Ég var glöð þegar ég vaknaði í skálanum í Landmannalaugum í morgun, því ég hafði sofið ágætlega og var fegin að hafa ekki sofið í tjaldi og eiga eftir að pakka því.
Fékk mér góðan morgunmat og fór á salernið í rólegheitum áður en rúturnar komu. Var búin að græja allan keppnisfatnað og dót í hlaupavestið, svo ég var tilbúin frekar tímalega.
Skilaði töskunni sem átti að fara inní Þórsmörk í rúturnar þegar þær komu. Svo var kominn tími á myndatöku hjá Náttúruhlaupahópnum sem var búin að æfa saman undir leiðsögn Elísabetar Margeirsdóttur síðan í vor.
Ég var að fara Laugavegshlaupið í fjórða skiptið, en var í fyrsta skipti í gulum ráshóp, þ.e. fremsti ráshópurinn. Ákvað því að koma mér fyrir aftast í þeim hópi, en það eru um 138 hlauparar í hverjum hóp, gulur, rauður, grænn og blár og þeir eru ræstir með 5 mínútna millibili, þ.e. klukkan 9.00, 9:05, 9:10 og 9:15.
Eftir ræsingu og nokkra metra hlaup, þá þarf að hlaupa yfir brú svo það myndast mikill flöskuháls þar, ég þurfti að bíða nákvæmlega í 2 mín og 51 sek til að komast yfir, þar sem ég var aftast í gulu, svo það var ekki langt í fremstu rauðu þegar ég komst loksins yfir brúna.
Ég lagði af stað með Róberti Marshall og Betu sem hafði líka komið sér fyrri aftarlega þar sem hún var búin að hlaupa Laugaveginn, þ.e. öfugan, frá Þórsmörk uppí Landmannalaugar, hún er ótrúleg hún Beta vinkona mín, en hún lagði af stað klukkan 01:00 um nóttina. Róbert var að taka upp myndband á GOPRO fyrir þáttinn sinn Úti, og þau Beta voru bara að spjalla þarna í byrjun.
Landmannalaugar – Hrafntinnusker
9,95 km = 1:19:56 moving time (1:22:47) mismunur á tíma er örtröðin í byrjun.
(Average moving pace 8:19)
Við Róbert spjölluðum saman á leiðinni upp fyrsta legginn. Ég sagði honum að ég væri partur, eða ein af Marglyttunum, en Brynhildur konan hans er ein af Marglyttunum og Róbert ætlar að fara með okkur yfir Ermarsundið.
Þar sem ég gekk fyrstu 4 km af leiðinni í gær þá var ég búin að taka mikið af fallegum myndum, annars hefði ég ekki staðist freistinguna að stoppa og taka myndir, því það er svo ofboðslega fallegt þarna. Reyndar var Siggi næstum því búin að fá mig til að skilja símann eftir, en við Óli ákváðum að ég myndi vera með hann sem öryggistæki. Mér fannst ferðin upp ganga mjög vel, ég fór alls ekki of hratt, labbaði allar brekkur og skokkaði svo bara létt niður og á jafnsléttu.
Tíminn þegar ég kom í Hrafntinnusker var 1:22:47, en moving time, eða tími á hreyfingu var 1:19:56, svo mismunurinn 00:02:51 var bara tíminn sem tók mig að komast í gegnum þrengingarnar í byrjun.
Ég var búin að taka á leiðinni eitt GU gel og einn GU gúmmíkubb, en ég hafði stillt Garmin Fenix úrið mitt þannig að það minnti mig á að borða (EAT) á 30 mín fresti. Ég var bara með einn drykkjarbrúsa á mér og var ekki hálfnuð með hann þegar ég kom í Hrafntinnusker, svo ég þurfti ekki að stoppa til að fylla á hann, svo ég hélt bara áfram.
Hrafntinnusker – Álftavatn = 11.11 km 1:23:06 (1:22:10) uppsafnað = 2:45:53
LAP TÍMI ÚT 2:46:54 (stoppaði í 1 mín1 sek). (Average moving pace 7:29)
Eftir Hrafntinnusker tekur við snjókaflinn, sem var mun styttri í ár, vegna hlýinda. Veðrið var gott og það var yndislegt að hlaupa niður eftir og yfir snjóskaflana. Ég hljóp með Black Diamond stafina mína sem ég hef alltaf hlaupið með í Laugavegshlaupinu og ég elska þá og myndi ekki vilja hlaupa án þeirra. Þeir halda mér stöðugri í snjóskaflanum og það er mikill stuðningur að vera með stafi upp brekkurnar. Útsýnið í áttinni að og yfir Álftavatn er algjörlega magnað, algjör póstkortamynd.
Róbert náði mér stuttu eftir að ég var lögð af stað frá Hrafntinnuskeri, þar sem hann hafði stoppað við skálann í Hrafntinnuskeri, sem ég gekk bara fram hjá. Við héldum áfram spjallinu og nutum góða veðursins og fallega útsýnisins. Þegar ég var að klífa eina brekkuna, heyri ég kallað Halldóra, Halldóra og vissi ekkert hvaðan á mig stóð veðrið, átti ekki von á neinum þarna. Þá var það yndislega Milla vinkona mín úr Ísbjörnunum sem var að leiðsegja útlendingum og allur hópurinn var farinn að kalla nafnið mitt. Ég fékk að sjálfsögðu stórt orkuknús frá henni, sem var magnað.
