OCC keppnisdagur – 26. ágúst 2021

by Halldóra

Hlaupið er ræst í Orsiéres og það var ræst í þrem hópum, klukkan 08:15, 08:45 og 09:15. Var mjög glöð að vera í fyrsta ráshópi, hitt hefði verið meira stress að þurfa að bíða.

Það var alveg heiðskýrt í Orsiéres þegar við lögðum af stað, en ekki mikill lofthiti, svo það var gott að vera með drop-bag poka, þ.e. hlýja peysu sem ég gat skilið eftir í ræsingunni.

Uppgötvaði rétt áður en hlaupið var ræst að ég var með stóra appelsínugula gsm hulstrið (hálsmen) utan um gsm símann, svo ég gat komið því á Mörtu hans Sigga áður en við lögðum af stað, fínt að ganga með það, en frekar þungt að hlaupa með það.

Hlaupið var ræst á íþróttatúni, rétt fyrir utan miðbæinn, og svo var hlaupið í gegnum miðbæinn þar sem margir íbúar voru að hvetja hlaupara. Fljótlega tók við smá brekka og ég held ég hafi farið svolítið of hratt í byrjun, svo ég reyndi að vera skynsöm og hægja á mér. Markmiðið var aldrei að fara þetta hlaup of hratt, enda nýbúin að ganga/hlaupa 150 km og stóra hlaupið framundan í september, Tor Des Geants.

Ég var að hlaupa á svipuðum slóðum og Ásta en um leið og það kom brekka þá var Ásta mun hraðari en ég. Siggi og Svanur og stelpurnar frá Akureyri, Bryndís María og Rakel, fóru strax fram úr okkur. Var frekar þung á mér upp fyrstu brekkuna að Champex-Lac en fór svo á FB Live þegar ég gekk í gegnum þennan fallega bæ. Þegar ég var þarna með Náttúruhlaupahóp fyrir tveim árum, þá synti ég yfir vatnið í sundbol, þar sem ég var að æfa fyrir Marglyttusundið sem var sama haust.

Það var gaman að hlaupa í gegnum bæinn og þar komu hraðari hlauparar úr öðru holli strax fram hjá mér á fullri ferð. Þegar ég var komin inní Champex-Lac þá voru 10 km búnir og ég var búin með 1 klst og 43 mín og í sæti 1223.

Myndband af Facebook life …. 20% búið … 🙂

Eftir Champex Lac var smá kafli, sem var svona rúll, upp og niður þangað til að klifrið upp í La Giete eða „Fjósið“ eins og það er oft kallað tók við. Það var mjög töff brekka, sérstaklega í ljósi þess að mér fannst mörg hundruð manns fara fram úr mér. Púlsinn minn var í kringum 100, en ég komst ekkert áfram, þarna er asminn að hrekkja mig, en ég tók púst og hélt bara rólega áfram. Sá öðru hvoru í Ástu sem var þó nokkuð langt á undan mér. Kom loks upp að fjósinu, þar fengum við að drekka inní fjósi, sem var skemmtileg drykkjarstöð.

https://fb.watch/7PDfmYOixD/

Áður en við héldum niður bratta brekku í áttina að TRIENT þá komum við að stað, þar sem var ferðamannaverslun öðrum megin við veginn og hinum megin við var veitingasaður. Man að við fengum okkur að borða þarna fyrir tveim árum þegar ég var með NH hópnum. Mundi því eftir að hægt væri að kaupa drykki í ferðamannabúðinni. Fór inn og ætlaði að fá mér ískaltFANTA, en það var bara til SINALCO, REDBULL og ýmislegt annað, svo ég keypti mér bara Sinalco sem var alveg meiriháttar frískandi. Frábært að geta hlaupið inní búð í miðju hlaupi og keypti sér gosdrykk 🙂

Síðan tók við bratt og krefjandi niðurhlaup að La Trient, svo inn í bæ, að bleiku kirkjunni, þar sem ég hitti Þórdísi og Hlyn fyrr utan hvíta veitingatjaldið. Inni í tjaldinu hitti ég svo Ástu og Svan sem voru að fá sér að borða. Ég greip bara með mér bananabita, appelsínu- og sítrónubáta í plastpoka og ákvað að drífa mig áfram, þar sem ég visi að ég yrði MJÖG LENGI upp fjallið sem væri framundan. Þarna var ég þá búin með 26 km og tíminn 4 klst og 52 mín og komin í sæti #1130.

