PLANIÐ: 42 km, hækkun +446 m, lækkun -522 m
RAUN: 61 km og 767 m hækkun.
Það var ræsing klukkan 08 og brottför klukkan 10. Ég svaf mjög vel í skálmum á Þeistareykjum, en ég svaf inni, þar sem það var nóg pláss og margir sem vildu frekar sofa úti í tjaldi. Það var ótrúlegur hávaði af virkjuninni, svo manni leið eins og maður væri staddur á flugvelli þegar maður fór út á klósettið eða kíkti út í tjöldin. Eins gott að vera með eyrnatappa ef maður ætlar að sofa í tjaldi við Þeistareyki.
Það var líka frekar kalt í morgunog mikill raki, þannig að tjöldin voru enn og aftur mjög blaut.
Ég fékk mér hafragraut (snilldargraut frá Costco, þar sem hver skammtur er sérpakkaður inn), með muslí, eplum og bláberjum og kaffi á fastandi maga, sem er nauðsynlegt eins og í hlaupunum til að reyna að klára númer 2 fyrir brottför 🙂
Við lögðum svo í hann klukkan rétt rúmlega 10. Við byrjuðum á þó nokkurri hækkun, og ég náði því miður ekki að hjóla upp alla brekkuna, en í gær hafði ég náð að hjóla upp allar brekkur, svo ég var frekar svekkt með það. Uppgötvaði síðar að ég var ekki á litla tannhjólinu að framan, svo það var góð ástæða fyrir því hversu erfitt þetta var 🙂 Svona er að vera ekki vaknaður ha ha ha.
Við hjóluðum að Litla Víti og gengum svo saman að Stóra Víti. En Stóra–Víti er gríðarstór sprengigígur um 300 m í þvermál. Gígurinn myndaðist við mikla gossprengingu við upphaf Mývatnselda árið 1724. Leifur leiðsögumaður er mjög duglegur að leiðsegja og deila með okkur fróðleik um náttúruna. Því miður var samt mikil þoka, svo við sáum ekki almennilega niður í gígana.
Stígurinn framan af var mjög góður, en svo tók við mjög erfiður og grýttur stígur eiginlega . Síðan hjóluðum við yfir hraun, sem myndaðist í Kröflu gosi árið 1984. Jónsi storkaði aðeins örlögunum með því að segja að það kæmi nú á óvart ef við kæmumst öll í gegnum þennan grýtt kafla án þess að það myndi springa, þá lenti Bryndís hans Jónsa því miður í því að sprengja hjá sér, en það var bara mjög hraður skiptitími eins og í F1 og ný slanga komin undir hjólið.
Við að sjálfsögðu fundum skjólsælan stað til að fá okkur nesti og svo aftur kaffi, en framan af var kalt, (samt alls ekki svo kalt þegar maður hjólar) frekar hitt, en góða við norðanáttina á þessari leið er að hún er í bakið. Svo fór sólin að skína og það er ekki hægt að kvarta yfir því 🙂
Eftir hraun kaflann, tók við nokkuð mjúkur moldarstígur en mjög ójafn og á þeim kafla urðu fjórar byltur, en sem betur fer enginn sem slasaðist alvarlega.
Við stoppuðum svo á veitingastað á Mývatni þar sem menn fengu sér að borða og bjór eða kaffi. Fékk mér flatkökur með hangikjöti og kaffi. Hjóluðum svo á Hótel Laxá þar sem við gistum, en það voru 18 km á malbikinu.
Hjóluðum því samtals 61,5 km með 867 metra hækkun.
Eftir að hafa skilað okkur á hótelið, þá skelltum við okkur í Jarðböðin á Mývatni og kíktum svo í Lopapeysubúðina Dyngjuna, þar sem við styrktum heimamenn.
Borðuðum svo þríréttaðan kvöldmat á Hótel Laxá, og svo vorum við bara komin inná herbergi klukkan 22:30.
Frábær dagur að kveldi kominn.