Við sigldum með Sjóferðum Hafsteins og Kiddýjar og Hafsteinn var skiptstjórinn í ferðinni, ásamt Stíg. Við sigldum frá Ísafirði klukkan 09:00. Um borð voru nokkrir farþegar ásamt tveim Kayökum.
Við fengum 3 klst útsýnistúr, þar sem við sigldum alla Jökulfirðina. Fyrsta stopp var í Grunnavík, annað stopp í botni á Hrafnsfirði, þriðja stopp við Drápsvík og svo átti að fara á Hesteyri, en þá kom neyðarkall frá Landhelgisgæslunni um vélavana bát, þar sem sækja þurfti farþega. Svo snúið var við áleiðis til Bolungarvíkur og farþegar teknir um borð. Eftir það var hægt að sigla til Hesteyrar og við komum þangað um klukkan 12:00.
Veðrið var einstaklega gott, sól og blíða og blankalogn og hiti. Við byrjuðum á að fá okkur kaffi og skoða Læknishúsið á Hesteyri (þekkt úr bókinni Ég man þig, eftir Yrsu) og fylltum á vatnsbrúsa. Lögðum svo af stað um klukkan 13.00 frá Læknishúsinu.
Það var mikill snjór á leiðinni en mjög fámennt af fólki. Vorum yfirleitt bara tvö á allri leiðinni. Við stoppuðum reglulega til að taka af okkur bakpokana, en við vorum með um 15 og 20 kg bakpoka á bakinu, þ.e. almennilegt tjald, dýnur, svefnpoka, auka fatnað, mat og drykki.
Ganga frá Hesteyri til Hlöðuvíkur var um 15 km löng, 560 metra hækkun, og heildargöngutími 6 klst og 40 mín. Þessi fyrsti dagur var alveg krefjandi, enda þarf að venjast því að ganga með svona þungan bakpoka, en leiðin var virkilega falleg.
Tjölduðum svo í Hlöðuvík og kvöldið var gjörsamlega guðdómlegt að horfa á sólina setjast á sjóinn, var algjörlega magnað.