Þegar ég hljóp út úr tjaldinu kláraði ég Sinalcoið og losaði mig við flöskuna áður en ég hélt upp fjallið. Borðaði svo bæði banana, appelsínu og sítrónu á leiðinni upp. Ótrúlegt hvað mér leið miklu betur á leiðinni upp þetta fjall heldur en þetta fyrsta. Það voru líka miklu fleiri hlauparar sem voru þarna á mínum hraða upp fjallið, heldur en áður, hlauparar kannski orðnir þreyttari og þessir hröðustu löngu komnir fram úr mér.

Þetta var samt ágætis hækkun og því var eina vitið að fara bara hægt. Það var mikill hiti og ég ákvað að vera bara skynsöm. Þegar við komum svo á toppinn, þá var bara að fara rólega niður í áttina að Vallorcine. Þegar ég kom inní Vallorcine þá hitti ég fullt af Íslendingum, en þar voru Viggó með Sigrúnu Björk sem var að bíða eftir mömmu sinni og brjóstagjöfinni, og þar voru Marta hans Sigga og Eybjörg Drífa hans Svans. Yndislegt að hitta þau öll. Man að Viggó spurði hvernig ég væri og ég man að maginn var búin að vera eitthvað skrítin, þó hann hafi lagast mikið við appelsínurnar og sítrónurnar. Ákvað því að fá mér fransbrauð og ost og prófa hvernig það færi í magann.

Stoppaði ekki lengi á drykkjarstöðinni, búin að læra það af fimm Ironman keppnum, að eini staðurinn sem ég get bætt tímann minn á einfaldan hátt er á drykkjarstöðvum eða í T1 og T2 í IM:-) 🙂 Stoppaði nákvæmlega 3 mín og 47 sek. á drykkjarstöðinni. Sótti mér banana, brauð og osta í pokann, en allir appelsínubátarnir voru búnir. Þegar ég kom inn var ég í sæti 1003 en þegar ég fer út er ég í sæti 934, upp um 69 sæti. Eftir Vallorcine, kemur mjög langur kafli, sem er með smá hækkun. Það voru eiginlega allir að ganga þennan kafla og þá dettur maður ósjálfrátt í sama gírinn sem er ekki gott. Eftir langan kafla tók við ennþá lengri kafli í gegnum nokkra bæi og ég hélt við ætluðum aldrei að koma að Argentiére, vissi að þar myndi ég hitta Hafdísi og hlakkaði mikið til. Þessi kafli er líka eini kaflinn sem ég hef aldrei farið áður, því við höfum alltaf farið beint upp í fjallið eftir Vallorcine.

Komst loks að Argentiére þá voru 44 km búnir, samtals 8 klst 35 mín og 13 sek. og komin í 902 sæti overall. Þar hitti ég Hafdísi, Siggu Rúnu og Jón og mikið var gaman að sjá þau. Hafdís sagði mér að bleyta ennisbandið mitt, sem var mjög frískandi, var ekki búin að gera það fyrr, og hún sagði mér að fá mér kók og eitthvað að borða. Ég hafði engan veginn lyst á kóki, en fékk mér smá sódavatn í brúsana, sem var mjög gott og frískandi áður en ég hélt upp síðasta fjallið. Var ennþá með banana og brauð og osta í pokanum, svo ég bætti engu á mig.

Mynd sem Hafdís tók af mér á drykkjarstöðinni.
https://www.facebook.com/100008087553278/videos/pcb.3044820589178445/4403684729652409

Hélt þessi kafli upp síðasta fjallið væri miklu einfaldari en hann var. Hann var mjög krefjandi og ég var ennþá að borða brauð og ost til að laga magann en var ekki búin að fá neinar fleiri appelsínur. Það góða var að hér vorum við í skugga, búið a ðvera mjög heitur dagur. Þegar maður loks komst úr skóginum upp fjallið, þá var ein MJÖG BRÖTT SKÍÐABREKKA uppí skíðaskálann, þar sem drykkjarstöðin var í La Flégére. Þegar þangað var komið var ég komin með um 49 km og á rétt undir 10 klst og var í 890 sæti. Stoppaði mjög stutt þarna inni, en fékk mér samt smá kók sopa, tvo appelsínubáta og sódavatn á brúsann.

