Hef í mörg ár dreymt um að taka þátt í þessu Viðeyjarsundi, þar sem synt er annað hvort önnur leiðin, eða fram og til baka frá Skarfakletti í Viðey. Viðeyjarsundið er alltaf á föstudeginum fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og Menningarnótt, sem er ástæðan fyrir því að ég hef aldrei farið. Hef ekki viljað eyða orkunni í sundið, kvöldið fyrir hlaup. Markmiðið var alltaf að synda í wet-suit búningi sem ég nota í þríþrautinni.
Draumurinn um Viðeyjarsundið varð að veruleika í kvöld þegar ég ásamt fimm Marglyttum vinkonum mínum, syntum frá Viðey að Skarfakletti. Við fórum í fallegum hvítum náttsloppum út í Viðey með ferjunni og syntum svo í land. Við syntum ekki í wet-suit búningi og ekki með hanska, sokka eða neo-prane sundhettu, heldur bara á sundbolnum og með Speedo sundhettu og sundgleraugu. Hitastig sjávar var 10,5 gráður að sögn vinar míns Benna sjónsundskappa.
Sundið gekk samt mjög vel, við fórum í sjóinn í beinni fréttaútsendingu Stöðvar2 þar sem tekið var viðtal við Sigrúnu Ermasundsdrottningu og þjálfarann okkar.
Hér má sjá viðtalið við Sigrúnu. Sundið gekk mjög vel og ég var rétt rúmar 20 mínútur með þessa rúmu 900 metra sem eru frá Viðey í Skarfaklett. Alltaf gaman þegar draumarnir rætast og maður fer fram úr eigin væntingum.
Nú eru bara 12 dagar í að við eigum fyrsta sundrétt í Ermasundið, eða 4. september. Nú erum við tilbúnar og hlökkum mikið til.