Við áttum að fljúga til Nuuk Grænlandi á miðvikudagskvöldinu 23. apríl klukkan 23:00. Hins vegar var fluginu aflýst seinni partinn. Skýringin sem við fengum til að byrja með var mikil þoka í Nuuk.
Það er ótrúlegt hvað maður er fljótur að aðlagast breyttum plönum og strax á miðvikudagskvöldinu og fimmtudagsmorgninum var ég orðin alveg sátt við að fara ekki neitt og fá bara flugmiðann endurgreiddan. Var farin að hugsa hvað ég ætlaði að gera og var líka smá fegin, af því ég hafði tognað í rassi á Yazzo æfingunni í gær miðvikudagsmorgun.
En rétt um klukkan 10 komu fréttirnar, flugið var ON klukkan 15:30 áttum að lenda í Nuuk klukkan 17:20.
Þá er bara að klára að pakka, henda skíðunum til Einars og aðstoða hann við að læsa byssutöskunum og svo skutlaði Óli hennar Hrefnu okkur út á flugvöll.
Þá fyrst byrjaði ballið. Að reyna að tékka inn og fá að borga fyrir byssurnar sex.. Við vorum með tölvupóst sem sagði að við mættum nota aukatösku á gullkorni fyrir eina byssuna, en starfsfólkið vildi ekki viðurkenna það. Hringdu í þjónustuveri sem er staðsett erlendis og var erfitt að fá þetta í gegn. Loksins þegar þetta var samþykkt eftir um 1 klst töf, þá byrjaði vesenið að reyna að borga 5 byssutöskur í stað 6. Þá kom „computer slys no“. Svo við enduðum í að bíða í um 90 mín við tékkað til að reyna að koma þessu í gegn. Þegar það loksins tókst þá þurftum við að fara með þær í „odd-size“ þar sem þurfti að opna hverju einustu byssutösku og tékka hvort það væri rétt serial númer m.v. skráningarblað sem við vorum búin að fylla út og heimild Einars til að fara með þessar byssur erlendis. Þá þurfti að taka aftur af öll strikamerkin til að opna töskurnar og setja þau svo á aftur. Sem betur fer komum við með rúmlega 2klst fyrirvara, en þegar við vorum búnar þá höfðum við mjög stuttan tíma til að henda í okkur smá mat áður en við fórum út í Gate. Náði ekki einu sinni að veisla í fríhöfninni, benelyn í apótekinu eins og ég ætlaði mér, þar sem ég er búin að vera hás í 4 vikur.
En alla vega það var mikið spennufall að setjast út í vél vitandi að allur farangurinn hafði verið tékkaður inn. Ég var samt með gönguskíðaskóna mína og keppnisfötin í handfarangri, til að vera örugg, ef t.d. ferðataskan mín yrði eftir, þá er langt í næsta flug.
En allur farangurinn skilaði sér og þegar við vorum komin út af flugstöðinni, sáum við stóran og glæsilegan pallbíl (pick-up) sem við fengum til að skutla okkur í íbúðirnar okkur sem voru mjög nálægt flugvellinum. Ökumaðurinn heitir Simon, og er frá Póllandi og varð eiginlega einkadriverinn okkar í ferðinni. Við engum símanúmer hjá honum og bókuðum alltaf næsta pick-up.
Eftir að hafa komið okkur fyrir tókum við strætó í bæinn, þar sem „Rasselía“ sem var viðurnefnið sem ég fékk, þar sem ég gat haltraði út af tognuninni í rassinum, gat ekki gengið í bæinn. Við fundum súpermarkað þar sem við fórum úr strætó og keyptum okkur morgunmat og kaffi og fengum að skilja pokana eftir, ætluðum að sækja á heimleiðinni. Fórum svo á veitingastað niður við höfnina, sem vinkona Nönnu hafði sagt henni frá og heitir Einhyrningurinn eða Uniqorn og var mjög góður staður. VIð létum Hrút vita að við værum þar og hann borðaði með okkur og Hafnfirðingarnir komu þangað líka.
Eftir matinn fékk Einar hann Hrút til að skutla mér heim og þau hin ætluðu að ganga heim eða taka strætó, við vorum búin að kaupa okkur strætókort. En úr varð að Hrútur skutlaði okkur öllum og fór fyrst með okkur í skoðunarferð um bæinn. Það var mjög sniðugt því þá sýndi okkur t.d. hvar við byrjum/förum uppá skíðasvæðið þar sem Biathlon keppnin fer fram. Hann sýndi okkur líka höfnina, þar sem var stórglæsileg snekkja. Einnig sýndi hann okkur skíðaskála/félagsheimili skíðaklúbbsins í Nuuk.
Svo skutlaði hann okkur heim og það voru þreyttir en glaðir ferðalangar sem lögðu á koddann þetta kvöld, spenntir að fara á skíðin á morgun, „Rasselía“ líka 😉