Buthan – Stage 5 (31.05.2018)

by Halldóra

Camp5: Paro (2.280 m hæð – gistum í bóndabæ) 
Stage 5: 53,5 km / hækkun 2.048 m / lækkun 1.745 m 

YFIRLIT YFIR STAGE 5
Stage 5 er lengsta leiðin í kílómetrum eða 54 km og í raun líka lengsta dagleiðin fyrir flesta í klukkustundum og mínútum. Hlaupið er í gegnum dalinn í Paro (2.280 m).  Hópnum var skipt í tvennt. Átján fremstu hlaupararnir eftir fyrstu fjórar dagleiðirnar voru ræstir klukkan sjö en hinir klukkan sex.  Farið er fram hjá virkilega fallegu virki í Paro „The  Paro fortress“, flugvellinum og vænum hrísgrjónaökrum, auk þess að fara fram hjá, fótspori Tiger’s Nest.  Endamark dagsins er við Drukyal virkið (2.582 m). Virkið var byggt til að fagna sigri Bhutan á innrásarher þeirra, en það er verið að gera það upp núna. Drykkjarstöð 1= 10,7 km. Drykkjarstöð 2 eftir 10,3. Drykkjarstöð 3 eftir 10 km. Drykkjarstöð 4 eftir 10 km. Lokamarkið eftir 11.7 km. 

Everything that has a beginning has an ending. Make your peace with that and all will be well.

Buddah

THE GREATEST PRAYER IS PATIENCE 

Þolinmæði er dyggð og/eða þolinmæði þrautir vinnur allar.  Ég fann ég var í góðum gír, þegar ég lagði af stað. Ég var komin í „spari-hlaupafötin“ mín, þ.e. Salomon pils-dressið mitt. Var búin að ákveða að hlaupa í því síðasta daginn, en þar sem ég vissi að  þessi dagur íyrði líka langur og heitur, ákvað ég að skella mér í það og ég sá sko ekki eftir því, þar sem hitinn var mikill.

Siggi var orðin mjög slappur, þegar ég lagði af stað og ég hafði áhyggjur af því að hann myndi ekki komast að ráslínunni þennan morguninn, en hann átti ekki að fara fyrr en klukkan 07:00.  Hulda fékk í hnéð á degi 3 og varð því miður að hætta keppni þá.  Svo það vorum við Bekka, Ásgeir, Iðunn, Stefán Bragi og Viktor sem ræstum klukkan 06:00.

Sólin var að koma upp og það var ekki orðið of heitt, svo það var bara yndislegt að leggja af stað. Hlupum samt mjög mikið á malbiki. Fyrsta drykkjarstöð var eftir 10,7 km.  Hlupum svo í gegnum hrísgrjónaakrana, þar tókst mér að villast, ekki einu sinni heldur tvisvar. Sem betur fer var ég með leiðina í úrinu, þannig að þegar ég var komin mikið af leið þá pípti úrið á mig og ég snéri við.

Ég hitti Charles frakkann vin minn, sem bauð mér salttöflur, sá sami og hafði tekið fram úr mér í klifrinu og fannst ég rása mikið og var stöðugt að minna mig á saltinntöku.  Hann sagði mér að Ipodinn hans virkaði ekki og ég var svo heppin að vera með auka Ipod – svo ég lánaði honum annan minn.

Hélt svo áfram að hlaupa og hlustaði á Aqua (Barbie Girl, I´m happy o.s.frv.) og á Adele.  Rétt áður en ég kom að drykkjarstöð 2, eftir 21 km drykkjarstöðinni, hitti ég Viktor sem var orðin ansi örmagna. Hann hafði hlaupið deginum á undan í 10 klst án þess að taka inn neina orku né morgunmat.  Hann hafði því ákveðið um morguninn að leggja af stað og sjá svo til. Á þessum tímapunkti var hann búin að komast að því að hann myndi ekki klára þessa 54 km, NB!!!! við vorum búin að hlaupa 130 km síðustu fjóra daga.  Hann var því búin að taka ákvörðun um að hætta á næstu drykkjarstöð. Ég reyndi ekki að fá hann til að skipta um skoðun, virti algjörlega þetta mat hans og lét lækninn vita þegar ég kom á drykkjarstöðina að hann væri á leiðinni og búin að taka ákvörðun um að hætta. Læknateymið í þessu hlaupi var einstaklega gott og þau fylgdust vel með öllum og aðstoðuðu þá sem glímdu við einhvern vanda. En þau voru ekki þarna til að aðstoða okkur við að sprengja blöðrur eða gera um smásár en buðust til að kenna okkur það ef við þurftum.

Að koma að drykkjarstöð 2

Eftir drykkjarstöð 2, hélt ég áfram, reyndar villtist aðeins, fannst ekki alveg nógu góð merking þarna, fann einhverjar tröppur og fór að þvælast þær upp og niður 😉

Fann svo loksins réttu leiðina og hljóp út á flugvöll. Leiðin lá svo meðfram flugvellinum og þar áfram inn í skóg. Þar fór ég að leika mér á Facebook live, svo ég villtist aðeins aftur. Ekki gott að vera ekki að fylgjast með 🙂

Við endann á flugbrautinni og þessum skógi var ég ég hálfnuð með dagleiðina og það var orðið ansi heitt og rakt. Fyrstu karlhlauparar sem höfðu ræst klukkustund á eftir mér og Beta tóku þarna fram úr mér.  Það var gaman að hitta Betu sem var á fleygiferð. Á næstu drykkjarstöð eftir 31,8 km þá hellti ég vatni yfir mig alla eins og í Texas. Ég var farin að halda að þetta væru álögur á mér að hlaupa erlendis í svona miklum hita, enda bara 4 vikur frá Ironman Texas, þar sem ég hljóp maraþonið í 32°Celsíus.

