34 hlaupara fram úr okkur, eftir langt stopp í Roche Plate. Börkur var aðeins á undan mér í þessa drykkjarstöð sem var eins og margar aðrar bara tjöld. En ég fór á kamarinn og fékk líka sódavatn á 1. L. flösku. Immodiumið var hætt að virka og kominn tími á aðra töflu. Á þessum tímapunkti var sódavatn það besta sem ég fékk og miklu betra að drekka það af stút á flösku, heldur en í þessum þunnu glösum. Ég settist smá stund niður og fékk mér að borða og drekka, en svo fórum við Börkur saman út.
Það var þó nokkur hrollur í mér, enda maginn ekki sérstakur. Var með smá niðurgang, svo ég tók aðra Immodium. Við stoppuðum eins og framan greinir ekki mjög lengi, eða í um 20 mín og Börkur hljóp mun hraðar en ég niður. Ég elti hann reyndar til að byrja með, en þurfti svo að stoppa til að setja aftur hnéhlífarnar á míg sem ég hafði dregið niður á kálfa á drykkjarstöðinni. Þá missti ég hann og hópinn sem hann var að hlaupa með fram úr mér og fór því sjálf mun hægar þegar ég hljóp ein niður.
Ég hljóp með sódavatnsflöskuna í hendinni, stoppaði einu sinni til að þamba af henni, en sódavatnið var mjög gott. Hlaupið niður gekk samt mjög vel og ég vann mig upp um 147 sæti.
14) ILET SAVANNAH 159 km 44:13:13 #1877 sæti – DROP POKI #2
Savannah er í 159 metra hæð. Ég var komin þangað klukkan 18:14:44 og þurfti að leita að Berki. Samkvæmt Garmin var tíminn minn inn 44:10:39 og út 45:36:30, svo ég stoppaði í 1 klst og 25 mín.
Þetta er mjög stór stöð, þarna var „drop-poki“ númer 2. Ég var ekki alveg með það á hreinu hvað ég ætti að gera á þessum tímapunkti, því það voru nokkrir möguleikar. Átti ég að fara aftur í læknatjaldið og láta kíkja á blöðrurnar, það sem þær voru ekki að skána. Átti ég að fara í kalda sturtu og skipta um föt? Átti ég að finna svefntjald og leggja mig? Eða átti ég að fá mér bara að borða og halda áfram?
Ég hringdi í Sigga og spurði hann hvað ég ætti að gera, hann mælti með að ég myndi skipta um skó og þau föt sem ég vildi skipta um, sleppa sturtunni og drífa mig af stað og leggja mig frekar á leiðinni þar sem þyrfti.
Ég heyrði líka í Óla og Guðmundi Smára, sem sagði mér að Börkur hefði verið um 40 eða 50 mín á undan mér á þessari stöð. Ég hélt því að hann væri bara farin, en svo reyndi ég að hringja aftur í hann. Náði loksins í hann, en hann var þá að fara að leggja af stað aftur. Ég sagði honum að ég væri í matartjaldinu. Hann kom þangað og ég gat lánað honum rafhlöður, í ljósið hans, þar sem hans voru ekki að virka. Hann hafði verið að hlaða símann sem var ástæðan fyrir því að hann svaraði ekki. Börkur var alveg tilbúin, en ég skipti um fötin og skóna og setti á mig plástur á fæturna. Ég borðaði þarna kjúkling, hrísgrjón og svo Beef Jurky sem ég var með. Svo var bara að koma sér af stað.
Fór svo á Facebook live á leiðinni út af stöðinni.
Framundan voru tvær eða þrjár ár sem þurfti að komast yfir. Það sem kom mér á óvart var hversu margir voru að fara úr skónum og sokkum og vaða, en við Börkur tipluðum bara á steinunum og létum vaða, og ég blotnaði ekki sem betur fer, hefði verið leiðinlegt eftir að vera komin í þurra skó og sokka.
15) INTERSECTION CHEMIN RATUNAUD #1.888 sæti
Til að komast að Chemin Ratinaud sem er í 471 m hæð, þá þurftum við fyrst að fara yfir þessar ár sem ég nefndi og svo upp langa brekku og fara í gegnum svona smá „jungle“ frumskó áður en við komum að drykktarstöðinni Chemin Ratunaud. Mér fannst allir fara fram úr mér á þessum kafla og var orðin mjög svekkt á þessu lungnaveseni, en ég var samt bara að tapa 11 sætum. Börkur var á drykkjarstöðinni þegar ég kom þangað, en ég stoppaði mjög stutt þar. Klukkan orðin 21:58 á laugardagskvöldi.