Það var líka gaman að koma að Álftavatni og sjá að ég var að bæta mig um ca 9 mín frá því í fyrra. Man að klukkan var 3:00:00 þegar ég kom í fyrra, en þá ræsti ég með rauðum, svo tíminn þá var 2:55:00 ca. Ég stoppaði í um 1 mín, þeir rifu miðann af númerinu mínu, ég fyllti orkudrykk á brúsann minn, fékk mér 3 bananabita og hélt áfram.
Var búin að taka inn GU gel og GU gúmmi reglulega, gelið á 60 mín fresti og gúmmí á 30 mín fresti.
Álftavatn – Emstur = 15,90 km 1:59:54 (1:58:41)
Samanlagt 4:46:48 – 4:47:16 út ..(Average Moving Pace 7:28)
Eftir Álftavatn, koma tvær litlar ár, sem þarf að vaða. Ég notaði tækifærið eftir að hafa vaðið þær, að njóta bananna sem voru mjög kærkomnir.
Það er margar ástæður fyrir því að ég elska Utanvegahlaup, eins og fallegt útsýni, maður sér hluti sem maður myndi ekki sjá annars, það er gott undirlag og eitt það skemmtilegast er að maður eignast góða vini á leiðinni. Ég var búin að hlaupa mikið með Róbert og svo var þarna ungt par að hlaupa á svipuðum stað og ég. Þau tóku reglulega fram úr mér og ég svo fram úr þeim á drykkjarstöðvunum. Það var líka skemmtilegt að hlaupa fram hjá Hvanngili, þar hitti ég marga sem ég kannaðist við og fékk “high-five”. Í fyrrasumar þegar við Gunnur vinkona hlupum Laugaveginn á tveim dögum með Náttúruhlaupurum þá gistum við í Hvanngili. Stoppaði ekki núna til að fara á klósettið í Hvanngili eins og í Laugavegshlaupinu í fyrra, heldur hélt ég bara áfram. Ákvað samt að sækja litla Ipodinn minn, því ég sá það stefndi allt í að ég yrði ein á ferð yfir sandana, þar sem Róbert var farin aðeins á undan mér.
Næst var að vaða Bláfjallakvísl og það gekk mjög vel. Varð að sjálfsögðu að taka upp gsm símann minn og taka SNAP af ljósmyndara Fjarðarpóstsins sem var að taka myndir af mér (sjá myndir í albúmi hér að neðan).
Eftir Bláfjallakvísl er hægt að komast í “drop-bag” töskuna. Ég þurfti ekki á neinu að halda á þessum tímapunkti í töskunni, en þar var ég með auka skó, sokka, samloku, epli, Appelsín, Redbull og auka fatnað. En ég var í góðum gír og hélt því bara áfram.
Hljóp ein yfir sandana og hlustaði á tónlist, því ég var eiginleg alein að berjast á móti vindinum, hefði verið skemmtilegra að hafa félagsskap, en stundum þróast hlutirnir bara svona. Stoppaði og bætti á brúsann á drykkjastöð sem er hinum megin við sandana. Hitti svo frábæru Ísbjarnarvini mína þarna á leiðinni og fékk high-five frá öllum og knús frá Ingu.
Það er alltaf góð tilfinning þegar maður er alveg að koma að síðustu brekkunni niður að Emstrum, svo þá var bara að gefa í og láta sig vaða niður.
Emstrur – Þórsmörk = 15,94 km – 2:12:43 = 6:59:59 uppsafnaður tími .. moving time 6:52:50 (average moving pace 8:16)
Fékk frábærar móttökur í Emstrum, knús frá yndislegri konu sem ég held ég þekki ekki neitt og klapp frá öllum hinum. Stoppaði ekki lengi í Emstrum, fyllti bara orku sem ég þynnti með vatni á brúsann og tók mér 3 bananabita og hélt svo af stað. Ég hitti Cicci úr Ármanni við skálann og hljóðið í henni var ekki gott, en hún hafði hlaupið fram úr mér niður Jökultungurnar. Hún kvartaði yfir bæði maganum og hnénu og var svekkt að sjá fram á að ná ekki markmiðum sínum. Ég hvatti hana bara áfram og sagði að nú væri bara markmiðið að klára og hafa gaman, tíminn skipti engu máli. Hélt svo ein áfram.
