Lánsöm og full þakklætis

by Halldóra

Í dag eru nákvæmlega sex vikur síðan ég datt á reiðhjóli, þegar ég átti rétt innan við 1 km í mark í Gullhringnum 2013.

Ég braut 5 rifbein og viðbein sem gert var að og ég fékk mar á lunga, loftlunga að hluta og mar á höfuðið eftir að hafa fengið heilahristing, þegar ég rotaðist. Ég lá á spítalanum í 11 daga og læknarnir sögðu að ég yrði að vera frá vinnu til 1. okt.  Ég varð að hætta við að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í þríþraut í London sem ég hafði ætlað að taka þátt í sem og maraþoni í Munchen sem ég ætlaði að hlaupa með Óla (hans fyrsta maraþon).

Nú sex vikum síðar er ég einstaklega þakklát, þakklát fyrir að ekki fór verr. Þakklát fyrir að lenda ekki í þessu slysi fyrr en í lok sumars. Þakklát fyrir að hafa getað klárað Ironman í sumar, hjólað Jakobsstíginn og klárað Landvættinn.

Ég er virkilega þakklát að hafa getað mætt í vinnu innan þriggja vikna frá slysinu. Þakklát að geta hjólað aftur og hlaupið, en ég hljóp í fyrsta skipti í gær 8 km með hlaupahópnum mínum Bíddu aðeins.  Fór ekki hratt, en Bibba, Sjana og Óli hlupu með mér.  Svo er ég búin að hjóla um 100 km um helgina, með Óla og Ásgeiri og það á racernum sem ég var á, þegar ég datt.  Auk þess er ég búin að fara í stutta göngutúra með hundana i þessu yndislega veðri.

Það eru forrréttindi að geta hreyft sig og notið náttúrunnar. Ég er líka búin að ganga á Hafnarfjall, alveg upp á topp eftir að ég datt og það var yndislegt.

Nú þarf ég bara að prófa að fara aftur á sundæfingu til að kanna hvort ég geti ekki farið að synda líka, því sundlaugarnar okkar eru þær bestu í heimi.

Lífið er yndislegt og ég var mjög heppin.

Munum öll að njóta hvers dags því lífið er fallvalt 🙂

You may also like

Leave a Comment