Hitti Helgu Maríu á Laugavegshlaupakynningu Náttúruhlaupa í 66 norður í Faxafeni mánudagskvöldið 15.júní. Ég sagði henni að það væri ágætis spá á Langjökli hvort við ættum ekki að skella okkur aðfararnótt 17. júní, fara svona Þjóðhátíðarskrúðgöngu á jöklinum, enda oftast betra færi og veður að nóttu til og núna bjart allan sólarhringinn. Helga María hafði nefnilega farið í lok aprtil með vinum sínum þessa leið, þ.e. þverað Langjökul frá vestri (frá Oki, Kaldadal, Geitlandsjökli til austurs , þ.e. að Skriðufelli og Kili. Helga María jafnhvatvís og ég var að sjálfsögðu til og úr varð að við fórum að redda okkur skutli upp eftir og til baka og Inga Björg vinkona ákvað að skella sér með okkur.
Við hittumst hjá Helgu Maríu klukkan 22:00 þriðjudagskvöldið 16. júní. Óli skutlaði mér þangað svo stelpurnar gátu sett í bílinn hjá honum, fatnað og slíkt sem þær vildu fá þegar við kæmum niður hinum megin.
Dagurinn hafði verið frekar töff, nóg að gera í vinnunni, hjólaæfing klukkan 6 um morguninn og hlaupaæfing 17:30, hvorugt sem ég gat sleppt 🙂 Ætlaði svo að reyna að leggja mig um kvöldið, en það fór að mestu í að pakka, og smyrja nesti, en náði samt alveg að hvíla lúna fætur í um 1 klst áður en við lögðum í hann.
Það var GUÐDÓMLEGA fallegt veður í Grafarholti þegar við hittumst og við vorum mjög spenntar. Bróðir Helgu skutlaði okkur uppeftir, en við fórum Kaldadal í gegnum Þingvelli. Kom á óvart hversu góður þessi vegur er orðinn og í raun skotfæri upp að Jökli þessa leiðina. Það var ennþá guðdómlegt veður þegar við komum að Jöklinum og(eftir skálann Jaka) klæddum okkur í gönguskóna og fatnaðinn og settum á okkur bakpokann. Bróðir Helgu tók af okkur mynd og kvaddi okkur og við tók ganga uppá Jökulinn. Hér að neðan sést hæðarprófíllinn og það er mesta hækkunin fyrstu 11 km sem taka ákveðinn tíma.
Við settum því strax skinnin undir skíðin og gengum upp á jökulinn. Við urðum að stoppa mjög oft á leiðinni, ekki vegna þess að við værum þreyttar eða uppgefnar, heldur vegna fegurðarinnar. Klukkan var orðinn rétt eftir miðnætti eða klukkan 00:40 og sólin að lækka sig verulega á lofti og litirnir voru guðdómlegir á himnum. Geitlandsjökull svo fallegur og útsýnið algjörlega magnað. Svo það var stoppað reglulega til að taka myndir og njóta augnabliksins.
Við fórum svo í línur þegar við vorum komnar á sprungusvæðið, þó það séu minni sprungur á uppleiðinni, heldur en niður hinum megin. Við höfðum samband við Hebba í Mountainers í gærkvöldi þegar við vorum að taka ákvörðun um að fara til að fá upplýsingar um snjóalög, færð og sprungur. Hann gaf mér súper góð ráð í gærkvöldi og svo heyrði Helga aftur í honum í dag. Frábær hjón þau Hebbi og Ólöf í Mountaineers, en þau eru með snjósleðaferðir bæði vestanmegin í Langjökli sem og austan megin og við Óli fórum 2017 og þveruðum einmitt jökulinn frá vestri til austurs á snjósleða, það þurfi að flytja sleðana yfir. Mæli 100% með sleðaferðunum þeirra.
En til baka í ferðalagið, ég var með mikið af nesti, flatkökur með hangikjöti, gróft brauð með spægipylsu og skonsur með feitum osti. VIð stoppuðum reglulega til að borða og drekka. En ég hafði blandað sjóðandi heitu vatni í Powerade og sett í NALGENE brúsann minn, svo það myndi ekki frjósa, en spáin gerði ráð fyrir 3-4 gráðum í mínus þessa nótt. Spáin gerði heldur ekki ráð fyrir að það yrði heiðskýrt alla nóttina, átti von á fallegum og heiðskírum morgni, en nóttin var öll algjörlega guðdómleg eða „breathtaking“ svo maður sletti. En við vorum komnar uppá hæsta punkt eftir um 2 klst og 20 mín ferð. Þegar við vorum komnar á hæsta punkt um 1.475 þá var útsýnið strax magnað. Horfðum á Kerlingafjöllin í fjarska sem og Bláfellið sem við fórum á fjallaskíði um daginn, Heklan og útsýnið og liturinn á himnum, magnþrungið.
Þá tók við mjög skemmtileg aflíðandi brekka niður, sem maður rann samt ágætlega, fórum reyndar aðeins út af tracki við það, en það gerði ekki til, því færðin var æðisleg og mjög gaman að geta látið sig renna eftir allt puðið upp brekkuna. Síðan tók við mjög langur sléttur kafli og undirlagið var mismunandi, gróft og slétt til skiptis en samt fín færð, ekki snjóbráð, ekki klaki og bara smá nýr snjór yfir öllu. Við hlustuðum á fallega tónlist, þar sem ég tók að sjálfsögðu JBL ferðahátalarann minn með mér og nutum næturinnar.