16) LA POSSESSION ŽCOLE #1.785 SÆTI
Við komum í bæinn La Possession sem er eiginlega bara við sjóinn, 24 metra hæð rétt eftir miðnætti, þ.e. aðfararnótt sunnudags klukkan 00:20. Þá búin að vera á fótum í 50 klukkustundir og 20 mín og búin með 143,7 km. Átti góðan kafla í áttina á La Possession þar sem ég vann mig upp um 103 sæti.
Þurftum að fara í gegnum ennþá meiri frumskó (sem ég kallaði Víetnamskóginn) og ég var á því að þetta var leið sem ég var búin að fara áður. Talaði endalaust við Börk á leiðinni þarna niður eftir, og sagði honum að ég væri búin að fara þetta allt áður. Þetta var mjög krefjandi og erfið leið áður en við komumst niður í bæ og gengum svo inn á nýja stöð sem að var mjög stór. Ég var orðin mjög syfjuð og fékk að leggja á bedda þarna og sofnaði í 10 mínútur. Þegar ég vaknaði aftur, var mér smá kalt, en við hittum franskann mann sem tók mynd af okkur. Hann var að spjalla við Börk á meðan ég lagði mig og hann hafði farið í CCC og TDS nokkrum sinnum. Börkur fór í sjoppu og keypti sér kók og vatn handa mér. En þegar ég vaknaði þá langaði mig svo mikið í Fanta að við fórum og skiptum vatninu fyrir Fanta og þetta var besta Fanta sem ég hef nokkrum sinnum drukkið. Sparaði flöskuna og tók með mér restina, þ.e. setti í vestið mitt. Komum við, við veitingaborðið áður en við yfirgáfum stöðina. Börkur fékk sér brauð með sardínum og kæfu, eitthvað sem ég gat ekki smakkað, en ég fékk mér einn ostbita og appelsínusneið. Berki var svo síðar óglatt af þessu áti og fékk hjá mér BASE salt sem bjargaði honum alveg, þannig að hann þurfti ekki að kasta upp.
Leiðin út úr bænum La Possession var einhvers staðar útí sveit áður en við komum aftur niður í bæ og hlupum fram hjá einu búðinni sem við hlupum fram hjá á leiðinni. Að sjálfsögðu kíktum við inní hana, en við keyptum okkur ekki neitt. Hefði kannski átt að kíkja eftir RedBull, en ég var alveg góð, þar sem ég var með eina RedBull dós á mér, sem ég var með í Drop poka #2.
17) LA GRANDE CHALOUPE #1.632 SÆTI (líka við bæinn eftir að hafa hlaupið í gegnum bæinn)
Í Grande Chaloupe vorum við búin með 151 km. Samkvæmt Garmin var samanlagður tími orðinn 52 klukkustundir 55 mín og ég fór út af stöðinni eftir 53 klst 5 mín, þannig að ég stoppaði þarna inni í um 20 mín. Upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir að vera þarna eftir 50 klst og 17 mín, svo ég var um 3 klst á eftir þeirri áætlun. Samkvæmt staðarhöldurum var flögutími þarna 53 klst og 3 mín og ég var í 1.632 sæti og hafði því unnið mig upp um 153 sæti frá síðustu drykkjarstöð.
Við Börkur áttum frábæran kafla frá bænum La Possesion. Fyrst fórum við yfir mjög erfiðan „cobblestone“ leið, sem lá fyrst upp langa brekku. Börkur gaf í og ég bara tók á honum stóra mínum og gaf í á eftir honum. Tók fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðru og hvar mjög ánægð með það. Fyrst var þetta upp brekku, svo mjög langur kafli á þessum steinavegi, beint áfram áður en það kom langur niðurkafli á þessum cobblestones vegi. Þarna var aðalmálið að reyna að finna rétta staðinn á veginum til að hlaupa á, stundum var miðjan best, en stundum var kanturinn betri. Þannig að útsjónarsemi og pælingar skiptu þarna miklu máli. Ég þrumaði niður brekkuna. Hitti Börk þar sem ætlaði að leggja sig, en öll svefnpláss voru upptekin.
Ég bannaði Berki að hangsa eitthvað á þessari lestarstöð, sagðist ekki ætla að missa allt fólkið fram úr mér aftur, sem ég hafði tekið fram úr. Börkur var að tala við Sigga og gefa honum statusinn á okkur og áætlaðan komutíma, en þarna var Siggi komin í mark. ÉG var eins og framan greinir búin að vinna mig upp um 153 sæti, og ætlaði ekki að missa þau aftur, svo ég fór af stað á undan Berki og svo hann kom hann stuttu síðar.
