Puglia by UTMB 100 km flokkur – 85 km utanvegahlaup

by Halldóra

Skráði mig í Puglia UTMB hlaupið fyrir mjög löngu síðan þegar Siggi Kiernan var að hvetja allan vinahópinn í að skrá sig. Að sjálfsögðu lét ég mig ekki vanta, þar sem ég var svekkt að missa af Julian Alps hlaupinu í Slóveníu á síðasta ári, missti líka af Ö til Ö hlaupinu og Vasaloppet hlaupinu sem ég ætlaði að hlaupa með vinum mínum. Ástæðan var jú axlabrot sem gerðist þegar ég var að bera sófa í vinnunni, tveim vikum fyrir Laugavegshlaupið, sem ég svo að sjálfsögðu missti líka af. Eftir axlabrotið fékk ég svo „frosna öxl“ sem varð til þess að ég varð að fresta IM Copenhagen 2025 til 2026. Einnig tognaði ég á rassvöðva á æfingu í maí, rétt fyrir Kaupmannahafnarmaraþonið, svo náði ekki heldur að hlaupa Kaupmannahafnarmaraþonið. Það má því með réttu segja að síðasta 1 1/2 árið, hafi markast af vandamálum, sem ég var dugleg að vinna með og leysa, þ.e. bæði frosna öxlin og tognun í rassvöðva. Lagði bara meiri áherslu á styrk, þar sem ég fékk æfingar frá Coach Bigga og svo var ég vikulega hjá Halldóri sjúkraþjálfara og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. En aftur að Puglia by UTMB.

Íslenski vinahópurinn sem var skráður í Puglia var mjög stór, 12 Íslendingar skráðir í 85 km vegalengdina sem flokkast sem 100 k, þ.e. gefur 3 steina og ein vinkona skráð í 35 km. Elite hlauparinn okkar hún Elísa skipti svo um vegalengd, þ.e. úr 85 í 35, þar sem hún var meidd. Við vorum því 11, Siggi, Heiða, Hildur, Þóra, Stefán, Gunni, Tommi, Hafdís, Haukur, Davíð og ég sem fórum í 85 km hlaupið og Elísa og Bára í 35 km hlaupið. Svo kannaðist ég við einn sem var í 50 km vegalengdinni, en sú keppni var á sunnudeginum, en okkar á laugardeginum 8. nóvember.

Tímamörkin fyrir 85 km hlaupið voru mjög krefjandi, eða 14 klst og ég var því alls ekki bjarsýn á að klára innan tímamarka. Ég vissi allan daginn að ég gæti klárað hlaupið ef ég fengi minn tíma, en m.v. þessi tímamörk, þá leit þetta ekki vel út. Ég ákvað samt bara að leggja af stað, fara eins langt og ég kæmist, og reyna að fá að halda áfram og klára ef ég yrði stoppuð, þar sem mig langaði í medalíuna, var alveg sama um þessa þrjá steina sem hlaupið gefur. Ég var ekki búin að æfa vel fyrir þetta hlaup. Bæði var búið að vera mikið að gera hjá mér og svo þessi meiðsl sem höfðu verið að hrjá mig, svo er ég ekki hraður, hlaupari, en ég veit ég hef gott og mikið endurance.

Hlaupið er ræst í bænum Laterza. Stefán Bragi var búin að fara þangað í skoðunarferð og hlaupa fyrstu km út úr bænum og gat gefið okkur leiðsögn. Við fórum á tveim bílum sem við skildum þar eftir, og svo skutlaði Eiður hennar Hildar, henni til Laterza og svo stelpunum til Ginosa þar sem 35 km hlaupið var ræst. Áður en ég held lengra með mína keppnissögu, verð ég að segja að stelpurnar náðu frábærum árangri, Elísa Kristinsdóttir, varð fyrsta konan og hlaupari númer 3 í 35 km keppninni og Bára náði líka frábærum árangri. Ég er svo stolt af Elísu og óska henni og Báru innilega til hamingju með hlaupið þeirra.

Í bænum hittum við Hafdísi og Hauk og Davíð Vikars og Magneu og Bryndísi, en þau gistu ekki með okkur í Trulli húsunum okkar. Ég náði að kíkja aðeins inní kirkjuna áður en ég lagði af stað og biðja um Guðs blessun fyrir hlaupið. Þar voru margir í sömu erindagjörðum.