Það sem var svo skrítið var að ég var aldrei syfjuð, enda kom aldrei myrkur og fegurðin var svo mikil og við svo þakklátar fyrir að fá að vera þarna þrjár konur á Þjóðhátíðardegi um miðja nótt aleinar á jöklinum, magnþrungið. Ég bað Helgu reglulega að klípa mig í höndina, svo ég vissi að þetta væri raunveruleikinn en ekki draumur.
Endalausi kaflinn er samt svo fallegur og Helga var dugleg að minna okkur að horfa líka til baka á það sem við vorum búnar að skíða og horfa á falleg útsýnið sem var líka fyrir aftan okkur. Við stoppuðum á um 30 mín fresti til að drekka og borða og svo kom sólin upp. Aftur svo magnþrungið að horfa á það og reyna að taka myndir af svona mómentum, sem munu aldrei nást á mynd. Um leið og sólin var komin upp, varð mjög heitt og við fórum að fækka fötum. Ég hafði að sjálfsögðu tekið allt of mikið af fötum með mér, var með auka buxur, peysu, tvær húfur (auka), tvenna vettlinga (auka), auka sokka, primaloft úlpu, álpoka, neyðarskýli 2-3ja manna og svo allan matinn og drykki. Tók fullan Nalgene brúsa 800 ml og heitt kaffi í annan brúsa og svo með auka hálfan líter af Powerade. Svo vorum við auðvitað með belti og línur og auka línur og ísfestingar og að sjálfsögðu First-Aid kit. Auk allrar samlokanna, var ég að sjálfsögðu með fullt af súkkulaði og GU gelum og kubbum 🙂
Það fór að hlýna verulega og eins og ég sagði þá urðum við að fækka fötum, þá er gott að vera með öll þessi lög, en ég fór í allt of hlýjum Primaloft buxum yfir ullarbuxurnar og var í ullarbol, peysu og svo jakka og primaloft vesti ha ha ha 🙂 Ekki skrítið að manni varð heitt. En ég endaði á að fara úr primaloft buxunum og fara í vindbuxur yfir ullina og skíðaði síðustu 14 km á ullarhlírabol, sem er algjörlega magnað. Enda var blankalogn uppá jöklinum, sólin skein og færið var frábært.
Við fórum aftur í línu þegar við nálguðumst sprungusvæðið austan megin í jöklinum. Gleymdi að segja að miðið okkar, þ.e. stefnan var alltaf tekin á Kerlingafjöllin og hvað þau voru falleg. Við rétt sáum glitta í toppinn á Bláfelli, þar sem við vorum komin upp fyrir alla toppa, en sáum yfir á Hofsjökul og alla fjallasýnina. Gaman að hafa frábæra leiðsögumanninn og vinkonu mína Helgu Maríu með sem gat upplýst okkur um öll fjöllin og jöklana. Það sem var líka gaman var að sjá þessi fjöll sem ég er búin að vera að ganga á – á fjallaskíðum uppá síðkastið, þ.e. bæði Heklan og Bláfellið og mig langar mikið í Kerlingarfjöllin. Mæli 200% með Helgu Maríu sem leiðsögumanni, hún er snillingur og líka svo skemmtileg. Inga hafði líka farið í sprungubjörgun svo það var búið að setja á okkur ákveðin hlutverk ef Helga myndi falla niður, þar sem hún leiddi hópinn.
En eftir sprungusvæðið, losuðum við aftur línurnar og skíðuðum niður síðustu brekkuna. Hún var krefjandi en það kom mér á óvart hversu vel mér tókst að skíða (reyndar í plógi) niður brekkuna (ekki telemark). Það var aðeins kalt á höndunum að fara svona hratt niður, en hlýnaði strax þegar ég stoppaði og þurfti að fara að ganga aftur. Þegar við vorum komin að Jarlhettunum (guðdómleg sýn), þá tók við síðasta brekkan upp að skála Mountaineers í Skálpanesi sem er við brún Langjökuls austur af Jarlhettum. Óli gat ekki keyrt alla leið upp að skálanum svo við skíðuðum meðfram veginum niður að bílnum, þar sem við hittum Óla sem tók á móti okkur með heitu kaffi og möndlukökum.
Við skíðuðum samtals 43 km, með m 700 metra hækkun. Vorum 9 klst 32 mín á leiðinni, eða 6 klst og 22 mín sem moving tíma skv. Strava. Manni finnst ótrúlegt að stoppin hafi verið um 3 klst, en það tekur tíma að setja upp línur og taka niður, fá sér nesti og klæða sig í og úr fatnaði og taka úr og setja í bakpokann.
En það voru GLAÐAR, ÞAKKLÁTAR, FORRÉTTINDAKONUR, sem voru svo þakklátar fyrir að hafa getið látið þennan draum rætast að þvera Langjökul á einni nóttu og þessari stórkostlegu nóttu, þar sem samspil veðurs, fæðrar og frábærs félagsskapars gerðu þessa ferð algjörlega ógleymanlega.
Takk elsku Helga María fyrir að vera tilbúin að hoppa með mér og takk elsku Inga Björg að hafa drifið þig með okkur. Við vorum allar með þreytu í skrokknum, eftir ýmis ævintýri, skútuhlaupaferðir eða klifur á fjöll, en allar svo glaðar og þakklátar og enginn kvartaði undan þreytu, heldur var sælubros á okkur öllum eftir þessa mögnuðu lífsreynslu.
SMÁ TÖLFRÆÐI:
*Lögðum af stað klukkan 00:40 – 17. júní 2020
*Gengum 43,17 km
*Moving time: 6:22:02
*Heildartími 9:32:32
* Hækkun 670 metrar
* Hitastig 0°C – feels like -1°C
1 comment
Geggjað.
Takk fyrir flottan póst.
Er að gæla við þetta.