18) LE COLORADO #1.558 sæti (síðasta drykkjarstöðin fyrir markið)
Ferðin upp í Le Colorado gekk líka vel, þessi 10 mín svefn í La Possession gaf mér þvílíka orku. Samkvæmt Garmin var samanlagður tími komin í 54:57:01 inn og 55:38:23 út, stoppaði því innan við 30 sek. Le Colorado er í um 664 m hæð og það eru um 10 km frá síðustu stöð (161 km búinn). Áætlaður tími hjá mér var 53:27:59, svo ég var um 2 klst fá áætlun. Klukkan því um 05:41 á sunnudagsmorgni og tíminn skv. staðarhöldurum 55:40:01. Ég var löngu hætt að hugsa um þessa upphaflegu áætlun, svo hún skipti ekki máli, en ég var glöð að vera búin að ná að vinna mig upp um 74 sæti, sem ég auðvitað vissi ekkert af á þessum tímapunkti, vissi bara að mér gekk vel og mér leið vel.
Leiðin upp í Le Colorado var fyrst upp langa brekku, en svo minnkaði hallinn og hér gengum við mjög rösklega, gegnum bæi og svo á endanum upp í fjall. Man ég talaði við Kristjönu, Siggu og Ásu í símanum á leiðina þarna upp og Sjana var einmitt að segja mér hversu fljót ég væri að hressast af svona 10 mín kríu. Ég sagði stelpunum að ég væri í góðum gír, það væri lítið eftir og ég hlakkaði til að drekka RedBull dósina mína.
Sólin var að koma upp þegar við nálguðumst toppinn. Börkur var á drykkjarstöðinni þegar ég kom í Le Colorado. Hann var á einhverju spjalli við sem einhvern, en skilaboðin mín til hans voru mjög skýr, ekkert hangs, ekkert stopp, drífa sig áfram. Ég ætlaði ekki að missa alla fram úr mér sem ég var búin að vera að taka fram úr síðustu klukkustundirnar.
Á þessari drykkjarstöð áttum við að skipta um bol, þ.e. fara í hinn keppnisbolinn sem við fengum (var með hlírabolinn sem sagt á mér allan tímann fyrir þetta). Skilaboðin mín til Barkar voru: „Við höfum engan tíma í að skipta um bol, gerum það bara í markinu.“ Við drifum okkur því bara af stað.
19) ST DENIS LA REDOUTE #1.496 sæti
Skv. Garmin samanlagður tími 56:34:14 og
hitastigið um 27 gráður. Markið í Grand Raid Reunion hlaupinu er í bænum St.
Denis la Redoute sem er í 58 metra hæð. Það er mjög langt og krefjandi
niðurhlaup frá Le Colorado (síðustu drykkjarstöð) að markinu.
Þegar það voru um 3 km í markið, komu mæðgur (að ég held) og tóku fram úr mér.
Það ýtti við keppnisskapinu mínu og ég var ekki alveg á því að láta þær taka
fram úr mér. Ég gaf því verulega í, kallaði á Börk og sagði honum að ég ætlaði
ekki að láta þær né aðra hlaupara taka fram úr mér.
Þurfti reglulega að kalla á aðra hlaupara og biðja þá að hleypa mér fram hjá,
því stígurinn var mjög mjór, og krefjandi.
Man að ég hugsaði að þetta væri ekki skynsamlegt á þessum tímapunkti að gefa í, eftir að hafa verið 55 klukkustundir á hlaupum, og sofið mjög lítið. Mundi eftir byltunni góðu í 4 ferðinni í Esjunni fyrir skemmstu, þar sem ég brákaði rifbein. En skynsemin tapaði fyrir keppnisskapinu svo við Börkur tókum fram úr fjölmörgum hlaupurum á þessum lokakafla niður brekkuna.
Þegar við komum inní bæinn, þurftum við að hlaupa aðeins á malbiki og svo inn á íþróttavöll, og taka þar vinstri beygju áður en við komum í mark. Börkur gaf ennþá meira í á slétta kaflanum og ég á eftir honum og kom því einni mínútu á eftir honum í mark.
Á þessum stutta kafla, þ.e. frá Le Colorado vann ég mig upp um 62 sæti. Siggi og strákarnir (Pétur sonur hans og Fjóni sem voru í ferðinni með okkur) voru því ekki komnir þegar við komum í mark. Þeir voru með íslenska fánann minn, svo ég náði ekki að hlaupa með íslenska fánann í markið.
Var mjög glöð þegar ég kom í mark. Við Börkur tókum nokkrar myndir, sóttum Finisher bolina okkar og fórum svo beint á tjald-barinn þar sem Börkur fékk sér bjór og við biðum eftir Sigga og strákunum.
Það var stórkostlegt að koma í mark í morgunskininu á þessum fallega morgni eða klukkan 06:37 á sunnudagsmorgni. Samanlagður tími var 56 klukkustundir 36 mínútur og 14 sekúndur skv. staðarhöldurum. Ég var í 22 sæti í aldursflokki og 115 konan overall og 1.496 sæti overall.