Niðurhlaupið frá LaFlégere er mjög krefjandi, sérstaklega þegar ég var farin að berjast við mikla krampa framan á báðum lærunum. Ákvað því að hægja á mér og valhoppaði niður fjallið sem var eina leiðin þegar ekki er hægt að hlaupa. Voru samt ansi margir hlauparar sem tóku fram úr mér á leiðinni niður.

Ég var búin að hlakka mikið til að koma að La Flora kaffihúsinu þar sem ég ætlaði að kaupa mér FANTA, búin að komast að því að Appelsín, Fanta eða Sinalco er ALGJÖRT MUST í TOR trúss töskuna 🙂 Þannig að þegar ég loksins kom í Flora, mjög margir búnir að taka fram úr mér á leiðinni niður, þá var svekkjandi að sjá að veitingastaðurinn var lokaður. Þá var ekkert annað að gera, en hugsa um Fantað sem ég fengi þegar ég kæmi í mark í Chamonix. Hélt valhoppinu áfram, sem var eina leiðin niður, þegar lærin eru steikt eftir krampana 🙂 Hugsaði líka SHIT hvernig ætla ég að klára þessa 24.000 km hækkun/lækkun í TOR og 330 km eftir nokkrar vikur 🙂 Viðurkenni það alveg að það runnu á mig tvær grímur og ég svo sem fegin að vera búin að ganga frá fluginu, annars hefði ég örugglega bara hætt við 🙂

En þegar ég er eiginlega alveg komin niður síðustu brekkuna, kemur Siggi á fljúgandi siglingu á móti mér með íslenska fánann súper hress. Mikið var gaman að sjá hann og krampatilfinning og verkur í lærum, hvarf eins og dögg fyrir sólu (eða kannski bara gleymdist). Hann var að taka upp á FB live og það gaf þvílíkt orkuboost. Við hlupum svo saman niður að brú, þar sem ég hitti Börk líka, sem var frábært. Það var nýjung, núna sem ég man ekki eftir, en maður þarf að hlaupa upp tvær hæðir og fara yfir götuna á stálbrú sem er byggð, þ.e. búin til og svo niður tvær hæðir hinum megin.

https://www.facebook.com/682423704/videos/350132563490526/

Siggi hélt áfram að hlaupa með mér og hvetja og rétti mér íslenska fánann minn sem er á stönginni. Svo þegar ég kom niður í miðbæ þá hitti ég Stefán og Iðunni sem voru með stóra fánann minn og réttu mér hann. Siggi hélt áfram á FB live og hljóp með mér og WOW hvað ég fékk mikla hvatningu frá öllum sem voru á hliðarlínunni. Þetta var algjörlega magnað móment, óháð því hversu langt þú hefur farið þá er alltaf magnað að hlaupa í gegnum bæinn, fá hvatninguna og tala nú ekki um stoltið sem maður er af landinu sínu þegar maður hleypur með íslenska fánann á bakinu.

https://www.facebook.com/682423704/videos/986107578909053/

Tók samt HADDÝJAR HOPPIÐ þegar ég kom í markið þó ég hafi verið að krampa og það var yndislegt að sjá og hitta Íslendingana sem biðu mín þar og yndislega Hafdís vinkona hljóp út í búð eða á næsta veitingastað að redda mér Fanta eða Orangeina gosi, sem var alveg meiriháttar gott 🙂

Heildartíminn var 11 klst 1 mín og 22 sek, 15 sæti í aldursflokki V2F af 41 konu sem klára.
Var 876 overall af 1359 þátttakendum sem kláruðu, númer 151 af konunum 266 sem klára.
Ótrúlega ánægð að ná að vinna mig upp um 347 sæti þegar tilfinningin var sú að allir væru að fara fram úr mér 🙂

ÞAKKIR
Takk elsku vinir Iðunn og Stefán fyrir frábæra ferðalagið okkar um Ávaxtadalinn og góðar stundir í Chamonix. Takk kæru íbúðarfélagar, Guðmundur Smári, Siggi Kiernan, Börkur og Biggi fyrir góða sambúð og skemmtilegar stundir í Chamonix. Takk elsku Hafdís vinkona og Pési fyrir yndislegan tíma í Chamonix og takk allir í #TEAMICELAND fyrir góða hvatningu og skemmtilegar samverustundir.

You may also like

Leave a Comment