Framundan voru langur malbikaður kafli, sem virkaði endalaus. Þá var bara að „halda haus“ og passa sig að detta ekki í að  labba. Ég tók upp ákveðinn rithma, gekk t.d. 10 skref og hljóp 30, gekk svo 10 og reyndi að hlaupa 40 o.s.frv. reyndi þannig að fjölga hlaupaskrefunum og fækka gönguskrefunum. Hljóp fram hjá Bobby, sem var bara að ganga, enda að berjast við verk í hnénu, og var búin að duck-teipa Hoka hlaupaskóna sína, sem höfðu rifnað.

Kom svo loksins að hengibrúnni sem lá í áttina að einhverjum bæ, þar sem yndislega Hulda mín tók fagnandi á móti mér. Hún var í svo fallegu Bhútönsku pilsi. Ryan læknir var þarna líka og ég fann ég var bara í góðum gír, þetta var síðasta drykkjarstöðin eftir 41,8 km.  Man ég hélt upp á það í hausnum að ég væri búin með eitt stk maraþon, 42,2 km eftir að hafa hlaupið 130 km síðustu fjóra daga og það í milli hækkun. Það var sko eitthvað til að halda upp á og fagna.  Auk þess var ég ánægð að þó þessi dagleið væri LÖNG, þá var ég ekki í yfir 3000 metra hæð, svo mér leið bara vel.  Aðalmálið var bara að halda haus og halda stöðugt áfram. Hulda keypti handa mér Fanta í búðinni, wow hvað það var gott. Ég hélt svo áfram minni leið.

Loksins endaði malbikið og við fórum virkilega fallega leið meðfram á. Sara og Tom Sawyer komu þá og tóku fram úr mér. Stuttu eftir það sá ég hvar Sarah missti fótanna og datt í ána, á bólakaf með rassinn. En hún var ótrúlega fljót upp aftur og þessi kæling gerði henni greinilega gott því eftir það var eins og hún hefði fengið vítamínsprautu, hún bara þaut áfram og á undan Tom, skildi hann bara eftir.

Hlaupið endaði í fallegu virki, en það sem var erfitt við endamarkið var að  þegar maður hélt að maður væri kominn í mark, sá alla hlauparna og matartjaldið þá var eftir að klifra upp í virkið, sem var þó nokkuð mikil brekka, lengri leiðina í kringum bygginguna. Alla vega tók þetta á þegar maður var búin að hlaupa 54 km 🙂  En endamarkið var virkilega fallegt og skemmtilegt að koma þangað. Að sjálfsögðu var Haddýjar hoppið tekið í markinu.

Beta var ennþá í markinu þegar ég kom, ennþá í hlaupafötunum, en orðið mjög kalt, og var mjög þreytt. Læknirinn skipaði henni að fara niður og í hrein föt, svo ég og VIktor fórum með henni. En Viktor tók líka á móti mér í markinu.

Við fórum niður í hús, þar sem Siggi lá mjög lasinn fyrir og við skiptum um föt. Þarna var engin leið að þvo sér nema með kattaþvotti sem ég og gerði og klæddi mig vel.   Dældi amerískum flensulyfjum í Sigga og dúðaði Betu sem var ennþá kalt. Siggi hafði hætt á sama stað og Viktor þ.e. drykkjarstöð tvö og var orðinn hundlasinn.

Við vorum þarna í stóru herbergi með einhverjum gömlu munki og í fyrsta skipti síðan við lögðum af stað sáum við sjónvarp, en munkurinn var að horfa á CNN 🙂  Við Viktor fórum svo aftur upp að taka á móti Guðmundi Smára (misstum reyndar af honum) en náðum Bekku og Ásgeiri, veit ekki hvað ég fór margar ferðir upp að markinu eftir að ég kom í mark, enda var ég alltaf ótrúlega hress þegar ég var búin með mína dagleið.  Við gengum svo á móti Iðunni og Stefáni og fórum í matarbúðina og keyptum okkur fullt af áfengislitlum bjór og núðlusúpum.

Um kvöldið var svo Race-briefing fyrir síðasta daginn, kvöldmatur og svo var bara að koma sér snemma í rúmið eins og vanalega.

Ástandið á hópnum var ekki mjög gott, Siggi og Viktor báðir frekar slappir, og Hulda var ennþá með verk í hnénu. Viktor tók samt ákvörðun um að hlaupa síðasta daginn, síðasta legginn, en Siggi og Hulda ætluðu með bílnum og taka á móti okkur í Tigers Nest.

STRAVA = 54,03 km – T’ÍMI:  08:05:08

MYNDIR FRÁ STAGE 5 ER AÐ FINNA HÉR

You may also like

Leave a Comment