Hlaupið var svo ræst klukkan 08:00, 625 hlauparar sem voru skráðir, en það mættu einungis 505 á ráslínu. Ég fór mjög hratt af stað, enda Stefán búin að vara okkur við mikilli örtröð sem var á leiðinni og þröngt að hlaupa út úr bænum, og það var alveg rétt, ég lenti tvisvar í öngþveiti að komast áfram. Það hafði rignt um nóttina svo það var mikil bleyta, og drulla og því mjög sleipt að hlaupa í gegnum skóginn. Margir sem duttu þarna á leiðinni og ég sá einn sem hafði slasað sig verulega, var kominn með umbúðir utan um höfðuð og augað, svo ég hugsaði að það er eins gott að fara varlega. Sólin fór fljótlega að skína og það varð strax að mínu mati mjög heitt. Við höfðum farið í skoðunarferð, hluta af leiðinni á fimmtudaginn, þá var ekki heiðskýrt og ekki svona mikil blaut drulla í brautinni.


Giacoia klukkan 09:53 = 14,5 km búnir

Ég þekkti þessa fyrstu drykkjarstöð, enda höfðum við keyrt upp að henni og farið upp þennan bratta kafla að næstu drykkjarstöð í skoðunarferð á fimmtudaginn síðasta. Þegar ég kom að drykkjarstöðinni, fyllti ég bara á báða vatnsbrúsana af vatni og bætti salttöflum út í og hélt af stað upp brekkuna. Ég var eins og alltaf mjög hæg upp brekkuna, stoppaði reglulega og hleypti hópi af hlaupurum, fram hjá mér á leiðinni upp, þar sem ég vissi að ég væri hægari en þau öll. Enda kom það svo í ljós að ég hafði misst 72 hlaupara fram úr mér á leið upp þessa fyrstu brekku. Samt var ég nú fegin að hafa tekið þessar Esjur með Ástu Laufey og Þóru síðustu vikurnar fyrir hlaupið.

Il Casone klukkan 11:01 = 20,2 km búnir
Ég hélt ég hefði sloppið í gegnum þessi fyrstu tímamörk á þessar stöð, en ég sé það núna að ég var 1 mínútu yfir þau, þ.e. tímamörkin voru 11:00, en ég var samt ekkert stoppuð svo ég hélt bara áfram. Aftur fékk ég mér bara vatn á annan brúsann og orkudrykk á hinn og hélt svo áfram.

Við tóku niðurhlaup niður í bæinn Castellaneta, hlaup sem Þóra, Heiða, Bára og Elísa höfðu hlaupið á fimmtudag, þegar ég hafði farið til baka. Mér tókst að fara aðeins út af leið, með því að elta fjóra hlaupara sem allir fóru vitlaust, en svo fattaði ég þegar úrið mitt, fór að pípa að ég var ekki „ON TRACK“ svo ég snéri við og hlaupararnir hinir líka. Svo kom mjög krefjandi kafli á hvítum grófum steinum, sem voru mjög illhlaupanlegir svo þarf tók ég bara kraftgöngu. Þar kom til mín maður, sem var að hrósa mér hvað ég væri stórstíg, og gæti gengið hratt. Hann sá að ég var frá Íslandi, svo hann sagði mér að hann hefði verið að hlaupa í 100 mílna hlaupi í Istria hlaupi, með tveim íslenskum stelpum. Ég sagði honum að ég þekkti þær, sem voru auðvitað Anna Sigga og Kristianna, ég tók mynd af honum og sendi svo á stelpurnar, svo þetta var alveg rétt. Ég var orðin stressuð og búin að sjá að ég væri ekki að ná innan tímamarka í Castellaneta, svo ég bara var orðin sátt að þurfa bara að DNF-a eftir 29 km.

