Gönguleiðin að Grænahrygg er ein vinsælasta gönguleið síðustu ára og erum við Óli búin að vera lengi á leiðinni að skoða þennan fallega hrygg sem Grænihryggur er. Við gengum leiðina frá Halldórsdal og við þurftum ekki að vaða neinar ár á leiðinni. Hins vegar þegar við komum að hryggnum, þá varð ég að vaða yfir ána, til að ná að snerta hann og sjá, og upplifa þennan fallega hrygg. Einnig komst ég að leyndarmálinu á bak við mismunandi græna leiti á hryggnum og ástæðuna fyrir því að hann er dökkgrænn undir og ljósgrænn að ofan. Steinarnir sem liggja undir eru blautir og þess vegna eru þeir dökkgrænir að lit, en steinninn sem er ofan á er þurr og þar af leiðandi ljósgrænn, en ástæðan fyrir græna litnum, er að finna á vísindavef HÍ, sjá hér að neðan:
Af hverju er Grænihryggur grænn á litinn? Bergið í Grænagili og Grænahrygg er gler-túff og græni liturinn stafar af dálitlu tvígildu járni í glerinu. (Vísindavefurinn: Af hverju er Grænihryggur grænn á litinn?)
