Dagur 4: Dyngjufjalladalur- Gæsavötn

by Halldóra

73 km, hækkun +806 m, lækkun -533 m
RAUN: 73 km og 911 m.hækkun

VIð pökkuðum tjöldunum og gengum frá í kerrurnar og lögðum af stað klukkan 10:00. Það var langur og krefjandi dagur framundan.

Það var áfram mjúkur sandur og svolítil hækkun í byrjun. Svo gekk mjög vel þar framundan. Eftir um 20 km þá fórum við yfir Urðarháls, sem er klárlega réttnefni, þar sem var bara urð og grjót. Svo kom mjög mjúkur sandur og ég datt þrisvar sinnum á vinstri hliðina, þar sem sandurinn var svo mjúkur og dekkin hjá mér mun mjórri en hjá öðrum. En ég var í pedalaskóm sem ég náði ekki að losa í tíma, þó ég hafi reynt að vera laus hægra megin, þá rann ég þannig að ég datt á hliðina alltaf vinstra megin, en sem betur fer mjúk lending í sandinum svo ég meiddi mig ekki neitt við bylturnar.

Eftir þennan erfiða kafla þá kom mjög grýttur kafli og eftir þessa erfiðu kafla var mjóbakið á mér orðið MJÖG SLÆMT, þannig að í hvert skipti sem ég stoppaði þá lagðist ég alveg útaf til að reyna að rétta úr bakinu.

Við fengum lúxus kaffi frá lúxuskerru Sigrúnar við skála þar sem margir komu aftur inní hópinn.

Á þessum tímapunkti vorum við búin með um 50 km af rúmlega 70. Svo kom mjög erfiður langur kafli, þar sem ég rétt náði að hanga í Guðrúnu og Ingu og ég fann að orkan var farin að þverra þegar við hjóluðum yfir síðasta hlutann af svona árfarvegi (eins og flæðurnar) á Gæsavatnaleið sem var mjög krefjandi leið að hjóla en ofboðslega falleg.

Það átti ekki að vera neitt vað, þennan daginn, en það var það mikið í ánum að við urðum að hjóla yfir, nokkrar djúpar sprænur. Á tíma var ég orðin það þreytt, að ég lét mig bara vaða, gangandi yfir ána og reiddi hjólið, því það tekur verulega í að reyna að hjóla í þessum mjúka moldar-drullu árfarvegi og ekki mikil orka eftir á tankinum. Hefði á þessum tímapunkti átt að taka inn orkugel. Borðaði bara nestið, smá súkkulaði og borðaði GU gúmmí, en reyndar fyllti alltaf brúsa af frábærum orkudrykk á hverjum morgni frá „UCAN“. Þegar horft er í baksýnisspegilinn hefði ég kannski átt að skipuleggja orkuinntöku dagsins betur, sérstaklega á svona löngum og/eða erfiðum dögum. Hefði t.d. átt að vera með duft í annan brúsa að UCAN orkunni, því hún er einstaklega góð.

Hilmar “tali-gæt” stoppaði okkur svo á hæsta punkti á hálendi Íslands 1100 metrum og við sungum og gerðum létt grín og nutum útsýnis yfir Tungnafellsjökul og Bárðarbungu.

Síðasti kaflinn var líka mjög krefjandi, það var mikil hækkun eftir og ég þurfti að nota hátalarinn og tónlistina til að koma mér bara alla leið í skálann, bakið var ekki gott, en mikið var gott að koma í skálann.

Þar var mjög gott veður, og margir sem gistu í tjaldi en samt margir inni, því þessi skáli er mjög notalegur, hlýr og heimilislegur.

Við Guðrún lentum í smá vandræðum með kæliboxin okkar, þar sem þær þoldu ekki hossinginn í kerrunni, svo rjómaosturinn hjá mér var komin út um allt box. Bryndís hjálpaði mér að fara út í vatn og þrífa kæliboxið.

Skálinn var eins og áður segir einstaklega flottur og við fengum ofboðslega gott, grillað lambalæri sem sem Þóra, Sigrún Hrönn og Sigrún Hallgríms sáu um. Það átti að bjóða uppá nýbakaða köku líka, en þar sem við komum svo seint, þá var ekki tími til þess og því var boðið uppá desertvín og súkkulaði sem var mjög gott.

Frábær en virkilega krefjandi leið og góður og fallegur dagur að kvöldi kominn.

You may also like

Leave a Comment