Castellaneta klukkan 12:20 = 28,6 km búnir
En þegar ég kem inn á stöðina, þá var ég ekki stoppuð og ekki aðrir hlauparar heldur. Ég þorði ekki að spyrja neitt, en ég spurði einn hlaupara sem fór með mér út af stöðinni, af hverju við hefðum ekki verið stoppuð, þá sagði hann mér að þeir hefðu lengt tímamörkin um 20 mínútur vegna krefjandi aðstæðna. En þarna voru upphaflega tímamörkin 12:15, og ég því 5 mín yfir, en m.v. þessar upplýsingar þá var ég 15 mín undir tímamörk á þessum stað. Svo ég hélt bara áfram. Framundan var mikið hlaup á giljarbrúnum, og mikil drulla og sleipir steinar, svo maður varð að fara mjög varlega. Ég var strax farin að sjá eftir að hafa skilið eftir hlaupastafina mína, en það þýðir ekki að gráta Björn bónda, maður verður bara að safna liði (í hausnum á sér) og halda áfram. En á þessari leið fór maður alla vega einu sinni ef ekki tvisvar upp og niður gil, sem var alveg krefjandi.

Ristoro Palagianello klukkan 14:07 = 38,3 km
Kom inná þessa drykkjarstöð klukkan 14:07, ennþá innan 20 mín tímatakmarkanna. Upphaflegu tímamörkin áttu að vera 13:50 og með lengingu þá 14:10, svo ég var alveg innan marka þar. Þarna fannst mér kominn tími til að fá mér kók að drekka, svo ég fékk mér kók í glas, en borðaði ekkert annað hvorki á þessari drykkjarstöð né öðrum, þar sem ég var bara að hlaupa. Eftir drykkjarstöðina, vorum við send eftir beinum vegi, allt aðra leið, en trackið hafði sagt mér. Ég auðvitað bara hlýddi, en það var alveg óþægilegt að vera svona off track lengi. Þegar maður er alveg að hlaupa inní bæinn, þá er maður sendur, niður MJÖG KREFJANDI gil og upp það aftur, og svo aftur niður í gilið og upp tröppur aftur, alveg ótrúlega krefjandi og erfið leið. Þar hitti ég annan mann, frá Kanada, sem sagði mér að hann hefði verð að hlaupa með íslenskum hópi sem var að hlaupa TMB hringinn í ágúst í fyrra, og ég sagðist örugglega þekkja þær líka. Þær Önnu Siggu og Ragnheiði og það stemmdi alveg, tók líka mynd af honum og senda á stelpurnar og jú það stemmdi. Eftir þessi tvö hræðilegu gil, kemur maður inní bæ og heldur að maður sé að koma að drykkjarstöð, en nei maður hleypur í gegnum allan bæinn og fer svo aftur ofan í enn eitt gilið og upp hinum megin. Þegar ég er að hlaupa út úr bænum, þá hringir Þóra Bríet í mig og þá er hún komin í 50 km stöðina og var að spyrja hvernig mér gengi. Hún var komin með krampa, svo hún fékk lánað hjá mér crampfix úr droppokanum mínum, enda var ég með alveg nóg. Ég ákvað því að reyna að gefa áfram í, því ég var ennþá með þessar 20 mín viðmið, vissi ekki þá að það væri búið að lengja tímamörkin um 1 klst samtals, svo ég bara hélt og áfram og reyndi að gefa í. Ég rétt næ inn á 50 km dropbag drykkjarstöðina innan þessara 20 mín, þ.e. klukkan 16:18, tímamörkin voru þar 16:00 + 20 mín = 16:20. En þegar ég er komin inn og búin að sækja drop pokann minn, fá mér epli og Egils appelsín, þá hitti ég Stefán Braga og ég var líka búin að fá þær upplýsingar að búið væri að bæta 1 klst við tímamörkin, þau væru þá 15 klst en ekki 14 klst samtals í markið.

Ristoro Grotte di Sileno klukkan 16:18 = 50,3 km
Stefán fór svo á undan mér og ég þurfti að fara á klósettið og sækja mér gelin og bæta á mig í vestið og svo hélt ég bara áfram. Var farin að „powerwalka“ eða hraðganga meira en hlaupa, enda jafnfljót að því. Eftir nokkra kílómetra, var farið að dimma, svo ég sótti höfuðljósið mitt og var með það upp þessa brekku sem var framundan, sem var mesta hækkunin í hlaupinu, en mér fannst hún mun auðveldari, heldur en hinar, þar sem það var ekki sami hitinn. Komið myrkur og því bara mjög þægilegt hitastig að hlaupa í. Ég náði svo Stefáni og hann sagði að við gætum bara verið róleg, þar sem það væri bara létt framundan og búið að bæta þessari klukkustund við, en ég sagði Nei við Stefán, ég held áfram á mínum hraða, það getur allt gerst, og ég ætla ekki að slóra neitt. Hann kom því bara með mér og við hlupum og gengum saman að næsta drykkjarstöð, sem við höfðum einmitt séð í æfingaferðinni okkar á fimmtudaginn.

