Ákvað í sumar þegar einn félagi minn í Hlaupahóp Breiðabliks bauð miða sinn í 1/2 maraþon í RM til sölu að stökkva á hann og slá til. Vissi ekkert um mun á keppnismiða eða almennum, en minn miði var almennur ekki keppnis. Var smá stressuð fyrir hlaupið, þar sem ég hef lítið sem ekkert hlaupið á malbiki í sumar, og lítið æft, aðallega bara keppt og gengið á fjöll.
Eftir pepp frá Coach Bigga, þá ákvað ég að skipta ekki í 10 km hlaup og halda mínu striki, sá samt eftir að hafa ekki skipt miðanum í keppnis, þar sem allir vinir mínir, bæði í Breiðablik sem og Náttúruhlaupum voru þar.
Ákvað að hlaupa þetta skynsamlega, ekki of hratt, þar sem ég er að fara í bæði hlaupa og hjólaferð í Dólómítana á þriðjudaginn. Byrjaði því mjög aftarlega, svo ég var fyrstu 5 km að taka stöðugt fram úr fólki og það var oft mjög erfitt, þar sem fjöldinn er auðvitað gífurlegur. En ég var með gott næringar og drykkjarplan og var mjög ánægð með að vera með Salomon drykkjarbrúsann, sem er þægilegt að halda á í hendinni. Lét fylla á hann á öllum drykkjarstöðvum nema fyrstu, þar þurfti ég þess ekki. Tók svo inn Biotech Gel á 1 klst fresti og hálfan pakka af Enervit gúmmí á 30 mín fresti á móti. Tók svo Enervit Carbon töflur, eftir þörfum. Það var mikið rok á Sæbrautinni og þegar ég var komin að snúningspunktinum, sá ég Þóru Bríet og pabba hennar fyrir framan mig, svo ég stökk á þau og hvatti þau áfram og fór fram úr þeim, en þau voru að fara heilt maraþon saman. Svo kallaði Þóra á mig og spurði hvort ég væri með auka gel, svo ég snéri við og gaf henni tvö BioTech gel sem ég var með auka og tvo pakka af Enervit hlaupi. Svo hljóp ég áfram og fattaði að ég væri með auka CrampFix, svo ég ákvað að snúa við aftur og bjóða henni það, sem hún sagðist ekki þurfa. Alltaf gott og gefandi að geta aðstoðað aðra á hlaupum.
Það var góður meðvindur á Sæbrautinni til baka, svo ég gat aðeins gefið í þar sem er alltaf góð tilfinning, en ég ákvað samt að passa mig og vera skynsöm þar sem ég er ennþá „teipuð“ vegna tognunar í rassi sem ég varð fyrir í maí og komst þá ekki í Köben maraþonið. Ekki þess virði að hætta einhverju, þar sem það er líka stutt í stóru Dólómítaferðina.
Var því mjög sátt þegar ég kom í mark á tímanum 02.07.52.
Við fórum svo í bæinn seinnipartinn með Eddu og Eið vinum okkar og kíktum að skoða málverk til Þórunnar á Grenimel og á sýningu Tolla í Hafnartorgi. Borðuðum í Mathöll Pósthús og kíktum á Ölstofu Kormáks og Skjaldar og svo um allan bæ á tónleika og uppákomur sem enduðu með flugeldasýningu í bænum.
