Tók þátt í Þorvaldsdalsskokkinu 2021, ásamt verðandi Landvættum í Landvættaprógrammi Náttúrhlaupa.
Við tjölduðum í gærkvöldi hjá foreldrum Sigga inní Eyjafirði, fengum okkur fyrst kvöldmat, þ.e. Pizzu á Pizzunni á Akureyri, áður en við ókum inní fjörð.
Veðrið var stórkostlegt og það var bara erfitt að fara að sofa á þessu fallega sumarkvöldi á Akureyri.
Vöknuðum um klukkan 07:00 til að græja okkur, fórum svo í morgunmat, hafragraut hjá Sigga 08:30 og lögðum í hann um 09:30 þar sem við þurftum að keyra að grunnskólanum við Árskógsströnd. En það var mæting þangað klukkan 10:45. Rútan fór þaðan til xxx, en við Sigga fórum bara með Óla í bílnum og vorum komin á undan rútunni.
Ég var með mikinn valkvíða hvort ég ætti að vear með eða án stafa en rétt fyrir ræsingu henti ég mér út í bíl og sótti stafina og ég sá svo sem ekki eftir því.
Hlaupið var ræst klukkan 12:00. Fyrstu 7 km eru nánast upp. Ég gerði sömu mistök og margir aðrir á leið upp brekkuna að elta kindastíginn niður í átt að ánni en svo lá hann aftur til baka, svo það vorum um 20-30 manns sem ég horfði á fara fram úr mér út af þessu 😉 Eftir smá stund náði ég Erlu Sigurlaugu hjóladrottningu en hún hafði verið í þessum hópi sem flaug fram hjá mér. Við hlupum svo saman mest alla leiðina.
Leiðin var mjög blaut, illa merkt og eitt skipti flaug ég á hausinn og magalenti, en meiddi mig ekkert þar sem þetta var í blautri mýri, en fékk samt smá hnikk á kálfann, sem varð til þess að ég var frekar tæp á krömpum þar, það sem eftir lifði ferðar. Datt í annað skipti og náði þá flottum snúningi svo ég meiddi mig ekki heldur. Í bæði skiptin sem ég datt var ég nýbúin að taka fram úr Erlu. Þegar ég fór svo fram úr henni í 3 skipti, þá sagði ég að ég ætlaði nú ekki að detta aftur, þó máltakið segi að allt er þegar þrennt er 🙂
Hún sagði mér að drífa mig bara, þar sem hún var eitthvað orkulaus, þá voru kannski 6-7 km eftir. Síðasti kaflinn var malarvegur og að mestu niður í móti, og var aðal markmiðið mitt þar að ná að klára án þess að fá krampa í lokin. Tók fram úr mörgum þátttakendum sem voru að hlaupa styttri vegalengdina. Svo þegar um 700 metrar voru eftir, kom ung stúlka með rautt númer, þ.e. í sömu vegalengd og ég og tók fram úr mér. Undir öllum kringumstæðum hefði ég reynt að halda mínu sæti, en þar sem ég var að berjast við krampana, hvatti ég hana bara áfram og hljóp sem betur fer án þess að fá krampa í mark. Ákvað líka að taka EKKI „Haddýjar hoppið“ þegar ég komi í mark, þar sem þá hefði ég pottþétt fengið krampa ha ha ha .
Er stoltust af öllum Náttúruhlaupa Landvættunum sem kláruðu hlaupið og sérstaklega honum Atla sem datt eftir um 8 km leið og hljóp restina með höndina í fatla, sem hann bjó til úr hlaupavestinu sínu.
Lokatími minn var: 03:21:26 – 6 sæti kvk overall af 89 konum og 3 sæti í aldursflokki af 32 konum.
Um kvöldið hélt svo Siggi Kiernan og Hildur konan hans uppá mega partý í fallegu sveitinni hjá foreldrum Sigga í Eyjafirði og þar var sko mikið stuð langt fram á nótt.