Relais San Giovanni klukkan 18:22 = 62,1 km
Við komum því saman inn í drykkjarstöðin 62 km klukkan 18:22 og það voru engin tímamörk á þeirri stöð, en við höfðum góðan tíma til að koma að næstu drykkjarstöð, en lengd tímamörk þar voru klukkan 21:00 um 14 km leið. Við hlupum og gengum það saman. Það var ekkert coca cola í boði á þessari drykkjarstöð, svo ég fékk mér smá heitt te í glasið. Fékk svo smá í magann, immodíum, hætt að virka, svo ég brá mér bak við tré og Stefán hélt áfram. Ég náði honum svo og við hlupum og gengum nokkurn veginn saman að síðustu drykkjarstöðinni. Ég var aðeins á undan, en svo kom hann í humátt á eftir mér.

Var komin inn á síðustu drykkjarstöðina klukkan 20:34, þ.e. tímamörkin 21:00, búin með 75,7 km, og þar var maginn komin í smá klessu. Svo ég ældi aðeins og þá leið mér betur og fékk mér Coca Cola sem var sem betur fer nóg til af því.

Nafoura klukkan 20:34 = 75,7 km

Þá var bara síðasti leggurinn eftir, nú gat enginn stoppað okkur og ég sagði við Stefán, mig langar í þessa medalíu, svo mér er alveg sama um cut-off tímann, og að fá þessa steina. Ég mun reyna samt að gera allt sem ég get til að ná í mark á innan við 15 klst, þ.e. fyrir klukkan 23:00. Leiðin áfram kom á óvart, það var alveg hækkun og við fórum off track, þurftum að leita að réttri leið sem svo fannst og við vorum komin á sléttu brautina. Fram undan var svo bara um 5 km á ströndinni sem voru reyndar alveg krefjandi. Þegar það vorum um 2km eftir, þá þurfti ég að skipta um rafhlöðu í höfuðljósinu sem við svo gerðum. Hljóp restina af ströndinni í flæðamálinu, sem var miklu þægilegra, heldur en að hlaupa í þungum sandinum á ströndinni. Við Stefán vorum búin að ákveða að hlaupa saman í mark með íslenska fánann á milli okkar. Svo ég beið aðeins eftir honum við rampinum á ströndinni og svo hlupum við saman í mark með íslenska fánann á milli okkar.

Castellaneta Marina klukkan 22:43 = 14 klst 43 mín og 19 sek. samtals: 88,9 km

Komum saman í mark klukkan 22:43 – eftir 14 klst 43 mín og 19 sek. samtals um 89 km. Vorum mjög glöð og þakklát að koma í mark og ánægð að hafa þó unnið mig upp um 53 sæti eftir Il Cazone úr 468 í 415 sæti eða 53 sæti, eftir að hafa þarna misst 72 fram úr mér upp fyrstu brekkuna. Það var mjög gaman að koma í mark og svo hittum við Þóru og Heiðu og yndislegt að ná að knúsa þær og svo Sigga og Gunna Júl sem komu líka og tóku myndir af okkur í markinu. Takk kæri Stefán fyrir samveruna seinni hlutann í hlaupinu.

Niðurstaðan var því sú að ég fór klárlega fram úr eigin væntingum, úr því að gera ráð fyrir DNF-a og í það að klára þetta hlaup og það bara á ágætis tíma. Langar að þakka samferðarfókinu mínu kærlega fyrir samveruna hér í Puglia og óska þeim innilega til hamingju með árangurinn í hlaupinu. Það er svo gaman þegar allir ná að klára og allir á frábærum tíma. Elísa sigrar sitt hlaup, sem er magnaður árangur og 3 overall í hlaupinu. Hildur náði 8 sæti kvk og 3 sæti í aldursflokki, Hafdís var 29 kona og 3 sæti í aldursflokki, Heiða var í 2 sæti í aldursflokki og allir að ná frábærum tíma og árangri.
INNILEGA TIL HAMINGJU ÖLL KÆRU VINIR OG TAKK FYRIR SAMVERUNA KÆRU VINIR <3

You may also like

Leave a Comment