Mér leið mjög vel þegar ég hljóp frá Emstrum, þar sem ég hafði hlaupið þetta um daginn með Náttúruhlaupahópnum, þegar við hlupum frá Þórsmörk upp í Emstrur og til baka aftur svo ég þekkti leiðina og gekk mjög vel alla vega fyrst um sinn. Svo kemur mjög langur, flatur kafli áður en maður kemur að Kápunni, þar hægði verulega á mér. Ég datt í félagsskap með þrem öðrum og sá við vorum öll að hlaupa frekar hægt, eða á 7:20 til 7:40 pace. Svo var einn hlaupari sem var alltaf að taka fram úr okkur, hljóp mun hraðar en við, en stoppaði svo alltaf og þurfti að ganga, veit ekki hvort það voru krampar eða eitthvað annað að hrjá hann, svo ég hugsaði með sjálfri mér að það væri þá skárra, að halda bara stöðugt “hægt” áfram, en að hlaupa hratt og þurfa alltaf að ganga þess á milli. Ég lét það aldrei eftir mér að ganga, en hlaupið var ekki mjög hratt á þessum kafla. Eins og Bibba myndi segja: „kallarðu þetta að hlaupa Halldóra“ 🙂 🙂
Fyllti á vatnið í drykkjarstöðinni fyrir Kápuna, hef yfirleitt fengið mér kók og snickers þar en langaði ekkert í það núna. Fékk mér bara síðasta GU gelið mitt og hélt upp kápuna. Það var göngufólk að ganga upp og þau voru á sama hraða og ég, sem sýnir og sannar að ég fór alls ekki hratt upp kápuna.
Mér gekk betur niður í áttina að Þröngá, en fann ég var samt orðin tæp með krampa. Var því búin að vera að drekka gúrkusafanna sem ég var með á mér. Eftir að hafa vaðið Þröngá, sá ég að það var orðið tæpt í að ég næði sub7 eins og mig langaði. Við vorum ennþá þarna nokkur saman og ég var farin að hvetja strákana áfram og tala um að það gæti verið skemmtilegt að reyna að ná sub 7. En eftir Þröngá, eru þrjár brekkur á leið inní Húsadal, þær eru ekki langar eða brattar, en þær eru krefjandi þegar þú ert búin að hlaupa rúmlega 50 km. Ég vissi að það væru 3 km eftir og markmiðið var að ná 6:59 eða sub 7.
Þegar ég var komin upp þessar krefjandi brekkur, gaf ég allt sem ég gat í niðurhlaupið og henti mér fram úr nokkrum hlaupurum. Þurfi að láta vel í mér heyra, svo mér yrði hleypt fram úr, en ég fann og vissi að ég hafði orku og kraft til að gefa í, þarna í lokin. Það var mikið af fólki þarna að hvetja og það var ekki leiðinlegt. Hitti Óskar Daníels og fjsk. hans og gaf verulega í. Tók svo þvílíkan lokasprett og tók ekki einu sinni á móti high-five kveðjum þegar ég var á leið í mark. Heyrði ekkert af því sem María vinkona mín Ingimundardóttir sagði um mig á leið í mark, þar sem augu mín horfðu bara á klukkuna sem var 7.00.13 þegar ég tók Haddýjar hoppið yfir marklínuna. (Sleppti því að sjálfsögðu ekki 🙂 )
Var MJÖG SVEKKT ..svo vægt sé til orða tekið, þar sem ég fór á 7:01:06 í fyrra og ætlaði mér að ná 6:59:59 eða undir 7 klst í ár. Það voru allir að óska mér til hamingju og ég var bara svekkt ha ha ha þangað til að Maja Sæm vinkona mín fór á timataka.net og komst að því að ég var á 6:59:47 samkvæmt flögutíma ha ha ha 😊 Þá tók ég gleði mína á ný.
Endaði hlaupið á 6:59:47 flögutími sem er PB. Varð í 26 sæti af 177 konum sem klára og í 7 sæti af 42 konum í mínum aldursflokki (konur 50-59 ára). Í fyrra var ég í 43 sæti af 182 konum sem klára og í 14 sæti af 73 í aldursflokki (konur 40-49 ára).
Búnaður:
Skór: Hoka Speedgoat 2 (frábærir)
Bolur: Salomon sparibolurinn
Stuttbuxur: Salomon sparipilsið mitt
Sokkar: Uppáhalds DryMax sokkarnir mínir
Legghlífar: Compresssport
Vesti: Salomon 8 lítra – með einum 500 ml. brúsa
Næring: GU gel, 1 fyrir hlaup og svo eitt á 60 mín fresti og GU gummi á móti á 60 mín fresti fyrst eftir 30 mín. Tók 5 eða 6 gel og 1 ½ GU Chomps
Úr: Garmin Fenix 5x Plús (elska það)
Þakkir: Elsku Beta (Elísabet Margeirsdóttir), hlaupaþjálfari kærar þakkir fyrir gott prógramm. Elsku Rúna Rut takk fyrir frábært aðstoðarþjálfarateymi, alltaf gaman að æfa með þér. Kæru NH Laugavegsæfingafélagar – takk fyrir frábært æfingatímabil. Þakka Sigga og Bigga fyrir skemmtilegar samverustundir í Landamannalaugum og svo í Þórsmörk (sjá fleiri myndir um það annars staðar á síðunni).
Takk elsku Óli fyrir endalausa þolinmæði fyrir öllum æfingunum 😊
Laugavegshlaupið er árshátíð utanvegahlaupara. Það er svo gaman þegar maður kemur í mark að hitta alla vini sína og knúsa þá. Hér að neðan eru myndir úr Laugavegshlaupinu 2019.
‘